Greinaskrif byggjast á fjórum aðalatriðum
18.9.2009 | 08:58
Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna í ósköpunum sumt fólk ryðst fram á ritvöllinn í bloggi eða blaðagreinum án þess að hafa áður mótað hugsun sína. Ekki síður er það furðulegt þegar fólk virðist ekki einu sinni hafa haft fyrir því að lesa skrif sín yfir.
Daglega les maður í Mogganum greinar sem eru svo fátæklegar af sjálfsögðum hjálpartækjum lesenda. Í raun skipta þrjú til fjögur atriði meginmáli svo grein geti vakið athygli.
- Fyrirsögnin
- Upphaf greinarinnar
- Millifyrirsagnir
- (Notkun greinaskila)
Kreppuþankar nefnist grein eftir Valgerði Bjarnadóttur í Mogganum í morgun og hún fellur á öllum þessum ofangreindu atriðum. Fyrirsögnin er vond, upphafið og langt og engar millifyrirsagnir.
Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar fyrrverandi alþingismanns er nákvæmlega á sömu bókinna brennd. Stjórnmálamenn eiga það oft til að ganga í fótsporum Gunnars Thoroddsen fyrrverandi forsætisráðherra sem átti það til oftar en ekki að rifja upp atburði frá landnámsröð í réttri tímaröð þangað til hann kom að efni máls.
Grein lögmannsins Einars Þórs Sverrissonar þar sem hann ver sig fyrir árásum Agnesar Bragadóttur blaðamanns er annars eðlis. Honum tekst þó ekki vel upp. Einar er í mikilli vörn og breytir því ekki með grein sinni. Hins vegar virðist hann hafa nægt efni til að hreka rök Agnesar en nýtir þau ekki og veit greinilega ekki af þessum ofangreindum fjórum atriðum.
Versta greinin er þó eftir þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Verð þó að viðurkenna að samúð mín með þessum ógæfusömu þremenningum hefur farið hraðminnkandi eftir því sem lengra hefur liðið frá kosningum. Það breytir þó því ekki að greinin er alltof löng, fátt er um greinaskil, engar millifyrirsagnir, upphafið er vont og fyrirsögnin allra verst. Því til viðbótar má nefna þennan réttlætingartón sem rekur sig í gegnum alla greinina og hvetur mann til að hætta lestri.
Jafnvel vanir pennar flaska oft illilega á greinaskrifum. Takið bara eftir upphafinu á þessari grein, hún er alls ekki í anda þess sem hér hefur verið sagt. Hins vegar hefur allt sitt eigið viðmót, grein í dagblaði, tímaritagrein, frétt og svo framvegis.
Og las ég greinina mína yfir?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.