Nálgast flugvélar örugglega, hljóta skipun og slá höfðinu í borð
14.5.2020 | 10:10
Orðlof
Berja í brestina
Brestur; sprunga, rifa glufa. Afsaka eða breiða yfir ágalla einhvers;
- Hún tók svari hans og reyndi á allan hátt að berja í brestina.
Reyna að gera gott úr einhverju; reyna að lagfæra eitthvað;
- Ritgerðin er gölluð en ég skal lesa hana yfir og berja í brestina.
- Það eru margir gallar á þessari ráðagerð en það þýðir ekki annað en berja í brestina og halda áfram
Orðatiltæki er kunnugt úr Njáls sögu:
Þar skaltu láta falt smíðið og hafa það uppi af er verst er og berja í brestina.
Líkingin er dregin af silfursmíð, það er þegar smiðurinn reynir að lagfæra sprungur með því að hamra þær og loka þeim þannig.
Elsta afbrigði úr síðara alda máli er: Berja um bresti.
Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins, blaðsíðu 80.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Sigtryggur, sem verður 24 ára gamall í júní, kemur til félagsins
Frétt á blaðsíðu 22 í Morgunblaðinu 13.5.2020.
Athugasemd: Ánægjulegt að lesa málsgrein sem er svona orðuð. Lakari blaðamenn hefðu skrifað:
Hinn 24 ára gamli Sigtryggur kemur til félagsins
Guðrún Egilsson segir í dálknum Tungutak í Morgunblaðinu:
Hann [lausi greinirinn] er að vísu ekkert bannorð og sómir sér vel í hátíðlegu máli eða titlum eins og Hið íslenska bókmenntafélag eða Hið ljósa man, svo að aftur sé vitnað í Laxness, en nú er hann orðinn svo útbreiddur að málið verður tilgerðarlegt og ljótt.
Í lokin segir hún:
Förum sparlega með lausa greininn og notum hann einungis við hátíðleg tækifæri. Við skulum heldur ekki ofnota viðskeytta greininn því að oft standa nafnorðin sjálf fyrir sínu.
Undir þessi orð Guðrúnar hljóta flestir að taka.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Við getum nálgast vélar hratt og örugglega ef svo ber undir.
Frétt á á forsíðu Viðskiptablaðs Morgunblaðsins 13.5.2020.
Athugasemd: Sögnin að nálgast er þarna misnotuð ansi illilega. Hún merkin einfaldlega að koma eða fara nær, nálægt. Ekkert annað.
Daglega nálgast fólk flugvélar ýmissa erinda vegna. Viðmælandinn í fréttinni á við að hann og fleiri geti fengið, leigt eða keypt flugvélar. Af hverju er það ekki sagt þannig frekar en að nota orð sem síst af öllu er hnitmiðað?
Blaðamaðurinn hefði átt að lagfæra orðalagið fyrir birtingu því starf hans er ekki að breyta íslensku máli.
Líklega er blaðamaðurinn og viðmælandinn betur að sér í ensku en íslensku. Værum við ekki að burðast með íslenskt mál hefði þeim ekki orðið skotskuld úr því að orða þetta svona:
We can access planes quickly and safely, if necessary.
Enginn myndi orða þetta þannig að hægt sé að nálgast flugvélar, á ensku getting closer to planes.
Allir skilja að hægt sé að útvega flugvélar hratt. Hvað felst í því að það sé gert örugglega? Líklegast er það bara til uppfyllingar, hefur engan tilgang í samhenginu.
Tillaga: Við getum útvegað vélar hratt og örugglega ef svo ber undir.
3.
Sigurður Tómas hlýtur skipun.
Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu 13.5.20.
Athugasemd: Maðurinn var skipaður. Öllum hlýtur að vera það ljóst. Hvers vegna er þá farin þessi Fjallabaksleið og segja að hann hafi hlotið skipun? Stofnanamállýskan lætur ekki að sér hæða. Hún hefur náð fótfestu í fjölmiðlum eins mygla í rakaskemmdu húsi.
Ef við ætlum að apa þetta eftir blaðamanni Fréttablaðsins myndum við segja að hann gerir skrif og þá væri átt við að hann skrifar. Einhver hlýtur umfjöllun í fjölmiðlum, löggan framkvæmir handtöku, löggan haldleggur þjófstolinn hlut og svo framvegis. Dæmi um svona asnalegt málfar eru óteljandi.
Hægt er að nota sögnina að hljóta í ýmsum tilvikum. Hún merkir samkvæmt orðabókinni að öðlast, fá í sinn hlut, verða, mega til og svo framvegis.
Ekkert er að því að segja að einhver hafi hlotið verðlaun, fálkaorðuna, viðurkenningu og svo framvegis.
Tillaga: Sigurður Tómas skipaður hæstaréttardómari.
4.
Þegar hún féll sló hún höfðinu í borð og dó þess vegna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fullyrða má að enginn slái höfðinu sínu í borð, allra síst sá sem er meðvitundarlaus. Orðalagið er slæmt, bendir ekki til þess að blaðamaðurinn hafi nægan orðaforða til að getað tjáð sig eðlilega.
Heimildin er vefur Politifact. Þar segir:
and fell, hitting her head on a desk. The head injury caused the death.
Ótrúlegt að blaðamaðurinn þýði hitting her head með orðunum sló hún höfðinu í borð.
Þó þekkist orðalagið að berja höfðinu við steininn. Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir um það:
Neita að viðurkenna staðreyndir, þráast við (í vonlausri stöðu), þverskallast við e-u.
Hér hefur oft verið fullyrt að ekki sé nóg að blaðamaður sé góður í ensku ef hann getur ekki þýtt á þokkalega íslensku. Þá er ekkert gagn af honum nema því aðeins að hagsmunir lesenda skipti útgáfuna engu.
Tillaga: Þegar hún féll rak hún höfðið í borð og varð það banamein hennar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.