Hægri og grænt

22+23 Nafnlaus og EfstifossbLíklega unna flestir Íslendingar landi sínu að mestu leyti óafvitandi á hógværa hátt, ferðast um það akandi eða gangandi. Ekki kunna allir að mæra landið svo í bundnu eða óbundnu máli að lesandinn falli í stafi af hrifningu og ekki er heldur allt fagurt sem ort er. Hafa þó margir reynt að lýsa tilfinningum sínum á þessum síðustu og verstu kárahnúkatímum.

Víst er þó að dýrasti óðurinn er saminn af þeim sem um landið ferðast af þörfinni einni saman og þá verða til síbreytilegar ferðasögur og hver og einn er ýmist sögumaður eða hlustandi. Veiðimaðurinn segir frá viðureign sinni við sterklegan laxinn eða fiman silunginn, fjallgöngumaðurinn greinir frá þungu skrefunum á tindinn og þeim sporléttu til baka, vélsleðamaðurinn básúnar víðátturnar, gönguskíðamaðurinn kyrrðina, sá í jeppanum dásamar fjölbreytnina, allir greina grósku mannlífsins, þakka fyrir og loka tjaldinu að kvöldi dags.

Óður hins almenna manns nær sjaldnast inn á blöð bóka, tímarita eða dagblaða enda er það sjaldnast markmiðið með ferðalögum. Stundum svigna þó vefir takmörkuðum hópi til skemmtunar og kátt er þegar ferðafélagar koma saman og rifja upp reynslusögurnar.

Tilgangurinn er að njóta, í því er fólgin hin fegursta og fullkomnasta tjáning sem til er.

Samskiptin við landið byggja ekki á stjórnmálum, búsetu, efnahag, menntun, jafnvel ekki þjóðerni, litarhætti eða kynferði. Þau eru um allt duldari og óræðari. Ef til vill má rekja ræturnar í auðmýktina þegar hún varð að fyrirstöðu í hálsi þess sem upplifði stórbrotna náttúruna og skildi að tilvera einstaklingsins skiptir sáralitlu samanborið við þúsund ára andartak eilífðarinnar. Augnablikum síðar kann hugsun að verða til á móti rauðu ljósi í eirðarleysi malbiksins ... já, þarna fæddist ég öðru sinni ... eða eitthvað á þá leið.

Í undraveröldinni stendur tíminn í stað hátt fyrir ofan ólgu og áreiti hversdagslífsins. Þar má lengi una sér, en fyrr eða síðar er ferðamanninum ekki stætt á öðru en að snúa aftur til síns fyrra lífs.

Hann sem veigraði sér við því að ganga í djúpum, grænum mosanum, stíga fæti á smágerðan gróðurinn eða raska umhverfinu, velur sporum sínum vandlega ígrundaðan stað. Hann er einn en aðrir hafa verið þarna áður og fleiri koma á eftir. Niður er troðinn stígur sem grefst æ meir, gróðurþekjan rofnar. Vatn og vindar sjá um eftirleikinn. Þetta er kallaður „átroðningur" og hann fer vaxandi veldur áhyggjum en þó er hægt að koma í veg fyrir hann á einfaldan hátt.

Er þá ekki ástæða til að hafa áhyggjur af misnotkun á tækni, hinum tröllauknu átökum „pælodera", „búkollna" og annarra stórvirka vinnuvéla sem vaða yfir allt, eira engu og biðja engan afsökunar.

Fyrirgefðu litla blóm að ég skuli moka þér og átthögum þínum til.

Landinu hefur víða verið breytt til framtíðar. Daglega er ingólfsfjöllunum mokað í burtu, rauðhólunum veitt holundarsár, dimmugljúfrunum lokað, leirufirðirnir skornir, þjórsárnar aflitaðar, hellisheiðarnar mengaðar, hágöngunum drekkt, héðinsfjörðunum spillt, langasjóunum raskað, kolviðarhólarnir járnaðir, geysirarnir stíflaðir, sprengisandarnir kaffærðir, þinvallavötnin eitruð og öskurhverum einfaldlega sagt að þegja.

Þar sem áður var landið fagurt og frítt er nú víða haugur af járni og steinsteypu sem kallast „mannvirki" svo mönnum líði nú betur og því lofað að haugurinn sé fyrir okkur og erfingja landsins. Af hrokanum einum saman skal auðvelt að greina „mannvirkið" frá andstyggilegu landinu. Sjaldnar er reynt að fella það inn í landslagið.

Og haugbúarnir áreita okkur hin, láta sem við þurfum að velja á milli rafmagns og rafmagnsleysis, hita og kulda, framtíðar og fortíðar, tækni og forneskju jafnvel líf og dauða.

Sá sem ekki varla bót fyrir boruna á sér á sjaldnast mikinn möguleika til andsvara, málfrelsið er ekki ókeypis frekar en allt annað. En bíðum við, ekki fagna of fljótt þó aðeins fámennið þenji sig. Hver segir að hinn þögli meirihluti sé á bandi haugbúana?

Viljum við að „mannvirkin " séu í hróplegu ósamræmi við náttúru landsins? Viljum við kosta öllu til fyrir það eitt að ekki hafa allir möguleikar verið kannaðir? Þeir vita sem vilja að Kárahnúkum var fórnað vegna þess að rannsóknir á orkumöguleikum landsins voru ónógar. Næg orka er til í iðrum jarðar og henni fylgja ekki landfórnir.

Svo undrast sumir að umhverfissinnað fólk vilji stofna með sér stjórnmálaflokk til að rödd þess heyrist hjá löggjafarvaldinu, sú rödd sem talar fyrir tilfinningum óháðum dægurþrasi.
Þó vekur það mesta undrun að innan Sjálfstæðisflokksins hafi ekki fyrir löngu risið upp hópur fólks sem leggur áherslu á stefnumótun í ljósi umhverfis- og náttúruverndarmála. Þar er fjöldi af fólks sem getur tekið undir allt það sem sagt hefur verið hér á undan.

Nú er tími kominn fyrir góða sjálfstæðismenn sem unna landi sínu og eru í hjarta sínu fylgjendur íhaldssamrar stefnu í landnýtingu að standa upp og mynda samtök sem gefa flokknum fagurgræna áferð.
Hinn kosturinn er sá að láta slag standa og leyfa Framtíðarlandinu að hirða fylgið.

Eins málefnis flokkur nær sjaldnast neinum áhrifum í stjórnmálum, það er staðreynd sem kann þó að breytast. Aldrei áður hefur neinn verið nauðbeygður til að leggja landið undir, umhverfis- og náttúruverndarmál.

Eins málefnis flokkur? Nafn Sjálfstæðisflokksins á rætur sínar að rekja í eitt mál. Hvað skyldi það nú hafa verið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband