Einkennasýnataka, Seyðfirðingar hlutaðir og Seyðis- og Eskifirði

Orðlof

Spjallar Guð?

„Guðspjallið skrifaði guðspjallamaðurinn Mattheus“ (eða Markús, Lúkas eða Jóhannes). Þennan texta þekkja allir og vita líka hvað guðspjall er, þótt þeir viti ekki endilega hvernig orðið er til komið. Það mætti láta sér detta í hug að merkingin sé að í guðspjöllunum sé guð að spjalla við mennina, en uppruninn er allt annar. 

Guðspjall er gamalt tökuorð úr fornensku sem er orðið til úr orðasambandinu ’gód spell’. Bókstafleg merking þess er ’góðar fréttir’ og það þýðir því í rauninni það sama og fagnaðarboðskapur og er, eins og það, bein þýðing á latneska orðinu ’evangelium’. 

Fornenska orðið vísar því hvorki til guðs né hefur það nokkuð með spjall að gera, hvað þá spjöll. Menn hafa þó litið svo á að hin góðu tíðindi sem guðspjöllin flytja séu komin frá guði og það er kannski ástæðan fyrir því að fyrri liður orðsins hefur fengið myndina ’guð-’.

Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni út um allt og það auki líkur á útsetningu á smiti.“

Frétt á ruv.is.                                      

Athugasemd: Allir vita hvað smit er og nú er hætta á að fólk smitist. Er þá „útsetning“ á smiti eitthvað verra en að smitast?

Orðabókin mín er hjálpar ekkert. Hefur aldrei heyrt um „útsetningu á smiti“ en kannast mætavel við útsetningu á lögum eða tónverkum.

Leyfi mér  að giska á að „útsetning“ merki að verða fyrir. En auðvitað er það ekki eins fínt og „útsetning á smiti“ og passar sko alls ekki inn í stofnanamállýsku kerfisins.

Líkur benda til að „útsetning“ sé óþarft í fréttin því það bætir engu við skilning lesandans.

Þegar gáfumenn tala falla blaðamenn í stafi. Þetta fólk er þó eins og við hin, reka í vörðurnar og ruglast. Hins vegar er svo margt sem þeir segja svo áferðarfallegt. Til dæmis „einkennasýnataka“ sem er gullfallegt orð en enginn skilur það nema kerfiskallarnir.

Svo finnst mér þetta orðalag svo gáfulegt að ég ræð mér varla:

Þórólfur segir hins vegar að flestir sem hafi greinst utan sóttkvíar hafi tengsl við aðra smitaða en ekki náðst á sínum tíma.

Aldrei hefði mér dottið í hug að fólk smitist aðeins af þeim sem hafa veiruna. Það er vísindalegt afrek að hafa ráðið í tengslin.

Tillaga: Þórólfur segir augljóst að fólk sé mikið á ferðinni og það auki líkur á að það  smitist. …

2.

„… og hvort að hægt sé að hleypa einhverjum hluta Seyðfirðinga heim til sín, þeim sem búa á öruggum svæðum.“

Frétt á frettabladid.is.                                      

Athugasemd: Varla er fólk sent heim til sín í hlutum. Flestir njóta sín betur í heilu lagi.

Tillaga: … og hvort að hægt sé að hleypa þeim Seyðfirðingum heim til sín sem búa á öruggum svæðum.

3.

„Þyrla Land­helgis­gæslunnar lenti á Seyðis­firði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofanflóðasérfræðingum Veður­stofunnar innan handa.“

Frétt á frettabladid.is.                                      

Athugasemd: Merking orðalagsins að hafa eitthvað innan handar er samkvæmt bókinni Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson:

Líkingin er dregin af einhverju sem  er tiltækt, einhverju sem menn geta gripið til.

Varla fer vel á því að skip eða flugvél sé fólki innan handar. Veldur því stærðin. Betur fer hér á því að segja að þyrlan verði sérfræðingunum til afnota.

Í fréttinni segir:

Varð­skipið Týr kom til Seyðis­fjarðar í gær og byrjaði á því að bjarga þremur og tveimur köttum sem höfðu orðið inn­lyksa. Þau voru flutt á Seyðis­fjörð. Skipið var svo statt þar í nótt og varpaði ljósi á hlíðina en að sögn Ás­geirs eru nokkuð öflugir kastarar um borð.

Sá sem þetta skrifaði hefur ekki haft fyrir því að lesa fréttina yfir fyrir birtingu. Verkstjórnin á Fréttablaðinu virðist ekki upp á marga fiska fyrst að svona er ekki lagað.

Í fréttinni segir líka:

Al­manna­varnir, lög­regla og við­bragðs­aðilar funduðu um stöðuna á Seyðis- og Eski­firði

Gott að ekki var líka rætt um Mjóa-, Reyðar-, Fáskrúðs-, Beru- og Hamarsfjörð. Þvílík leti í blaðamanninum að nenna ekki að skrifa heiti þéttbýlisstaðanna eða fjarðanna fullu nafni.

Þori að fullyrða að svona hefur aldrei verið gert. Hvorki í Reykja-, Húsa- eða Ólafsvík. Né í Tryggva-, Skúla- eða Aragötu. Og ekki eru þau eins Morgun-, Dag- og Fréttablaðið. Hvað þá blöð í öðrum löndum svo sem í Finn-, Bret-, Frakk-, Pól- eða Swasílandi. Sjá nú allir hversu þetta er enda-, botn- og vitlaust jafnvel þó verið sé að aug-, upp-, þing- eða friðlýsa.

Tillaga: Þyrla Land­helgis­gæslunnar lenti á Seyðis­firði rétt eftir klukkan 11 og mun þar verða þar ofan­flóða­sér­fræðingum Veðurstofunnar til afnota.

4.

Daginn tekur að lengja frá deginum í dag.“

Frétt á ruv.is.                                       

Athugasemd: Þessi setning er stórmerkileg. Í átta orða fyrirsögn kemur dagur fyrir þrisvar sinnum. Þetta kallast nástaða en flestir sem stunda skrif reyna að forðast hana. 

Væri fyrirsögnin hluti af vísu myndi svona kannski vera kallað ofstuðlun. Þetta er gott að hafa í huga enda hafa allar góðar sögur hryjanda, takt. Og hvað er frétt annað en saga? Þetta mættu fréttaskrifarar hafa í huga og njóta þeir þakklætis lesenda fyrir vikið. 

Tillaga: Dag tekur nú að lengja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk kærlega Sigurður fyrir þitt þarfa verk.

En hvað með Seyðisfirðinga? Staðurinn heitir jú Seyðisfjörður en ekki Seyðfjörður.

Fyrir norðan töluðum við alltaf um Seyðisfirðinga.

Er þetta kannski misminni hjá mér?

Eða er þetta latínuserað eins og með Randersbúa sem Danir kalla "Randhusianer"

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.12.2020 kl. 19:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Gunnar,

Mér er nú tamt að tala um Seyðfirðinga og þeir sem þar búa eða eru þar upphaldir eru seyðfirskir. Hvers vegna veit ég ekki en svo er um mörg önnur orð í hausnum á manni. Dreg ekki í efa að þið Norðlendingar hafi annan hátt á.

Í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir um seyði:

Hola lögð hituðum steinum notuð til að sjóða mat í.

Á Vísindavefnum er vöngum velt um uppruna örnefnisins Seyðisfjörður. Nokkuð áhugavert að lesa.

Aftur á mót talar maður um Ísfirðinga (ekki Ísafirðinga en kannski Skutlsfirðinga), Reykvíkinga (ekki Reykjavíkinga), Siglfirðinga (ekki Siglufirðinga). Þetta virðist allt vera með margvíslegu móti. Veltum svo fyrir okkur hvað þeir kallast sem búa í Bolungarvík, Hellnum, Hellu Hornafirði, Sauðárkróki, Flatey og svo framvegs. Ég er fæddur í Stykkishólmi og er því Hólmari (ekki Stykkishólmari sem þekkist ekki).

Menn virðast vera -firðingar, -víkingar, -ingar, -búar og eflaust má fleira telja.

Í opinberum ritreglum er liður sem heitir „Heiti íbúa, ætta og liðsmanna sem dregin eru af sérnafni“, 1.2.3.2 er talað um Seyðfirðinga og Ísfirðinga.

Enginn tæmandi listi er um örnefni sem menn geta kennt sig við. Þess vegna væri hægt að kalla sig Siglufjarðarbúa, Stykkisinga, Bolungarverja, Hornbyggja, Sauðárkróksinga, Flateyjarbúa ...

Held að ég hjálpi ekkert upp á sakirnar, Gunnar. Er bara ekki nógu fróður um örnefni og heiti fólks sem dregin eru af þeim þó ég kunni að láta gamminn geysa um ágiskanir.

Fróðlegt þetta með íbúa Randers. Ég trúði þér ekki og fletti þessu upp á Den Store Danske og fékk þar staðfestinguna.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 22.12.2020 kl. 22:04

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar þakkir Sigurður fyrir skemmtilegt og fróðlegt svar.

Sá fljótlega hversu heimskulega ég spurði þegar ég hugsaði um Reykvíkinga en ekki Rekyjavíkinga, og staðrestir svar þitt að svo var. Sérstaklega þegar þú segir mér frá sjálfu örnefninu Seyðisfirði og þýðingu þess. Sennilega er þetta misminni hjá mér.

Gunnar Rögnvaldsson, 22.12.2020 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband