Litlu flokkarnir eru gagnslausir þrátt fyrir fallegar umbúðir

Stjórnmálin eru eins og Makkintosh dolla. Í henni er aragrúi af gómsætum molum. Eftir að hafa freistast til að kaupa svona nammi áttar maður sig á því að litirnir segja ekkert til um hversu gott nammið er. Og þannig er það með stjórnmálaflokkanna sem fyrir kosningar pakka loforðum sínum inn í fallegar umbúðir. 

Eftir kosningar gerist það sama og þegar við veljum fallega molann. Hann er í engu samræmi við útlitið. Bragðast illa. Óbragðið kemur fljótt fram.

Flokkur fólksins

Áferðafallegt nafn og kosningabarátta Flokks fólksins eru umbúðir. Hann mun ekki hafa nein áhrif frekar en hingað til. Hann er dæmdur til að vera smáflokkur komist hann á þing. Formaðurinn hefur hátt, það eitt hefur hann lært á síðustu fjórum árum. Rífur sig, fer rangt með og vera má að hann gráti dálítið til að fá samúð.

Hvað ætla kjósendur að gera ef þátttaka Flokks fólksins í ríkisstjórn kosti að Ísland gangi í Evrópusambandið eða að Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu? Skiptir þetta engu máli?

Ekki það? Flokkurinn ætlaði að bæta kjör aldraða, öryrkja og annarra og í leiðinni kann hann að gjörbreyta stefnu landsins í utanríkismálum eða leggja Landspítalanum til 50% meira fé án þess að gera neina kröfur til hans um meðferð fjárins. Staðreyndin er sú að kjósandinn veit ekkert hvernig flokkurinn mun haga sér komist hann í ríkisstjórn.

Píratar

Píratar eru samskonar flokkur sem kostað hefur ríkið mikið fé. Aðall hans er að leggja fram ótrúlegar fyrirspurnir á þingi um hitt og þetta sem litlu skiptir. Afleiðingin er sú að stjórnvöld hafa þurft að eyða miklum tíma í að svara, tíma sem annars hefði farið í mikilvægari mál eins og að vinna fyrir almenning. Og hvað gerðu Píratar við öll svörin? Ekkert. Þökkuðu ekki einu sinni fyrir ómakið.

Atkvæði greitt Pírötum kann að leiða til þess að Ísland gangi inn í Evrópusambandið, fyrirtæki landsins verði skattpínd. Er til dæmis skynsamlegt að taka upp stórhækkað auðlindagjald ofan á tekjuskatt fyrirtækja í sjávarútvegi? Dettur fólki hug að tveggja manna bátur til dæmis á Skagaströnd geti greitt auðlindagjald? Nei, en þá eiga að koma undantekningar frá aðalreglunni og undantekningar frá undantekningunum. Ekki traustvekjandi.

Viðreisn

Viðreisn er annar flokkur sem pakkað er inn í fagrar umbúðir en er í raun ekkert annað en umbúðirnar. Hann reynir allt hvað tekur að skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum þó allir forystumenn flokksins komi þaðan og líka kjósendur hans. Viðreisn vill ekki einu sinni vinna með Sjálfstæðisflokknum. Þess vegna tók hann saman við Samfylkinguna, Vinstri græna og Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur og kyngdi ælunni. Hann leggur í herferð gegn bílaumferð, flugvellinum og öðru sem fólk þarf nauðsynlega á að halda. Óbragðið er Evrópusambandsaðildin og Evran sem er í raun það eina sem flokkurinn byggir á. 

Dettur einhverjum í hug að einhliða binding krónunnar við Evru eða upptaka gjaldmiðilsins muni ekki hafa slæm efnahagsleg áhrif þjóðina. Í stað þess að geta leiðrétt gengi krónunnar er það fest og þar með mun atvinnuleysi stóraukast. Gjaldeyrisskapandi fyrirtæki munu eiga einskis annars úrkosta en að segja upp fólki. Og önnur fylgja á eftir.

Sósíalistar

Flokkurinn sem kennir sig við sósíalismann er með áferðafalleg kosningaloforð. Óbragðið er að hann ætlar að beita aðra ofbeldi. Dæmi hæstiréttur ekki eins og flokkurinn vill ætlar hann að ryðja dóminn, bókstaflega. Henda dómurunum í burtu og skipa aðra sem dæma eftir línu flokksins. Ofbeldi er aðall sósíalista í gegnum söguna. Já, og skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eiga að verða almenningssalerni. Þannig er nú heiftin. Og aðalsprautan í flokknum er svokölluð „afturbatapíka“, náungi sem var aðalkapítalistinn í útrásinni, setti fjölda fyrirtækja á hausinn og hafði launin af fjölda fólks.

Allt eru þetta því sem næst eins máls flokkar. Komist þeir á Alþingi mun fólki koma á óvart hvert þeir stefna að öðru leiti en helstu kosningaloforðin benda til.

Fimm eða sex flokka ríkisstjórn

Í Reykjavík ræður meirihluti fjögurra flokka. Afleiðingin eru ótal hneykslismál sem kinnroðalaust má kalla spillingu.

Kjósendur þurfa að hugsa sig vel um. Ekki greiða smáflokkum atkvæði, flokkum sem aldrei munu geta breytt einu eða neinu nema í hrossakaupum við ríkisstjórnarmyndun.

Hvað sagði ekki aðalpersónan í Forest Gump bíómyndinni:

„My mama always said, life is like a box of chocolates. You never know what you're gonna get.“

Fallegir innpakkaðir molar í Makkintosh dollunni eru ekki allir góðir. Sumir eru einfaldlega betri. Ekki eru allir stjórnmálaflokkar góðir en það vitum við ekki fyrr en eftir kosningar.

Sjálfur kýs ég Sjálfstæðisflokkinn. Ég þekki hann og treysti forystumönnum hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband