Leiðindi með Laugavegsmaraþon
5.7.2008 | 22:08
Undanfarið eitt og hálft ár hef ég verið að gamna mér við langhlaup. Ekkert merkilegt með það nema fyrir sjálfan mig.
Tveimur kapphlaupum hef ég tekið þátt í og eru þau bæði skipulögð af sama aðilanum, Reykjavíkurmaraþoni. Annað hlaupið er Laugavegsmaraþon og hitt er hálft maraþon í Reykjavík. Mikill munur er á þessum tveimur hlaupum hvað varðar skipulag. Ekkert hef ég út á götuhlaupið í Reykjavík að setja en þvílík hörmung sem skipulagningin er á Laugavegshlaupinu. svo virðist sem skipuleggjendurnir hafi ekkert vit á almannatengslum heldur böðlist áfram eins og ... eins og ... ég veit ekki hvað, ... kannski gjaldheimtan meðan hún var og hét.
Skráningu lokað
Snemma í vetur var til dæmis búið að loka á skráningu áður en að fjöldi þeirra sem þátt tóku í fyrra fréttu að búið væri að opna fyrir skráningu. Ekki datt skipuleggjendum í hug að senda þeim tölvupóst og hvetja þá til skráningar. Áttu þeir þó öll netföng.
Skráning opnuð
Svo varð auðvitað allt vitlaust og skipuleggjendur neyddust til að opna hlaupið fyrir fleirum. Þá komst ég inn en aðeins með því að senda númerið á kreditkortinu mínu til Reykjavíkurmaraþons. Tölvupóstur þykir nú ekki öruggur undir kreditkortanúmer og hreinlega heimskulegt að stilla fólki upp við vegg með þessum hætti. En hvað gat maður gert?
Vandi við ráslínu
Vegna aðstæðna í Landmannalaugum er ekki hægt að ræsa 250 manns af stað í einu. Datt ekki þá gáfufólkinu sem skipuleggur hlaupið í hug að ræsa í fjórum hópum. Þegar þetta er skrifað er óljóst hvernig skipað er í hópa. Ekki veit ég hvort minn er gulur, rauður, grænn eða blár.
Hefði nú ekki verið skynsamlegra að ræsa fyrst okkur sleðana" af stað. Ef til vill klukkutíma síðar mætti ræsa hóp sem er hleypur hraðar og svo koll af kolli? Þá hefðu fleiri komist í mark um svipað leiti og enn fleiri yrðu þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá einhvern tímann þessa sem hlaupa hraðast.
Verðlaunaafhending í rugli
Skipuleggjendur Laugavegshlaupsins ætla nú að vera svo tillitssamir að byrja verðlaunaafhendingu löngu áður en flestir eru komnir í mark. Þar sem ég geri ráð fyrir því að verða ekki í verðlaunasæti, frekar með hægfara helmingnum er ég sviftur þeirri ánægju að sjá hverjir lentu í fyrstu sætunum.
Þetta virkar eiginlega eins og grín. Allir eru farnir heim þegar þeir síðustu koma í mark og geispandi tímaverðir ranka við sér og merkja á dagatal ...
Tóm leiðindi skipuleggjenda
Mér sýnist að skipuleggjendum Laugavegshlaupsins leiðist alveg óskaplega. Starfið er greinilega byrði og þeir vilja rimpa þessu helvítis hlaupi af sem fyrst.
Mér finnst að Laugavegshlaupið megi ekki vera einhvers konar afgangsstærð hjá Reykjavíkurmaraþoni. Ég og fjölmargir aðrir þátttakendur erum þarna til að njóta tilverunnar, reyna okkur við okkur sjálf, landslagið og hugsanlega einhverja aðra. Þetta á að vera skemmtun en skipuleggjendur virðast því miður vera að gera hlaupið að tómum leiðindum.
En ég ... jú ég læt leiðindi ekkert á mig fá, hleyp með erfiðismunum eins og fyrri daginn og reyni að komast í mark. Svo les ég bara um úrslitin í Mogganum mánudaginn á eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.