Yrðir líflátinn, allt of og afturendinn
29.9.2020 | 12:13
Orðlof
Kýmni
Mér er enn í fersku minni, þegar ég fyrst heyrði talað um Bréf til Láru. Fólkið var alveg höggdofa og grallaralaust. Öllum kom þó saman um, að höfundurinn hlyti að vera vitlaus hefði líklega sloppið út af Kleppi. Hitt var mönnum ráðgáta, hvernig nokkrum mönnum með fullu viti gat dottið í hug að prenta bók eftir vitlausan mann.
Að vísu hefur fólk vitkazt mikið, síðan Bréf til Láru kom út. Þó skortir mikið á, að gildi kýmninnar í rituðu máli sé almennt viðurkennt. Flestir vaða í þeirri furðulegu villu, að ekkert mark sé takandi á ritsmíð, ef einhvers staðar örlar á fyndni eða græskulausu gamni. Ritað mál á að vera alvarlegt, eins og það feli í sér sinn eigin dauðadóm.
Tímarit Máls og menningar, 3. tbl.1944. Lifandi tunga eða dautt mál. Skúli Guðjónsson.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sæktu ofsóknum allt fram á síðasta dag.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þaulvönum blaðamanni yfirsést fljótfærnisvillan. Enginn sækir ofsóknum. Í Málfarsbankanum segir:
Sögnin sæta stýrir þágufalli. Menn þurfa að sæta úrskurðinum. Hverju sætir þetta? Þeir sættu lagi. Það sætir undrum.
Athuga að sögnin sæta með eignarfalli í orðasambandinu sæta færis er til orðið úr eldra sæta færi (líklega hefur orðasambandið neyta færis haft hér áhrif).
Ekkert er að því að segja að minnihlutahópar hafi verið ofsóttir. Raunar er það laglegra orðalag.
Hægt er að verjast fljótfærnisvillum með því að geyma textann um stund, lesa hann yfir síðar. Þá fæst oft önnur sýn á skrifin.
Í greininni segir:
Síðasta áratuginn sem Franco ríkti voru skipaður dómstóll
Hér er enn ein fljótfærnisvillan.
Og bæjar- og borgarstjórnum bæja
Dálítið er þetta skrýtið. Bæjarstjórar bæja og borgarstjórar bæja. Þarna hefði verið nóg að segja bæjar- og borgarstjórar
Greinilegt er að blaðamanninum lá mikið á að klára skrifin. Gleymdi að lesa yfir.
Tillaga: Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sættu ofsóknum allt fram á síðasta dag.
2.
Gylfi: Yrðir tekinn af lífi í klefanum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Við fyrstu sýn mætti halda að fyrirsögnin væru um hann Yrði sem var tekinn af lífi í klefa.
Þegar nánar er að gáð fjallar fréttin um fótboltaleik og er þetta haft eftir vangaveltinum (spekúlantinum), Gylfa Einarssyni, sem ræddi um leik Manchester United og Brighton, ekki við Moggann heldur á Sjónvarpi Símans.
Enginn Yrðir var í leiknum og nafnið ekki þekkt meðal leikmanna liðanna og raunar ekki heldur sem íslenskt mannsnafn. Yrðlingur í Hornbjargi gæti þó borið nafnið ef um hann væri samin barnasaga.
Fyrirsögnin er engu að síður torkennileg vegna þess að í hana vantar persónufornafnið þú. En þarna er sögnin að verða komin í viðtengingarhátt. Hér sést hversu óregluleg hún er:
Framsöguháttur í nútíð:
Ég verð tekinn af lífi í klefanum.
Þú verður tekinn af lífi í klefanum.
Hann/hún/það verður tekinn af lífi í klefanum.
Hins vegar er viðtengingarháttur í þátíð allt annar:
Ég yrði tekinn af lífi í klefanum.
Þú yrðir tekinn af lífi í klefanum.
Hann/hún/það yrði tekinn af lífi í klefanum.
Og þarna er það komið. Málfræðilega er ekkert að fyrirsögninni í Mogganum. En þar með er ekki öll sagan sögð.
Ekkert er haft eftir honum Gylfa vangavelti í fréttinni og virðist Mogginn láta nægja að vísa í klippu frá Sjónvarpi Símans. Er það góð vinnubrögð að fjalla ekki um efni fyrirsagnar í meginmáli fréttarinnar heldur vísa lesandanum í annan fréttamiðil?
Í fréttinni eru leikmenn fótboltaliða kallaðir lærisveinar þjálfarans. Þeir sem þjálfari vinnur með í fótbolta eru ekki lærisveinar hans. Ekki frekar en blaðamaður sé lærisveinn ritstjórans. Fótboltamenn og blaðamenn eru launaðir stafsmenn, ekki nemendur í skóla. Svo rammt kveður að þessari misnotkun að halda mætti að blaðamenn Moggans séu staðráðnir í því að breyta tungumálinu.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Allt of, allt of, allt of mörg dæmi um einstaklinga sem hafa verið veikir á ferðinni.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin stingur í augun. Yfirleitt er allt of skrifað í einu orði, alltof. Hitt er ekki rangt eins og segir í Málfarsbankanum:
Annaðhvort er ritað allt of eða alltof.
Stutt og laggott þarna. Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir um allt of:
of með sérstakri áherslu.
DÆMI: kaffið er allt of dýrt, fundurinn var allt of langur, allt of margt fólk var í salnum
Stundum er framburðurinn svona: Allt oof dýrt. Þá er áherslan dálítið hneykslunarkennd.
Ég hef vanist á að skrifa alltof en á það til að slíta orðið í sundur þegar mér er mikið niðri fyrir en leiðrétti komi ég auga á villuna.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Gott að fá smá spark í rassgatið öðru hverju.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Viðmælendur blaðamanna tala vonandi alltaf frá hjartanu en þar með er ekki sagt að allt sé hafandi eftir þeim. Hér er ekki verið að mæla fyrir tepruskap en samt er óviðkunnanlegt að nota orðið rassgat í fjölmiðlum. Það á ekki við. Þar að auki er hægt að ímynda sér að spark sem fer nákvæmlega í það sé síst af öllu gott, hvað svo sem fótboltamanninum finnst.
Ekki er öllum gefið að taka viðtöl og skrifa þau en með góðri tilsögn má læra listina. Mikilvægt er að kunna að segja sögu og viðtal er saga. Þar að auki vanda ekki allir viðmælendur mál sitt og raunar eru sumir frekar illa máli farnir. Þá er það verkefni blaðamannsins að umorða, færa til betri vegar.
Í fréttinni segir viðmælandinn:
og það var þess vegna afar kærkomið að ná í sigur.
Þetta er alls ekki rangt orðað en í stað þess að vera svona nafnorðasinnaður hefði í staðinn verið hægt að segja:
og það var þess vegna afar kærkomið að sigra.
Röð orða er stundum dálítið þvinguð í fréttinni. Í segir:
og eins höfum við ekki verið að skora mörg mörk heldur.
Blaðamaðurinn hefði mátt laga orð viðmælandans eitthvað á þessa leið:
og við höfum ekki heldur skorað mörg mörk.
Sagt er að umhverfið móti einstaklinginn og skrif í fjölmiðlum hafa áhrif á lesendur. Þar af leiðir að afar mikilvægt er að í starf blaðamanns veljist vel skrifandi fólk sem fái leiðbeiningar frá samstarfsmönnum og yfirmönnum á ritstjórninni. Allir hafa gott af aðhaldi.
Tillaga: Gott að fá smá spark í afturendann öðru hverju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Facebook
Athugasemdir
Þjálfari knattspyrnuliðs á Íslandi:Misstum tvo góða leikmenn ERLENDIS.
Kannski ekki umtalsvert.
Bodvar Gudmundsson (IP-tala skráð) 29.9.2020 kl. 12:53
Blessuð sé minning þeirra. Geri ráð fyrir að leikmennirnir hafi látist í útlöndum.
Þó má vera að þjálfarinn eigi við að leikmennirnir hafi farið til fóboltastarfa í útlöndum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.9.2020 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.