Kemur upp í börnum, flippa eggi og sinna stöðu sinni
20.5.2020 | 12:14
Orðlof
Á tali
Orðasambandið á tali, sem notað er um síma sem er upptekinn, má rekja til orðasambandsins að vera (sitja eða sjást) á tali við einhvern.
Þeir sátu á tali langa stund,
eða
hann sást á tali við stúlkuna
og önnur álíka sambönd eru vel þekkt.
Þegar síminn barst til landsins voru tveir á tali þegar þeir ræddu í símann. Ekki náðist samband við einhvern ef hann var á tali við annan með því að nota símann.
Merkingin færðist síðar yfir á símtækið sem nú er sagt á tali ef verið er að nota símann.
Vísindavefurinn. Guðrún Kvaran.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Dæmi væru um að sjúkdómurinn hefði komið upp í börnum sem reyndust ekki vera með veiruna.
Frétt á vísir.is.
Athugasemd: Varla er þetta viðurkennt orðalag um veikindi barna. Að minnsta kosti er hér illa að orði komist.
Fréttin byrjar svona:
230 börn hafa veikst af
Alls staðar er mælt gegn því að byrja skrif á tölustöfum sem og nota tölustafi eftir punkt. Svo rammt kveður að þessu hér á landi að allt bendir til þess að ritstjórar og aðrir stjórnendur fréttamiðla viti ekki betur. Það er hörmulegt og bendir ekki til þess að hugsað sé til lesenda við fréttaskrif. Allt virðist mega bjóða okkur.
Í fréttinni segir:
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur biðlað til heilbrigðisstarfsfólks að vera vakandi fyrir sjúkdómnum
Blaðamaðurinn hefur lítinn skilning á íslensku máli og enn minni orðaforða. Líkast til hefur hann ætlað að segja þetta:
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hvetur heilbrigðisstarfsfólk til að vera vakandi vegna sjúkdómsins
Sumir vita ekki hvað sögnin að biðla merkir og nota hana þegar miklu betra er að nota markvissari orð og orðalag eins og hvetja, krefjast, heimta, óska eftir, mæla með og svo framvegis.
Tillaga: Dæmi væru um að börn hefðu veikst án þess að vera með veiruna.
2.
á sex börn en verður orðin átta barna móðir í lok árs þegar tvíburar mæta á svæðið.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Orðalag verður að vera við hæfi, í einhverju samræmi við frásögnina. Börn fæðast en varla hægt að segja að þau mæti á svæðið. Kjánalegt orðalag.
Tillaga: á sex börn en verður orðin átta barna móðir í lok árs þegar tvíburar fæðast.
3.
Svona flippar þú eggi léttilega á pönnu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Sögnin að flippa fékk nokkuð brautargengi í íslensku máli í merkingunni að hegða sér bjánalega og galsafengið eins og segir í Málinu (málið.is). Orðið er ekki lengur mikið notað.
Allt annað er með nýju útgáfu sagnarinnar að flippa sem kemur rakleiðis úr ensku. Merkingin er úr eldamennsku. Snjallir matreiðslumenn steikja egg, klatta eða annað á pönnu og kasta svo matnum upp í loft með snöggri hreyfingu og til þess að hann lendi á hinni hliðinni. Þetta er svona uppsnúningur sem gott orð. Gengur að auki út á að snúa niður ensku sögnina to flip.
Er til betra nafnorð en uppsnúningur og sögnin að uppsnúa?
Tillaga: Svona uppsnýrðu eggi léttilega á pönnu.
4.
Loverro hafði sinnt stöðu sinni í einungis sjö mánuði
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fólk sinnir starfi sínu. Oft er starf kallað staða og þá er hugsanlega átt við embætti af einhverju tagi.
Sá sem er í stöðu og sinnir henni ekki er annað hvort veikur, fjarverandi eða hyskinn.
Líklega á blaðamaðurinn við að Loverro þessi hafi aðeins gengt starfinu í sjö mánuði.
Talsverður munur er á orðalaginu að sinna stöðu sinni og gegna starfi sínu.
Einungis er atviksorð. Lesandinn fær það á tilfinninguna að það sé á röngum stað í setningunni. Aðeins er líka atviksorð og fer betur á að nota það
Tillaga: Loverro hafði aðeins sinnt starfi sínu í sjö mánuði
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.