Austurhluti Reykjanesskaga í brennidepli
22.10.2020 | 17:31
Jarðskjálfti sem mælist 5,6 stig er eðlilega allrar athygli verður. Þrennt vekur þó mesta athygli:
- Þegar skjálftinn skall á flúði Helgi Hrafn Gunnlaugsson, alþingismaður Pírata úr ræðustól Alþingis og sá í iljar hans.
- Tveir stórir skjálftar mældust við Snæfellsjökul, annar 3,1 stig norðan við Jökulinn og hinn 2,6 stig suðaustan við hann. Þar að auki mældust skjálftar í Faxaflóa. Mér fannst þetta ótrúlegt en tveimur dögum eftir stóra skjálftann er skráningin enn inni á töflu Veðurstofunnar. Skjálftarnir urðu 23 og 37 mínútum eftir þann stóra. Má vera að þetta séu draugaskjálftar.
- Allir verða æstir og uppnumdir nema Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur. Hann hélt ró sinni og sagðist vel frá í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að kvöldi 20.10.20.
Stærsti skjálftinn var 5,6 stig varð á Vesturhálsi sem er móbergshryggur og markar vesturhluta Móhálsadals. Hann ber nokkur nöfn, Núpshlíðarháls er syðstur og svo Selsvallaháls. Austan megin er Sveifluháls, það er við Kleifarvatn.
Segja má að jarðskjálftahrinan hafi byrjað um kl. 13:36 en þá verður um tveggja stig skjálfti skammt sunnan við Keli. Eftir það verður fjandinn laus og um 160 skjálftar mælast á tæplega þremur klukkustundum.
Fréttamat fjölmiðla er skrýtið. Aðalfréttirnar í flestum þeirra er hvernig fólki brá við skjálftanum sem er kannski alveg gott og blessað út af fyrir sig. Við skemmtum okkur við að horfa aftur og aftur á þingmanninn sem hljóp skelfdur úr ræðustól Alþingis eða matvöru steypast úr hillum í verslunum. Og ekki síður hvernig fólk lýsir viðbrögðum sínum.
Hitt umfjöllunarefnið hvort skjálftinn sé fyrirboði eldgoss vilja blaðamenn ræða í löngu máli. Löngu síðar var talað við jarðfræðinga.
Jarðskjálftar og eldgos
Sko, í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Ég trúi því.
Hins vegar fylgja jarðhræringar eldgosum. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En enginn gefur þeim neinn gaum. Ef ég frétti að í Heklu væru margir litlir skjálftar á til dæmis átta km dýpi myndi ég draga þá ályktun að eldgos væri í aðsigi. Jarðfræðingar myndu skoða þar að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira áður en þeir kvæðu upp úr um það.
Sá mæti maður Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, er flestum mönnum fróðari um jarðfræði Reykjaness. Trúlega hafa allir skilið það sem hann sagði í Kastljósi Ríkisútvarpsins, sjá hér. Honum var nokkuð rætt um haftið sem brast eins og það var orðað. Hann átti við skort á jarðskjálftum á svæðinu frá Fagradalsfjalli að Móhálsadal. Þar vantaði skjálfta og svo kom sá stóri nákvæmlega þarna og hundruð annarra. Minna mátti nú gagn gera.
Hins vegar komu ekki neinar skýringar á því hvers vegna skjálftasvæðið er eingöngu vestan við Kleifarvatn en ekki austan við það. Um þetta hef ég skrifað, bendi á pistil frá því 29. júlí 2020, sjá hér.
Nú segja jarðfræðingar að austan Kleifarvatns, það er í svæðinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll, að þar hafi ekki mælst stórir skjálftar. Þetta er eina eldgosabeltið á Reykjanesi sem ekki hefur skolfið eins hrikalega og önnur.
Munum að á Reykjanesi eru sex eldstöðvakerfi. Þau hafa öll stefnuna suðvestur-norðaustur.
Svo er það rúsínan í pylsuendanum ef svo má að orði komast. Brennasteinsfjallasvæðið er sagt hafa verið það virkast á Reykjanesi allt frá ísöld. Og í þokkabót hafa þaðan runnið miklu stærri hraun í eldgosum en á öðrum svæðum, bæði að flatarmáli og rúmmáli. Tvíbollahraun sem rann úr Grindaskörðum og í norðvestur að Helgafelli um 950 og á svipuðum tíma rann hraunið sem nú ber nefnið Húsfellsbruni og kom úr eldborgunum vestan við Bláfjöll.
Og gleymum því ekki að hörðustu skjálftarnir verða þarna.
Sunnan við Grindaskörð eru Brennisteinsfjöll. Þar rann Selvogshraun einhvern tímann á tímabilinu 900 og fram á 13. öld, féll fram af Stakkavíkurfjalli og endaði ofan í Hlíðarvatni rétt eins og mörg eldri hraun.
Sunnan Bláfjalla er Heiðin há sem er á um 7000 ára hraundyngju. Ef við færum okkur aðeins norðar sjáum við gríðarlegt hraun sem kallað er Leitarhraun. Gígurinn nefnist Leitin og er skammt sunnan við Ólafsskarð. Það rann til suðurs til sjávar fyrir um 7000 árum Þorlákshöfn er byggð á því hrauni. Ekki nóg með það. Hraunið rann líka til norðurs, beygði eftir halla lands, rann til vesturs allt ofan í Elliðaárvog. Rauðhólar urðu til þegar hraunið rann yfir votlendi.
Skammt frá Leitargígunum eru tvær miklu yngri eldborgir sem urðu til í gosi árið 1000. Ofan á Leitarhrauninu sem nefnist þarna Svínahraun er Svínahraunsbruni, hraunið sem sumir nefna Kristnitökuhraun því það kom upp þegar þingið á Þingvöllum ræddi um að taka upp nýjan sið og leggja heiðni.
Kristni sögu segir svo af þinginu, sjá hér:
Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.
Þá tóku heiðnir menn til orðs: "Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum."
Þá mælti Snorri goði: "Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?"
Margt má segja um Snorra goða Þorgrímsson en hann áttaði sig greinilega á því að hraunin á Þingvöllum voru mynduð í eldgosum.
Myndir:
1. Efst er jarðskjálftakort Veðurstofunnar af Vesturlandi. Þar er merktir tveir jarðskjálftar við Snæfellsjökul og víðar.
2. Kort frá ÍSOR sem sýnir eldstöðvakerfin sex á Reykjanesi, sjá nánar á vefsíðu fyrirtækisins, sjá hér.
3. Mynd af Grindaskörðum. Tvíbolli er gígurinn lengst til vinstri. Hann gaus um 950. Tvísmellið á myndina til að stækka hana.
4. Mynd af Kristnitökuhrauninu sem raunar heitir Svínahraunsbruni. Þarna sjást gígarnir sem gusu árið 1000. Fjær, undir hlíðum Bláfjalla, er Leitin, eldstöðin sem sagt er frá í pistlinum. Tvísmellið á myndina til að stækka hana. Ég hef sett örnefni inn á myndina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.10.2020 kl. 15:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.