Skelkur í miðri Egils sögu og glíman við drauginn

En er þeir voru komnir upp í klifið, þá hljópu sjö menn úr skóginum og upp í kleifina eftir þeim og skutu að þeim. Þeir Egill snerust við, og stóðu þeir jafnfram um þvera götuna; þá komu aðrir menn ofan að þeim á hamarinn, og grýttu þeir þaðan á þá, og var þeim það miklu hættara.

... sagði lesari hljóðbókar Egilssögu með dimmri röddu, kvað að hverju orði, spennan jókst. Enn einu sinni sátu Norðmenn fyrir Agli og ætluðu ekkert annað en að drepa hann. Ég var niðursokkinn í söguna á göngu minni upp frá Elliðavatni, gekk greitt og álútur í norðaustanáttinni. Gerðist þá hvort tveggja í senn, lesarinn lauk ofangreindum orðum og ég heyrði hljóð sem var ekki vindgnauð. Leit örsnöggt við og sá að hjólreiðamaður var við það að anda ofan í hálsmálið á mér þarna á þröngum göngustígnum. Mér brá hrottalega, missti þvag, slefaði, kiknaði í hnjánum, argaði skrækróma og lá við yfirliði af skelfingu. Náði mér samt nokkrum sekúndum síðar og hjólamaðurinn rann fram hjá mér.

„Farðu í rassgat,“ tautaði ég. Hef líklega sagt þetta hærra en ég ætlaði enda er það oft háttur þeirra sem eru með síma eða tónlist í eyrum að tala nokkrum desíbeljum hærra en eðlilegt er. Hjólreiðamaðurinn hægði ferðina og gat ég greint að hann væri ekki sáttur við kveðjuna.

„Ég komst ekki framhjá þér,“ sagði hann. „Og hvað get ég gert að því þótt þú sért með eitthvað í eyrunum?“ sagði hann.

„Hvað get ég að því gert að þú sért að flækjast hér og skelfir saklausa göngumenn?“ ruglaði ég í algjöru fáti, fann ekkert gáfulegra að segja þar sem ég vissi upp á mig sökina.

Hann hjólaði áfram. Samræðurnar tóku aðeins nokkrar sekúndur en enn var skelkurinn ekki úr mér. Og hvað varð mér að orði? „Farðu í rassgat,“ tautaði ég sem var það nógu hátt til að hjólamaðurinn heyrði.

„Þú ert dóni,“ sagði sá hjólandi, og jók hraðann. Ég brást ekki við fullyrðingunni. Um leið og skelkurinn rjátlaðist loks af mér áttaði ég mig á því að hann hafði rétt fyrir sér. Hefði auðvitað átt að biðja hann afsökunar. Kannski var ég ekkert ólíkur sumum fornmönnum sem brugðu fyrst vopnum áður en þeir spurðu.

Mér hefur ekki brugðið jafn mikið síðan ég lenti í glímunni við drauginn utan við Fimmvörðuskála veturinn 1992. Þannig var að um miðja nótt fann ég knýjandi þörf að kasta af mér vatni enda höfðum við félagarnir dreypt örlítið á öli um kvöldið. Og þegar ég milli svefns og vöku opna austurdyrnar til þess að ganga erinda minna, grípur einhver í axlir mínar og kippir mér út í niðamyrkrið enda var hvorki tunglsljós né stjörnubjart. Draugurinn tuskaði mig til í nokkrar sekúndur og ég gat mér enga björg veitt því skelkurinn sat í mér. Enginn vaskleiki var í mér frekar en Friðgeiri þeim sem frá segir í Egilssögu:

921001-16 bFriðgeir var maður ekki mikill, grannlegur og fríður sjónum og ekki sterkur; hafði hann og ekki staðið í bardögum.

Þó ég telji mig mikinn mann, grannan og fríðan eru fjölmargir á annarri skoðun, jafnvel nánir vinir og ættingjar. Og enga reynslu hef ég í bardögum og allra síst við drauga. Víkur nú aftur að draugnum sem hristi mig allóþyrmilega. Var mér þá til happs að ég gat fálmað hendinni í skíði sem stóð upp á endann þarna við austurgaflinn. Ég greip það með hægri hendi og barði í fætur draugsa sem missti við það tökin á mér en ég flýði inn í skála, fór inn á kamarinn og greip þar litla tunnu fulla af mannasaur og vopnaður honum steig ég aftur út um dyrnar. Og þarna stóð Glámur á öðrum fæti grenjandi af heift og reiði. Ég skvetti saurnum að honum og hann hörfaði organdi. Hafði einhvern tímann lesið að hið eina sem gagnast gegn draugum er mannasaur. Gott er að vera víðlesinn. Og draugsi flýði sem fætur toguðu undan skítlegum köstum mínum, gott ef hann gufaði ekki upp í 920315-13 Fimmvörðuskálisvartnættið. Minnir það.

Svo gerist það morguninn eftir að við bjuggum við okkur til brottferðar og var ég byrjaður að segja frá viðureign næturinnar en félagar mínir hlusta aldrei á mig heldur flýttu sér út með sitt hafurtask. Fannst skiljanlega lítt áhugavert að hlusta á sögu um mann sem fer út að pissa.

Úti voru þeir alveg gáttaðir á harðfrosnum saurklessunum sem lágu á víð og dreif á hvítum snjónum. Ekki síður urðu þeir minna forviða að sjá þarna bakpoka og gönguskíði í reiðileysi. Þá fór mig ósjálfrátt að gruna ýmislegt. Sagði samt ekki orð, axlaði bara pokann minn og skíðaði niður Fimmvörðuhrygg á undan strákunum.

Þegar við vorum nærri því komnir að Fúkka sáum við mann sem gekk eftir austurleiðinni frá skálanum og upp í vegskarðið. Bakpoka hafði hann ekki og öslaði snjóinn án skíða og stafa. Félagar mínir veifuðu en hann svaraði ekki kveðjunni þótt hann sæi okkur fullvel. Eitthvað var þarna rætt um dónalega framkomu á fjöllum. Ég jók ferðina og skíðaði sem hraðast niður Hálsinn, langt á undan félögum mínum, sem þó eru allir betri skíðamenn en ég.

Söguna um viðureign mína við drauginn hef ég ekki sagt neinum fyrr en nú. Og það af gefnu tilefni. Velti því fyrir mér hvort hjólamaðurinn og draugurinn séu einn og sami, sko maðurinn. Skuldir afsakanna safnast fyrir hjá mér.

En svo ég víki aftur af sögunni um hjólreiðamanninn. Hann hvarf mér út í buskann. Ég tróð því nú hlustunargræjunum aftur upp í eyrun og hélt áfram að hlusta á Egils Sögu. Eitthvað hafði ég þó misst úr því þarna sagði:

Egill hafði mörg sár og engi stór; fóru þeir nú sína leið; hann batt sár förunauta sinna og voru engi banvæn; settust þeir þá í sleða og óku, það er eftir var dagsins.
En þeir hinir vermsku, er undan komust, tóku hesta sína og drógust austur af skóginum til byggða; voru þá bundin sár þeirra; fá þeir sér föruneyti, til þess er þeir komu á fund jarls, og segja honum sínar ófarar; þeir segja, að hvortveggi Úlfur er fallinn og dauðir voru hálfur þriðji tigur manna -- "en fimm einir komust undan með lífi og þó þeir allir sárir og barðir."

 

Efri myndin er af tunnu með mannasaur úr Fimmvörðuskála. Skálverðir er að hella úr henni í hyldjúpa sprungu á Mýrdalsjökli. Þar geymist hann uns Katla gýs honum. Það verður sjón að sjá.

Seinni myndin er af austurhlið Fimmvörðuskála. Skíðin hafa verið lögð niður enda örskammt í brottför.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband