Ójafnvægið sem veldur hlýnun jarðar
28.12.2023 | 11:31
Its freezing í New York - where the hell is global warming? sagði Donald Trump meðan hann var forseti Bandaríkjanna. Sumir landsmenn hans hlógu honum til geðs, aðrir hlógu vegna grunnhyggni mannsins sem jafnan talar án þess að íhuga málavexti.
Hérlendir spámenn hafa oftsinnis bent á snjóinn úti og fullyrt hæðnislega að hlýnun jarðar sé tóm vitleysa. Aðrir hafa sagt að koltvíoxíð geti varla verið slæm fyrir umhverfið því ljóstillífun gróðurs breytir því með vatni í sykrur og súrefni.
Upphrópanir eiga sjaldnast neitt sameiginlegt með rökræðum. Þeir sem hæst hrópa og eru sennilegastir ná oft miklu meiri árangri en þeir sem vanda sig og feta sig orðmargir að kjarna málsins. Þeir sem ekki lesa fjölmiðla eða bækur grípa óvandaðar fyrirsagnir og gera þær að sínum. Fyrirsagnahausar hafa oft hátt.
Júlíus Sólnes fyrrverandi prófessor ritar afar merkilega grein í Morgunblað dagsins. Hann segir, þvert á það sem margir hafa fullyrt, að varhugavert sé að túlka hærra hitastig jarðar sé af völdum sívaxandi losunar koltvíoxíðs. Júlíus og fjöldi annarra vísindamanna sem hann nefnir vilja fara aðra leið.
Kjarni málsins í grein Júlíusar er þessi:
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur nú um 40 ára skeið mælt orkustrauma sólar og jarðkerfisins inn og út úr gufuhvolfinu með gervitunglum sínum og geislamælitækjum, rétt fyrir ofan lofthjúp jarðar.
Jarðkerfið fær langmestan hluta þeirrar orku (99,98%) sem gerir jörðina byggilega frá sólinni. Ársmeðaltal orkunnar sem við fáum frá sólinni er 340 W/m2 (vött á fermetra) miðað við allt yfirborð jarðar (510,072 milljón ferkílómetrar).
Til þess að loftslag á jörðinni haldist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geiminn. Ef við skilum minni orku en við fáum frá sólinni, hleðst hún upp í jarðkerfinu, það hlýnar. Ef við skilum meiri orku til baka, kólnar. Þetta er einföld eðlisfræði.
Þetta er ekki aðeins eðlisfræði heldur einfalt bókhald. Hvað verður svo um þessa orku sem hleðst upp í jarðarkerfinu ár hvert?
Júlíus vitnar í síðustu ástandsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál. Þar kemur þetta fram:
- Um 91% umframorkunnar fer í að hita upp heimhöfin
- Um 3% fara í að bræða ísinn á Grænlandi, Suðurskautslandinu og landjökla jarðar
- um 5% hitar upp þurrlendi jarðar
- um 1% hitar upp andrúmsloftið.
Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar og Júlíus lýkur grein sinni með þessum orðum:
Þótt ekki sé hægt að nota hitamælingar sem vísbendingu, er hlýnun sjávar og orkuójafnvægið skýr vitnisburður um hnattræna hlýnun, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar. Hana ber að taka alvarlega og grípa til viðeigandi ráðstafana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Facebook
Athugasemdir
Hið rétta er að rangar forsendur veðurfarslíkana IPCC geta ekki útskýrt hlýnunina 1980-2010 nema út frá CO2. Sólvirkni (ekki bara varmaorka sólar) hefir flókin áhrif á lofthjúpinn. Stærztu veðurkerfi jarðar stýrast af sólvirkninni. Ergo CO2 stýrir hvorki þeim né hlýnun eða kólnun lofthjúpsins. Aðalgróðurhúsalofttegundin er vatnsgufan, hún myndar skýin, sólarvirknin hefur áhrif á skýjamyndun. Skýin tempra útgeislun varmaorkunnar sbr. heiðskýr nótt vs. skýjuð nótt. Einföld gagnaleit sýnir skýrt bæði hlýinda- og kuldaskeið á sögulegum tímum fyrir daga iðnbyltongar og aukins CO2 frá henni. Hr. Sólnes veður hér villureyk.
Pétur Ari Markússon (IP-tala skráð) 28.12.2023 kl. 17:56
Fróðlegur þáttur stjarneðlisfræðingsins Haralds Lesch um loftslagið á jörðinni sem 1,8 milljón áhorfendur hafa séð. Missverständnisse zum Klimawandel aufgeklärt | Harald LeschYouTube · Terra X Lesch & Co20 minutes, 56 secondsJul 31, 2019
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 29.12.2023 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.