Ofsi Einars Kárasonar, hið besta í íslenskri sagnahefð

Mikið væri nú gaman að vera sögumaður eins og Einar Kárason rithöfundur. Það væri fullkomin tilvera, stórkostlegt líf. Og þetta segi ég vegna þess að ég lauk fyrir stuttu við Ofsa, bókina sem Einar skrifaði og út var gefin árið 2008.

„Stórkostlegbók“ í einu orði sagt. Já, stórkostleg bók. Ekki er það aðeins sagan sem slík, heldur stíllinn og ekki síst flutningurinn, upplestur höfundar. Já, Ofsi er til í hljóðbók sem hentar mér prýðilega í gönguferðum. Við Einar Kárason göngum saman.

Ofsi segir frá atburðum sem Sturlunga greinir frá, er Gissur Þorvaldsson tekur sig upp og flyst norður í Skagafjörð og sest að á Flugumýri sem hann kaupir af Eyjólfi Þorsteinssyni  einum höfðingja Sturlunga.

Þegar Ofsi kom út hugsaði ég eitthvað á þessa leið: Æi, ég nenni ekki að fara að lesa einhvern gáfumannapistil um fornsögurnar. Gluggaði í hana í bókabúð og fannst hún ekkert spennandi. Gott ef ekki flögraði að mér að bók eftir gallharðan sósíalista og gamlan komma myndi ég nú ekki kaupa. Mikið skjátlaðist mér, þó ekki um pólitíkina heldur um skáldið. Hafði ég engu að síður lesið bækur efir Einar, til dæmis skáldsöguna Storm og Jónsbók, ævisögu Jóns Ólafssonar, viðskiptajöfurs.

Sumarið 2018 keypti ég Stormfugla eftir Einar. Gleypti hana í mig og upplifði aftur þessi tvö sumur á menntaskólaárunum sem ég var á togara. Ég var svo heillaður af bókinni að ég skrifaði um hana, sjá hér. Og hér ætla ég að gera það sem mér finnst svo ósköp kjánalegt, það er að vitna í sjálfan sig. Meiri gáfumenn en ég gera það tíðum og því get ég ekki stillt mig um að gera slíkt hið sama, en bara í þetta sinn. Ég skrifaði (með leyfi hæstvirts forseta):

Rithöfundurinn Einar Kárason er einstakur. Enginn annar getur skrifað eins og hann gerir í Stormfuglum. Stundum langar og flóknar málsgreinar, sem þó eru svo haganlega saman settar að lesandinn missir hvorki þráðinn né athyglina. Minnimáttar skrifarar kunna ekki þessa list og við lítum allir upp til Einars, ýmist með aðdáun eða öfund, jafnvel hvort tveggja.

Ég stend enn við þessi fátæklegu orð mín.

Ofsi er um fimmtán kílómetra bók. Sagan er því frekar stutt en á móti kemur að sagan geymist í höfðinu, eftirbragðið er mikið, langt og gott. Ég hafði hemil á mér, hlustaði bara í gönguferðum og vissi ekkert hversu langt hún myndi endast.

Gallinn er sá að ég man aldrei neitt. Mundi ekki að Einar hafði skrifað fjórar bækur um viðburði Sturlungaaldar. Fyrsta bókin er Óvinafagnaður (2001), Ofsi (2008), Skáld (2012) og Skálmöld (2014). Auðvitað átti ég að byrja á þeirri fyrstu, en ég er betur kunnugur Sturlungu Sturlu Þórðarsonar en skáldinu Einari Kárasyni, og er ég keypti Ofsa voru hinar bækurnar Einars mér gleymdar. 

Einar segir í Ofsa frá nefi helstu söguhetja Sturlungu. Gissur er auðvitað glæsilegur maður, kann sig, gerist friðarhöfðingi. Fyrir okkur Dalamenn er hann einum of sléttur og felldur gæi. En þetta er skáldskapur, tek það ekki persónulega þó sumum af áum mínum sé lýst sem  einhverjum skrattakollum. Hefna ber fyrir slík ummæli en ég geri það ekki.

Ein merkilegasta persóna bókarinnar er hann Eyjólfur Þorsteinsson sem hafði viðurnefnið ofsi. Margir kunna að halda að heiti bókarinnar sé dregið af viðurnefninu en svo þarf ekki að vera. Ofsi ríkti í landinu á Sturlungaöld og Guðmundur, frændi Gissurar var líka nefndur ofsi. Sturla Þórðarson segir í Íslendinga sögu:

Í þenna tíma var svo mikill ofsi Sturlu Sighvatssonar að nær öngvir menn hér á landi héldu sér réttum fyrir honum og svo hafa sumir menn hermt orð hans síðan að hann þóttist allt land hafa undir lagt ef hann gæti Gissur yfir komið.

Öldin sem kennd er við Sturlunga var tími ofsa og heiftar og lýsir Einar Kárason henni einkar vel og er sannfærandi. Í sögunni birtist bræðin gegn þeim sem drápu Snorra Sturluson afar skýrt. Árni beiskur, banamaður Snorra, leitar útgöngu úr Flugumýrarbrennu og var grimmilega drepinn og í sögu Einars beitti Kolbeinn grön sverðinu:

Aðferðirnar voru þannig að manni rann eiginlega kalt vatn á milli skinns og hörunds; tröllið Kolbeinn hjó fyrst af honum annað eyrað og svo hönd og fót og meðan maðurinn var enn organdi og spriklandi þá brá hann sverðinu þannig á frammjótt andlit mannsins að það flettist að mestu af; að lokum fauk búkurinn frá höfðinu og um leið og Kolbeinn kastaði því frá sér eins og sorpi þá æpti hann:

Man nú enginn lengur Snorra Sturluson?!

Þetta er hrottaleg lýsing en bræði Kolbeins var mikil því hann vissi að þarna vó hann þann sem oft hefur verið líkt við Júdas Ískaríot. Engu að síður var var Árni að reyna að bjarga Halli syni Gissurar, brúðgumanum sem aðeins var átján ára. 

Fjölbreyttur stíll Einar er slíkur að hann getur lýst bardaga og áverkum án þess að neinum blöskri og um leið segir frá fólki eins og Gróu Álfsdóttur svo angurblítt og fagurlega að ekki er laust við að lesandinn vikni við lesturinn.

Sumir er höfðingjar sem fá rödd í sögunni og ekki eru þeir allir miklir fyrir sér að gáfum eða skýrleika. Hrafn Oddson, einn af foringjum Sturlunga, virðist skarpgáfaður og klár en brestur kjark þegar mest á reynir. Ásgrímur Þorsteinsson, bróðir Eyjólfs ofsa, segir honum frá aðförinni að Gissuri á Flugumýri, og biður hann um liðsinni. Hrafn sat brúðkaupsveisluna, varð vinur Gissurar, en gat ekki sagt honum frá yfirvofandi harmleik, og gat ekki heldur afstýrt honum. Það eina sem hann gerði var að flýja, gera eins og við nútímamenn, láta sem ekkert sé og vonast til að vandamálið hverfi.

Eyjólfur ofsi er þunglyndur maður, líklega haldinn geðhvörfum. Einar lýsir honum mjög sennilega, ofsanum, þunglyndinu, heiftinni og eftirsjánni. Hann er giftur Þuríði Sturludóttur Sighvatssonar sem gerir líf hans að hreinu helvíti, skilur hann ekki, hæðist að honum. Engu að síður á Eyjólfur þann draum mestan að þóknast Þuru sinni.

Fleiri en höfðingjar fá rödd í sögunni. Margir slíkir eru meiriháttar menn eins og Hallfríður garðafylja, fóstra sona Gissurar og Gróu. Henni er fagurlega lýst að innræti og hún bókstaflega bjargar lífi Gissurar.

Sumir eru alls ekki meiriháttar heldur skíthælar eins og Þorsteinn grenja sem situr brúðkaupið að Flugumýri en telur sér sýnd margháttuð óvirðing þar. Hann tautar við sjálfan sig og heitist við húsráðendur. Á leið yfir Öxnadalsheiði mætir hann liðinu sem ætlar að ráðast á Flugumýri. Hann slæst þar í hópinn og leggur til atlögu við gestgjafa sína og heimamenn.

Heinrekur Hólabiskup gegnir mikilvægu hlutverki í sögunni, greinir íslenska þjóð og dæmir í bréfum sínum til Hákons Noregskonungs. Í síðasta bréfinu segir hann við kónginn:

Ég vona að þér fyrirgefið mér framhleypnina, en sú hugsun hvarflar að mér að það sé varla þess virði að vilja gerast herra þeirra sem hér búa; kannski fer best á því að þeir sjálfir eigi sitt auma land og samfélag. 

Í Íslendingabók Sturlu Þórðarsonar segir um þann atburð er Gissur stendur yfir líkum konu sinnar og sonar:

Þá mælti Gissur: Páll frændi, segir hann, hér máttu nú sjá Ísleif son minn og Gró konu mína.

Og þá fann Páll að hann leit frá og stökk úr andlitinu sem haglkorn væri.

 

Hallfríður garðafylja segir með orðum Einars Kárasonar frá sama atburði:

Hallfríður mín. Hér máttu líta Gróu konu mína og Ísleif son minn.“
Án klökkva. En um leið og hann leit undan mátti sjá hagl stökkva úr auga hans, og ég vissi að það var úti um allan frið á Íslandi enn um langa hríð.

Á þennan veg skrifar enginn nema skáld sem býr að öllu því besta sem íslensk sagnahefð hefur þróað í þúsund ár. Og það er ekki lítið.

Nú förum við Einar saman í fleiri gönguferðir og hann flytur mér Óvinafagnað. Ég hlakka til. Er búinn að kaupa hljóðbókina af Forlaginu og setja hana í appið í símanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurður. Það er best að byrja á Skálmöld, atburðirnir sem lýst er í henni gerðust á undan hinum. Nr. 2 (í sögulegri röð) er svo Óvinafagnaður og Ofsi nr.3. Bókin Skáld er svo um ævi Sturlu Þórðarsonar, og þar er reyndar farið yfir atburðina í hinum.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 19.10.2020 kl. 18:34

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir góðar ábendingar, Ingibjörg. Auðvitað vissi ég þetta ekki. Er því miður byrjaður á Óvinafagnaði, og hjá mér er Kakali á leið til Íslands. Tek næst fyrir Skálmöld og svo Skáld. Það hjálpar að vera þokkalega að mér í Sturlungu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.10.2020 kl. 18:41

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Ofsalega er ég mikið sammála þér.

Og mikið mælir þú vel Sigurður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.10.2020 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband