Fyndin tillaga og bráðnauðsynleg
3.3.2022 | 00:20
Hann segir að tillögunni hafi verið frestað, eins og oft sé gert þegar tillögur koma beint inn, en að hún verði tekin fyrir á næsta fundi. Pawel vildi ekki lýsa endanlegri afstöðu sinni til málsins fyrr en það hefur verið tekið fyrir.
Svo segir í frétt á mbl.is. Í gamla daga var í fjölmiðlum á Vesturlöndum oft vitnað í sovéska blaðið Pravda en nafnið þýðir sannleikur en var þó ekki réttnefni. Oft þurftu sérfræðingar í vestri að rýna í efni blaðsins til að átta sig á hver stefna Sovétríkjanna væri í einstökum málum.
Víkur nú sögunni til nútímans að Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur að heiti Garðastrætis verði breytt í Kænugarðsstræti. Við götuna var sendiráð Sovétríkjanna í áratugi. Svo var breytt um nafn á hinu illa heimsveldi og nú heitir það Rússland eins og landsvæðið hét um aldir.
Tillaga Eyþórs fékk ekki glæsilegar undirtektir hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Því til sanninda eru ofangreind orð Pavels Bartoszeks sem er formaður nefndarinnar og borgarfulltrúi Viðreisnar og situr í Vinstrimeirihlutanum í borgarstjórn.
Pavel getur ekki, frekar en þeir sem skrifuðu í Pravda forðum daga, tekið opinbera afstöðu til nafnbreytingarinnar. Fyrst þarf vinstri meirihlutinn að koma saman og finna út hvernig hægt sé að fella tillöguna, vísa henni frá eða fresta um ókomin ár. Raunar er það þannig að Pavel þarf að fara heim og spyrja Dag Eggertsson borgarstjóra hvernig hann eigi að snúa sér í málinu.
Rykfallnir Kremlarfræðingar hafa nú fengið það verðuga verkefni að kanna hver sé skoðun Pavels Bartoszeks á nafnbreytingunni. Hann gefur líklega ekkert uppi nema í dulmáli rétt eins og kommarnir sem skrifuðu í Pravda.
Við þurfum þó enga Kremlarfræðinga. Dettur einhverjum í hug að það þurfi að grandskoða nafnbreytinguna? Öllum Reykvíkingum þykir hún smellin, bráðfyndin og afar brýn. Öllum nema vinstrinu sem stekkur ekki bros á vör.
Tillöguna þarf að taka fyrir áður en Pavel getur leyft sér að brosa eða hlægja. Líklega mun borgarstjóri hringræða þetta eins og jafnan er sagt er um þá sem tala mikið og lengi án þess að komast nokkru sinni að kjarna málsins.
Ágæti lesandi, ekki halda niðri í þér andanum. Borgarstjóri mun pottþétt ekki sjá neina skoplega hlið á málinu. Hann er einfaldlega á móti öllu því sem Sjálfstæðismenn leggja til. Tillögunni verður vísað frá. Punktur.
Efri myndin er að Leóníd Brésnefi, aðalritara Sovéska kommúnistaflokksins. Hann brosti aldrei nema þegar einhver dó.
Neðri myndin er af Pavel Bartoszek borgarfulltrúa Viðreisnar í vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Hann brosir ekki nema með leyfi borgarstjóra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það voru tvö stór blöð í gömlu Sovétríkjunum, Pravda ("sannleikur") og Izvestia ("fréttir").
Brandarinn um þau var svona: Það er enginn sannleikur í Pravda og engar fréttir í Izvestia.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.3.2022 kl. 22:48
Takk fyrir að rifja þennan upp.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.3.2022 kl. 01:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.