Mannýgur hundur, það sem skeði og brotið hjarta

Orðlof

Hlátur

Merkingarmunur er á orðunum hlæja (merkir: gefa frá sér hlátur) og hlægja (merkir: valda einhverjum hlátri). 

Síðari sögnin er orsakarsögn leidd af þeirri fyrri.

Málfarsbankinn

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Áratuga löngu sambandi Icelandair og Boeing ólíklega að ljúka.

Fyrirsögn á turisti.is.                               

Athugasemd: Þetta er illa gerð fyrirsögn. Hefðbundinni orðaröð er snúið við og afleiðingin er illskiljanlegt hnoð.

Tillaga: Ólíklegt að áratugalöngu sambandi Icelandair og Boeing sé að ljúka.

2.

„Hjólreiðakona fékk heilahristing eftir að bílhurð var opnuð fyrir framan hana.“

Frétt á visir.is.                               

Athugasemd: Enginn fær heilahristing við að sjá opnar bíldyr. Staðreynd málsins er að kona hjólaði á bílhurð sem skyndilega var opnuð. 

Tillaga: Kona slasaðist er hún hjólaði á bílhurð sem skyndilega var opnuð í vegi hennar.

3.

„Forðaði sér á rafhlaupahjóli undan mannýgum hundi.“

Fyrirsögn á ruv.is.                               

Athugasemd: Flestir kunna að þekkja lýsingarorðið mannýgur í tengslum við önnur dýr en hunda, einkum nautgripi eða hrúta eins og segir í málið.is. Ekki er þó rangt að nota orðið um grimma hunda sem ráðast á fólk.

Í Íslenskri orsifjabók kemur fram að ýgur merki hræðilegur, ægilegur, hættulegur. Svo segir að af lýsingarorðinu ýgur sé leitt orðið ýglegur sem er gamalt og ekki notað. Nýrri mynd þess er ógurlegur.

Skemmtilegt er að rekja orðið lengra. Í orðabókinn er nefnd tvö orð, ýgildi og ýildi (borið fram íg-ildi og ý-ildi). Ý merkir mikið af. 

Ef orðið hefur g í stofni má ætla að það sé sk. ýgjast og ýgur; merkingin ’mikið’ hefði þá æxlast af tákngildinu ’skelfing’ …

Ef orðið hefur ekki haft g í stofni er líklegast að forliður þess sé í ætt við so. úa, ýja ’mora’.

Vissulega geta hundar verið mannýgir. Mýflugur og lúsmý eru hins vegar ekki mannýg en sumsstaðar morar af þeim og þau sækja í fólk og aðrar skepnur. Úir og grúir er stundum sagt.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Í mörg ár eft­ir skilnaðinn, þegar eitt­hvað skeði í mínu lífi …“

Frétt á mbl.is.                                

Athugasemd: Sjaldgæft er að rekast á sögnina „ske“ sem var algeng hér áður fyrr. Einna helst finnst hún núna í spurningunni „Hvað er að ske?“ Íslenskukennarar áttu sinn þátt í því að orðið missti gengi og sakna þess fæstir.

Í fréttinni segir:

Blau­el hef­ur haldið sig úr sviðsljós­inu síðan hún skildi við John árið 1988 en hef­ur nú komið sér í sviðsljósið. 

Blaðamaðurinn sér ekki nástöðuna.

Fréttin er „hundavaðsþýðing“ á frétt úr enskum fjölmiðli sem er miklu betur skrifuð og ítarlegri en sú íslenska.

Í fréttinni segir:

Ég braut hjarta mann­eskju sem ég elskaði og …

Í ensku heimild fréttarinnar segir:

I’d broken the heart of someone I loved …

Þetta er viðvaningslega gert. Blaðamaðurinn þýðir beint og notar orðið manneskja sem bætir ekki málsgreinina. Eftirfarandi er skárra:

Ég brást þeirri sem ég elskaði og …

Mikilvægt er að leiðbeina sumarstarfsfólkinu en líklega eru allt reyndara fólkið í ritstjórninni komið í sumarfrí.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„… segir Sirrý Ágústsdóttir sem lauk á dögunum áheitagöngunni LífsKraftur þegar hún þveraði Vatnajökul með góðum hópi kvenna.“

Frétt á visir.is.                               

Athugasemd: Sögnin að þvera merkir að fara þvert á eitthvað. Í fréttinni segir ekkert hvernig Vatnajökull var þveraður. Lesandinn þarf að vera vel inni í fréttaflutningi síðustu vikna og vita að konan gekk leiðina á gönguskíðum. Um það er ekki stafkrókur í fréttinni er er sögnin að þvera þó tvisvar notuð.

Þeir vita sem þekkja að hægt er að þvera jökla á margvíslegan máta; aka á sérútbúnum jeppum, vélsleðum og hægt að nýta meðvindinn og skíða með segli. Einhverjir sprækir strákar hjóluðu yfir Vatnajökul fyrir nokkrum árum.

Ástæðan fyrir því að þetta er nefnt hér er sú árátta fjölmargra blaðamanna að skrifa frétt sína aðeins fyrir þá sem eru jafn fróðir og þeir sjálfir. Seint telst það góð blaðamennska.

Gera má athugasemdir við heiti félagasamtaka sem hafa stóran staf í samsettu heiti eins og hér, LífsKraftur í stað Lífs-kraftur eða Lífskraftur. Þetta er útbreitt á enskri tungu og víðar en hefur til skamms tíma ekki þekkst hér á landi.

Tillaga: … segir Sirrý Ágústsdóttir sem lauk á dögunum áheitagöngunni LífsKraftur þegar hún gekk á gönguskíðum þvert yfir Vatnajökul með góðum hópi kvenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband