Handtökuskipun gagnvart, snjóflóð ferðast og atlaga að stofnun
10.12.2020 | 15:52
Orðlof
Lögum stjórnað
Ráðherra fer með yfirstjórn laga þessara.
Hvað merkir þetta eiginlega? Alþingi setur lög sem forseti staðfestir. Lögregla sér um að farið sé að eða eftir lögum og dómarar skera úr ágreiningi sem upp kann að koma.
Aldrei hef ég heyrt talað um yfirstjórn laga enda finnst mér orðasambandið nánast merkingarlaus klisja. Lögum er ekki stjórnað, þau eru sett og þeim er fylgt eða eftir þeim farið.
Svipuðu máli gegnir reyndar einnig um orðasambandið annast framkvæmd laga (4. gr.).
[Lög um útlendinga, nr. 80 16. júní 2016]
Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Búið er að gefa út handtökuskipun gagnvart tveimur starfsmönnum Samherja í Namibíu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Draga má í efa að forsetningin gagnvart sé hér rétt notuð. Þegar nafnorðið handtökuskipun er notað klúðrast eitthvað og setningin aflagast. Þetta má orða á annan hátt, til dæmis:
Gefin hefur verið út skipun um að handtaka tvo starfsmenn Samherja í Namibíu
Hér skilst málsgreinin ákaflega vel og enginn hnýtur um gagnvart. Aftur á móti er orðið handtökuskipun lögfræðilegt hugtak og verður varla leyst upp eins og ég hef gert. Hvað er þá til ráða? Jú, einfaldlega að skipta um forsetningu.
Jón G. Friðjónsson segir í fróðlegum pistli í Málfarsbankanum:
Forsetningin gagnvert er upphaflega hk.-mynd af lo. gagnverður. Hún er algeng í fornu máli, t.d.:
- sátu þeir [Egill og Yngvar] gagnvert þeim Skalla-Grími og Þórólfi (Egils saga 31.k);
- bað hann sitja gagnvert sér í öndvegi (Egils saga, 44.k.);
- En er Glúmur kom gagnvert búð þeirri er Einar átti (Víga-Glúms saga 27.k.);
- en Björn sat gagnvert Sæmundi á annan bekk í öndvegi (Sturl I, 280).
Pistill Jón er lengri og hér er hægt að lesa hann allan.
Tillaga: Búið er að gefa út handtökuskipun á tvo starfsmenn Samherja í Namibíu
2.
Ef ykkur þótti Everest-fjall ekki nægilega hátt fyrir þá hafa stjórnvöld í Kína og Nepal loksins komist að samkomulagi um nákvæma hæð fjallins, eftir áralangar deilur, enda liggur fjallið á landamærum ríkjanna.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvern er blaðamaðurinn að ávarpa? Hvað á hann við með nægilega hátt? Þetta er furðuleg byrjun á frétt. Samhengið í málsgreininni er afar óskýrt. Fjall kemur þrisvar fyrir í málsgreininni. Einu sinn er það rangt ritað.
Hver í ósköpunum gæti haft skoðun á því að Everest sé of hátt eða of lágt?
Margt er bullað: Liggur fjallið á landamærum Kína og Nepal eða er það á landamærunum?
Í fréttinni segir:
Jú, fjallið er nú heilum 86 cm hærra en það hefur verið mælt opinberlega hingað til í Nepal, og rúmum fjórum metrum en Kínverjar hafa hingað til viljað viðurkenna.
Skilur einhver þessa málsgrein? Líklega vantar eitthvað í hana og því stendur rúmum fjórum metrum skýringarlaust.
Í fréttinni segir:
Þegar fjallagarpurinn Edmund Hillary sigraði toppinn með sjerpanum Tenzing Norgay í maí ári 1953
Í hverju kepptu Hillary og toppurinn? Keppnin hefur alveg farið framhjá okkur fjallamönnum.
Hér eru fleiri dæmi:
- þá var hæðinni breytt í 8.848 metra samkvæmt indverskum mælingum. Sú tala hefur haldið sig þar til nú.
- Síðan þá hafa Kínverjar framkvæmt nokkrar mælingar
- og árið 2005 héldu þeir fram að rétt hæð væri 8.844,43 metrar.
- Það leiddi til deilna við Nepala sem leystist ekki
Líklega er ekki við blaðamanninn að sakast heldur yfirmenn hans og jafnvel ritstjórnina alla. Fær nær óskrifandi nýliði enga tilsögn á Mogganum?
Þess ber að geta að á blaðsíðu 11 í Morgunblaðinu 9.12.20 er stutt frétt um örplast á Everest og mælingar á hæð fjallsins. Hún er nær gallalaus.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Ferðafélagið skipuleggur margvísleg fjallaverkefni.
Myndatexti á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 9.12.20.
Athugasemd: Hvað eru fjallaverkefni? Orðið er ekki þekkt nema hjá Ferðafélagi Íslands.
Hvað er betra við orðið fjallaverkefni en til dæmis fjallaferðir? Ekkert. Helst má hugsa sér að orðið sé búið til að fólki sem ekki hefur stundað fjallaferðir að neinu ráði.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, ferðaðist á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.
Frétt á blaðsíðu 10 í Morgunblaðinu 9.12.20.
Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um snjóflóð sem féll á Flateyri 14. janúar 2020 og skýrslu Veðurstofunnar um það. Í fréttinni er sagt að flóðið hafi ferðast á miklum hraða.
Sögnin að ferðast er oftast notuð um ferðir fólks, ekki dauða hluti eins og hér er gert.
Ég varð mér út um skýrslu Veðurstofunnar. Í henni segir margoft að snjóflóð ferðist og talað um ferðatíma þess. Í staðinn hefði verið hægt að tala um hraða snjóflóðsins, leið þess eða umorða á annan hátt.
Til gamans má geta þess að í skýrslunni segir að skýrsluhöfundar hafi farið í vettvangsferðir, þeir hafi farið margar ferðir til Flateyrar og loks segir í skýrslunni að skemmdir hafi orðið á eignum ferðaskrifstofufyrirtækis á Flateyri. Fleiri ferðast en snjóflóð. Verður næst sagt að snjóflóð leggi land undir fót?
Hér áður fyrr var sagt að snjóflóð falli. Er málið eitthvað bættara ef snjóflóð ferðast?
Tillaga: Fremsti hluti snjóflóðsins, eðlisléttur iðukastafaldurinn, var á 45-60 m/s (162-216 km/klst.) hraða.
5.
Ný atlaga að stofnun Blæs.
Fyrirsögn á blaðsíðu 34 í Morgunblaðinu 10.12.20.
Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir atlaga að ráðast á einhvern, gera árás, leggja til atlögu og svo framvegis. Orðið er til ófriðar en alls ekki gælur.
Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að tilgangurinn er þveröfugur við það sem fyrirsögnin segir. Síst af öllu er ætlunin að gera út af við Blæ eða skaða fyrirtækið.
Samkvæmt fréttinni á að afla fjár til að stofna Blæ og reka, það er byggja íbúðir og leigja. Þetta kalla blaðmaðurinn atlögu.
Tillaga: Ný tilraun gerði til að stofna Blæ.
6.
Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi.
Tilkynning frá starfsfólki skíðsvæða.
Athugasemd: Hvað er skinnari? Ég hef aldrei heyrt þetta orð áður. Varla vita margir svarið, en þar sem ég hef lengi notað ýmis konar skíði giska ég á að skinnari sé sá sem lætur skinn undir gönguskíði eða fjallaskíði til að auðvelda göngu á fjöll.
Þetta er slæmt orð en látum það nú vera. Tilvitnunin hér að ofan er óskiljanleg.
Sama er með allt annað í tilkynningunni. Svo virðist hún sé frá starfsfólk enda stendur undir Starfsfólk Skíðasvæðanna. Samt er hún skrifuð í 1. persónu eintölu: Ég verð að biðja ykkur og svo framvegis.
Í tilkynningunni segir:
Göngubrautir verða líka opnar, en öll hús lokuð og verður einstefna í brautinni.
Þetta er hrærigrautur. Hvað koma hús göngubrautum við?
Fleiri villur og vitleysur mætti nefna í tiltölulega stuttri tilkynningu. Þessu til viðbótar er öll vefsíða skíðasvæðanna illa skrifuð og veitt ekki af því að prófarkalesa hana og laga.
Tillaga: engin tillaga.
7.
Þurfum að vera undirbúin fyrir að bíða eftir bóluefninu.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Þetta er klúðursleg fyrirsögn, illa orðuð. Í Málfarsbankanum segir:
Rétt er að segja að undirbúa sig undir eitthvað. Hann undirbjó sig undir prófið.
Líka er hægt að tala einfaldlega um að búa sig undir eitthvað.
Skrifarar verða að hafa tilfinningu fyrir málinu. Hún kemur ekki nema með miklum lestri bóka, helst frá barnæsku.
Tillaga: Verðum að vera undir það búin að þurfa að bíða eftir bóluefninu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.