Metfé, gera ekki gott mót og tímapunktur
24.6.2020 | 00:52
Orðlof
Hlátur
Merkingarmunur er á orðunum hlæja (merkir: gefa frá sér hlátur) og hlægja (merkir: valda einhverjum hlátri).
Síðari sögnin er orsakarsögn leidd af þeirri fyrri.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hin sögufræga Into the Wild-rúta sem staðsett var í óbyggðum Alaska
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Allt er staðsett. Ekkert er. Á málið.is segir:
Orðið staðsettur er oft óþarft. Bíllinn var staðsettur við pósthúsið merkir: bíllinn var við pósthúsið.
Berum saman fyrirsögnin og tillöguna hér fyrir neðan.
Tillaga: Sögufræga into the Wild-rútan sem var í óbyggðum Alaska
2.
þar sem Repúblikanar í öldungadeildinni myndu fá að segja til um hvort að Barr yrði vikið úr embætti eða ekki.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Orðalagið er máttlaust og það sem verra er algjörlega stíllaust.
Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Þeir geta því greitt atkvæði gegn tillögu um að Barr yrði vikið úr embætti. Ómarkvisst er að segja að þeir fái að segja til um. Ef til vill ekki ómarkvisst heldur vitlaust.
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Færeyska ríkisútvarpið, Kringvarpið, greinir frá þessu og segir að svæðið á Velbastað hafi lengi verið fornleifafræðingum hugfangið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Líklega hefur blaðamaðurinn ruglast í ríminu og ætlað að segja Velbastað vera fornleifafræðingum hugleikinn. Hann gleymdi í þokkabót að lesa yfir fréttina fyrir birtingu og leiðrétta villuna eða sá hana ekki. Áhöld eru um hvort sé lakar, að skrifa rangt orð eða gleyma að lesa yfir.
Allt er svæði hjá byrjendum í blaðamennsku. Skynsamlegt hefði verið að kanna landakort fyrir birtingu fréttarinnar og þá hefði blaðamaðurinn áttað sig á því að svæðið er staður skammt frá Þórshöfn. Góðir skrifarar hefðu þá skilið að svæði er hér óþarft.
Góð lýsing á Velbaðstað er hér. Hollt er að spreyta sig á færeyskunni.
Tillaga: Færeyska ríkisútvarpið, Kringvarpið, segir frá þessu og að Velbastaður hafi lengi verið fornleifafræðingum hugleikinn.
4.
gítar Kurts Cobain var seldur á uppboði fyrir metfé.
Frétt á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 23.6.20.
Athugasemd: Metfé merkir ekki mestur peningur heldur húsdýr sem er góður gripur. Blaðamenn með rýran orðaforða vita þetta ekki.
Á málið.is segir ennfremur í Íðorðabankanum að í lögfræðilegum skilningi geti orðið átt við hluti eða húsdýr.
Tillaga: gítar Kurts Cobain var seldur á uppboði fyrir hátt verð.
5.
en þessi sautján ára leikmaður unglingaliðs félagsins gerði ekki gott mót um helgina.
Frétt visir.is.
Athugasemd: Var frammistaða leikmannsins slæm? Sé svo er einfaldast að segja að hann hafi staðið sig illa eða ekki vel.
Sá sem skrifar svona hefur ekki góðan skilning á íslensku. Orðalagið ber keim af enskri orðaröð, byggir á notkun nafnorðs í stað sagnar.
Tilgerð blaðamannsins er kjánaleg en um leið mjög slæm. Blaðamenn eiga að skrifa og tala gott mál. Það sem stendur í fjölmiðlum er fyrirmynd því sumir lesendur kunna að halda að allt þar sé á gullaldarmáli.
Tillaga: en leikmaðurinn sem er sautján ára stóð sig ekki vel í leiknum um helgina.
6.
Áætlað er að flutningurinn eigi sér stað í haust.
Frétt mbl.is.
Athugasemd: Hvað er átt við með málsgreininni? Jú, þeir ætla að flytja í haust, flutningurinn verður í haust. Flutt verður frá einum stað til annars.
Er eitthvað fína eða betra að segja að flutningur eigi sér stað en að flutt verði?
Í fréttinni segir:
Þar verður að finna kynningarsal fyrir bíla og þjónustu.
Líklega þarf að túlka frétt blaðamannsins svo hún skiljist. Hann á ekki við að leita þurfi að kynningarsalnum né heldur að salurinn sé týndur og nú þurfi að finna hann, leita að honum. Hann á líklega við:
Þar verður kynningarsalur fyrir bíla og þjónustu.
En ekki hvað? Í fréttinni segir:
Í tilkynningu segir Tesla, að Íslendingum sé áfram um að skipta yfir
Þetta er nú meira klúðrið. Líklega ætlaði Tesla eða blaðamaðurinn að segja að Íslendingar séu áfram um að skipta Orðalagið er frekar kjánalegt, tilgerðarlegt. Eftirfarandi er betra:
Í tilkynningu segir Tesla að Íslendingar vilji skipta yfir
Auðvitað á blaðamaðurinn að lagfæra klúðrið frá Tesla, ekki hella því áfram yfir lesendur.
Svo segir í fréttinni, og eru skrifin innan gæsalappa svo gera verður ráð fyrir að það séu starfsmenn umboðsins Teslu sem haldi á penna:
og rafknúið fjórhjóladrif sem fer auðveldlega um hinar ýmsu aðstæður.
Hingað til hef ég haldið að fjórhjóladrif sé áfast bílnum en líklega er það misskilningur.
Loks segir:
Til viðbótar þessu boðar Tesla komu fjölda hraðhleðslustöðva meðfram vegum landsins til að gefa neytendum kost á rafknúnum ferðum umhverfis landið.
Þetta bendir til að Tesla ætli að aka með fólk um landið, líklega ókeypis. Þar að auki er nástaða í málsgreininni. Blaðamaðurinn átti að hafa vit á að eyða henni.
Fréttin illa skrifuð, innantómt mjálm.
Umboðið verður að hætta að skrifa fréttatilkynningar og fá fagmenn til aðstoðar. Að öðrum kosti heldur rafdrifið áfram að fara um hinar ýmsu aðstæður og þá er ábyggilega skammt í mikinn vanda. En hvað á Mogginn að gera. Og við lesendur þegar svona óværa lendir á okkur?
Tillaga: Áætlað er að flutt verði í haust.
7.
Handritsskrifin eru gjörsamlega út í hött og oft þarf maður að hafa sig allan við að slökkva ekki á sjónvarpinu þegar þættirnir taka gjörsamlega óskiljanlega stefnu.
Frétt, Ljósvakinn á. blaðsíðu 30 í Morgunblaðinu 23.6.20.
Athugasemd: Þetta er furðulegt orðalag. Blaðamaðurinn er að gagnrýna sjónvarpsþætti á Netflix og ferst það óhönduglega. Hann á líklega við að hann hafi með erfiðismunum getað stillt sig um að slökkva á sjónvarpinu.
Á einum tímapunkti virðast höfundarnir gleyma
Tímapunktur er eins og draugur sem veður uppi í fjölmiðlum og skemmir alls staðar þar sem hann drepur niður fæti. Þetta er ekki einu sinni almennilegt orð. Í staðinn höfum við nú, núna, þá og mörg fleiri. Blaðamaðurinn hefði getað orðað þetta svona:
Eitt sinn í þættinum virðast höfundarnir gleyma
Svo segir blaðamaðurinn:
Punkturinn yfir i-ið er svo eitt lélegasta plot-twist sem ég hef orðið vitni að.
Ég vil ekki vita hvað plot-twist merkir. Mér var farið að leiðast skrifin löngu áður en hér var komið sögu og mátti hafa mig allan við að hætta ekki lestrinum. Nákvæmlega á þessum tímapunkti var ég við það að fara að skæla, svo innantóm þóttu mér skrifin.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.