Hvað er list og lærdómsþvaður ef lærirðu ekki að vera maður.

Morgunblaðið er góður fjölmiðill og ég hef mikla ánægju af honum. Les með áhuga marga fasta pistla eins og Tungutak sem fjallar um um íslenskt mál sem margir íslenskufræðingar skiptast á skrifa, Umræðan sem Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra og alþingismaður skrifar og Fróðleiksmola eftir Hannes H. Gissurarson. Allir þessir pistlar birtast í laugardagsblaðinu og eru á sömu blaðsíðunni og þar dvelst manni drjúga stund. 

Í sunnudagsblaðinu birtist Reykjavíkurbréf og það hefur verið fastur dálkur allt frá því að Bjarni Benediktsson var ritstjóri frá 1956 til 1959. Ekki hafði ég aldur til að njóta skrifa hans en löngu síðar las ég bréfin frá ritstjórunum  Matthíasi Johannessen og Styrmi Gunnarssyni. Og nú skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri, Reykjavíkurbréf. Hann hefur leikandi léttan stíl, prýðilegt skopskyn og segir frá reynslu sinni og skýrir stjórnmálaviðhorfið. Oftast er ég sammála Davíð, þó ekki alltaf.

Einn er sá dálkur sem ég hef mikla ánægju af og það er Vísnahornið sem birtist daglega og er í umsjón Halldórs Blöndal, fyrrum ráðherra og alþingismanns. Ekki þekki ég Halldór persónulega en hann hefur einstakan skilning á vísum og kann urmul af þeim. Áhugaverðast er þó að hann birtir vísur eftir marga og fer ekki í manngreinarálit.

Stundum skrifa ég hjá mér skemmtilegar og fróðlegar vísur sem ég les í Vísnahorninu. Hér eru nokkrar skondnar.

Ingveldur Einarsdóttir orti þetta þegar Kvæðakver Halldórs Laxness kom út og hrifningin leynir sér:

Þitt hef ég lesið, Kiljan, kver; 
um kvæðin lítt ég hirði,
en eyðurnar ég þakka þér; 
þær eru nokkurs virði.

Hjálmar Jónsson sendi Halldóri Blöndal póst og segir:

Það var á lokadögum þingsins eitt vorið að við sátum saman nokkrir þingmenn í hádegismat. Svínakjöt var í matinn, en það var ólseigt og óspennandi. Hafandi tuggið um hríð ýtti Páll Pétursson frá sér diskinum og kvaðst sjaldan hafa lagt sér til munns lakari málsverð. Þá varð til vísa:

Meðan lifa málin brýn
mæti ég þingraun hverri.
Ég hef borðað betra svín
og borðað með þeim verri.

Í Vísnahorninu birtist þessi vísa eftir Örn Arnarson og er úr bókinni Illgresi:

Dýrt er landið, drottinn minn,
dugi ekki minna
en vera allan aldur sinn
fyrir einni gröf að vinna.

Arnór Árnason frá Garði orti:

Lítið mína léttúð græt,
lífinu er þannig varið.
Ennþá finnst mér syndin sæt,
sækir í gamla farið.

Og núna í dag, skírdag 1. apríl 2021, birti Halldór þetta eftir Matthías Jochumsson:

Hér verða kaflaskil í kvæðinu og heldur áfram með grískri tilvitnun sem útleggst „þekktu sjálfan þig“:

„Gnóþi sauton“ Grikkinn kvað;
gott er að læra og meira en það;
en hvað er list og lærdómsþvaður
ef lærirðu ekki að vera maður.

Þessi síðasta vísa er gull, sérstaklega síðustu tvö vísuorðin. Ætla að reyna að muna þau þegar ég verð stór.

Oft hef ég óskað þess að vera ljóðskáld. Í staðinn er ég frábært leirskáld. Og illa gengur mér að muna vísur en það er list.

Móðir mín kunni ótal ljóð og vísur, og þurfti aðeins að heyra einu sinni til að muna. Hún var alin upp á ljóðelsku heimili þar sem bókmenntir skiptu nærri því meira máli en bústörfin. Því miður lærði ég lítið í ljóðagerð af henni eða hún gleymdi að kenna mér. Hún gleymdi líka að kenna mér að drekka kaffi. Þetta tvennt, kunnáttuleysi í ljóðum og getuleysi í kaffidrykkju, hefur háð mér einna mest í lífinu. Og stendur ekki til bóta.

Annan hæfileikamann í ljóðum og vísum þekki ég dálítið og það er Ómar Ragnarsson. Hann man vísur og ljóð í tonnatali ef svo má segja. Einu sinni fékk ég hann til að vera á vísnakvöldi í bæjarfélagi úti á landi. Mesta skemmtunin var áður en dagskráin byrjaði er Ómar þuldi upp vísur sem hann hafði lært á langri æfi. Ein vísa leiddi til annarrar og eiginlega máttum við varla vera að því að fara á vísnakvöldið.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband