Óséðar myndir, jólakvizz og labba framhjá kistu Maradona

Orðlof

Jæja

Jæja er til margra hluta nytsamlegt ef svo má að orði komast. Í rauninni er erfitt að festa hendur á merkingu orðsins því hún felst ekki síst í því hvernig það er sagt – í áherslum og tónfalli. Þetta gildir gjarnan um upphrópanir þótt fáar þeirra séu líklega jafn fjölhæfar og jæja. Það getur lýst óþolinmæði, undrun, hvatningu til athafna, efasemdum og fleiru. 

Gaman er að leika sér að því að setja „jæja“ í mismunandi merkingarsamhengi og heyra hvernig hljómblærinn breytist.

Það er t.d. mikill munur á jæja eftir því hvort sagt er

„Jæja, við skulum drífa okkur“ (hvatning)

eða

„Jæja, er það virkilega“ (efi). 

Málsgreinar, Orðaborgarar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Áður óséðar ferðamynd­ir af Díönu á Ítal­íu.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Hvað er „óséð“ ljósmynd? Líklega á blaðamaðurinn við ljósmynd sem ekki hefur áður verið birt.

Heimildin er hugsanlega vefur Daily Mail og þar segir:

Giancarlo Giammetti shared two never-before-seen photographs of Diana on Instagram

Að gamni leyfði ég fyrirbærinu Google-Translate að þýða þessa setningu. Niðurstaðan var þessi:

Giancarlo Giammetti deildi tveimur ljósmyndum af Díönu sem aldrei hefur áður sést á Instagram

Og viti menn, þýðingin er margfalt betri en fyrirsögnin sem vitnað er til (sögnin að hafa ætti þó að vera þarna í fleirtölu).

„Unseen photographs“ er þýtt sem ljósmyndir sem aldrei hafa áður sést. Tölvuforritið sem margir hæðast að fyrir snautlegar þýðingar á íslensku, stendur sig betur en blaðamaðurinn, þýðir næstum því óaðfinnanlega.

Tillaga: Áður óbirtar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu.

2.

Jólakvizz.“

Fyrirsögn á tölvupósti frá Olís/Ób.                                  

Athugasemd: Finnst fólki í lagi að skrifa „jólakvizz“ í stað þess að nota íslensku? Nóg er til af íslenskum orðum um spurningaleiki og því óskiljanlegt hvers vegna verið er að troða „kvizzi“ upp á landsmenn. 

Pósturinn er Olís/ób ekki til sóma. 

Tillaga: Engin tillaga.

3.

11 greindust innanlands í gær …“

Frétt á visir.is.                                  

Athugasemd: Jafnvel þeir sem eiga að teljast reyndir blaðamenn byrja setningar á tölustöfum. Slíkt er hvergi gert og alls staðar mælt gegn þessu. Sá sem skrifaði ofangreint er enginn byrjandi og á sér varla afsökun. 

Í upphafi fréttarinnar segir:

Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær. 18 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 2 hjá Sýkla- og veirufræðideild Háskóla Íslands. 

Þetta er illa skrifað. Punktur er settur í miðja málsgrein sem slítur fyrri hlutann úr samhengi við þann seinni. Þarna hefði átt að vera komma. Tölurnar hefðu átt að vera ritaðar með bókstöfum.

Í fréttinni segir:

15. ágúst síðastliðinn slapp stofn, sem hefur fengið ljósbláan litakóða í raðgreiningarferlinum …

Hér hefur margoft (ekki ítrekað) verið vakin athygli á tölustafaáráttu blaðamanna.

Enginn góður skrifari byrjar setningu á tölustöfum vegna þess að eðli bókstafa og tölustafa er ólíkt. 

Eftir punkt eða í byrjun skrifa á að nota stóran bókstaf, kallaður upphafsstafur. Hvernig er annars upphafsstafur tölustafs? Hann er ekki til. Því er talan annað hvort skrifuð í bókstöfum eða skrifarinn umorðar setninguna.

Þessu til viðbótar má nefna að venjulega eru lægri tölur ritaðar með bókstöfum. Það er að segja vilji skrifarinn gæta að stíl. Hrikalega kjánalegt væri að segja (skrifa) að 1 hafi greinst með veiruna eða byrja setningu á tölustafnum einum

Tillaga: Ellefu greindust innanlands í gær …

4.

20 greindust með kórónuveiruna í gær.“

Frétt á ruv.is.                                    

Athugasemd: Jafnvel Ríkisútvarpið sem þó er með málfarsráðgjafa, klikkar illilega. Þar byrjar fréttamaðurinn fréttina á tölustaf í stað þess að byrja á bókastöfum. Er ekkert mark tekið á málfarsráðgjafanum?

Verstu andskotinn er samt sá að fréttamaðurinn skrifar ágætlega læsilega frétt og því varla hægt að saka hann um byrjendamistök eða viðvaningsskap. Þó má ýmislegt finna að textanum sem er ekki tíundað hér.

Tillaga: Tuttugu greindust með kórónuveiruna í gær.

5.

„Þúsundir fá að labba framhjá kistu Maradona og kveðja hann í dag.“

Frétt á dv.is.                                   

Athugasemd: Aumlega er þetta orðað, að heiðra þann sem er látinn með því að labba framhjá kistu hans.

Í fréttinni segir:

… og er löng biðröð til að kveðja Maradona.

Í myndatexta segir:

Fólk streymir inn og kastar síðustu kveðjunni á Maradona.

Engin reisn yfir þessum skrifum, enginn stíll. Halda mætti að Maradona væri á flugvellinum á leið úr landi. 

Allir þekkja orðalagði að ganga til prestsins. Vissulega er hægt að labba til hans en það er annað mál og óskylt fermingarfræðslunni. Í fornum sögum segir að menn gangi fyrir konung. Á DV myndu blaðamenn orðað það að menn „labbi fyrir“ konung. Ekki mikil reisn yfir því.

Í Egilssögu segir:

Ölvir talaði langt og snjallt, því að hann var orðfær maður. Margir aðrir vinir Ölvis gengu fyrir konung og fluttu þetta mál.

Konungur litaðist um; hann sá, að maður stóð að baki Ölvi og var höfði hærri en aðrir menn og sköllóttur.

"Er þetta hann Skalla-Grímur," sagði konungur, "hinn mikli maður?"

Andstæður þessara tveggja manna eru greinilegar. Annar var sköllóttur og konungurinn hét Haraldur og hafði viðurnefnið hinn hárfagri.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

„Einkum hefur það orðið áberandi í aðdraganda kosninganna og hækkandi radda sem bentu á aldur hans.“

Frá degi til dag á blaðsíðu 22 í Fréttablaðinu 27.11.20.                                   

Athugasemd: Þetta skilst illa. Sá sem hækkar röddina talar hærra en áður. Hvernig er hægt að skilja tilvitnunina á annan veg en þann að þeir sem benda á aldur mannsins hafi aukið raddstyrk sinn?

Þarna er verið að ræða um aldur verðandi forseta Bandaríkjanna. Vera kann að höfundurinn eigi við að þeim hafi fjölgað sem benda á aldur forsetans verðandi. Sé svo skilst orðalagið. Ef ekki er það óskiljanlegt. Illt er að þurfa að giska á það sem blaðamaðurinn skrifar.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband