Frábrigðarfrálag, hamagangur í sjó og hola í gegnum vegg

Orðlof

Hvannjóli

Það bar til um vorið eftir að þeir Þorgeir og Þormóður fóru norður á Strandir og allt norður til Horns. Og einn dag fóru þeir í bjarg að sækja sér hvannir og í einni tó er síðan er kölluð Þorgeirstó skáru þeir miklar hvannir. 

Skyldi Þormóður þá upp bera en Þorgeir var eftir. Þá brast aurskriða undan fótum hans. Honum varð þá það fyrir að hann greip um einn hvannjóla með grasinu og hélt þar niðri allt við rótina ella hefði hann ofan fallið. Þar var sextugt ofan á fjörugrjót. 

Hann gat þó eigi upp komist og hékk þar þann veg og vildi þó með öngu móti kalla á Þormóð sér til bjargar þó að hann félli ofan á annað borð og var þá bani vís sem vita mátti.

Þormóður beið uppi á hömrunum því að hann ætlaði að Þorgeir mundi upp koma. En er honum þótti Þorgeiri dveljast svo miklu lengur en von var að þá gengur hann ofan í skriðuhjallana. Hann kallar þá og spyr hví hann komist aldrei eða hvort hann hefir enn eigi nógar hvannirnar.

Þorgeir svarar þá með óskelfdri röddu og óttalausu brjósti: „Eg ætla,“ segir hann,„að eg hafi þá nógar að þessi er uppi er eg held um.

Þormóð grunar þá að honum muni eigi sjálfrátt um, fer þá ofan í tóna og sér vegsummerki að Þorgeir er kominn að ofanfalli. Tekur hann þá til hans og kippir honum upp enda var þá hvönnin nær öll upp tognuð. Fara þeir þá til fanga sinna.

Fóstbræðra saga, 13. kafli.

Njóli, jóli

hvannjóli k. ‘hvannstilkur’. Sjá hvönn, jóli og njóli, sem fengið hefur upphafs-n-ið við ranga atkvæðaskiptingu þessa orðs.

málið.is. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Með frábrigðum er fyrst og fremst átt við hvert það frálag skólans […] sem ekki uppfyllir gæðamarkmið hans um ánægju viðskiptavina og yfirfærða þekkingu til þeirra.“

Hugtök og skilgreiningar, Tækniskólinn 24.5.2018.               

Athugasemd: Einhvers staðar sá ég orðið „frábrigðarfrálag“. Ég skildi það ekki og samhengið auðveldaði mér ekki skilning. Vinur minn einn benti mér á ofangreinda texta frá Tækniskólanum í þeirri von að hann hjálpaði. Nei, hann flækir bara málið.

Í heild er ofangreind tilvitnun svona:

Með frábrigðum er fyrst og fremst átt við hvert það frálag skólans (sem framleiðir „vöruna“ kennslu áfanga og námskeiða) sem ekki uppfyllir gæðamarkmið hans um ánægju viðskiptavina og yfirfærða þekkingu til þeirra. Einnig getur verið um að ræða óhapp, (nærri því) slys eða (nærri því) tjón sem á sér stað í starfsemi skólans. Frábrigði þýðir með öðrum orðum (ISO 001:2015 kafli 10.2) „það uppfylla ekki kröfur“ sem er hið andstæða við samræmi.

Í gamla daga sagði fólk sem ekki skildi: Þetta er eins og latína fyrir mér. Síðar var talað um „Orwelsku“ og nú er talað með nokkurri um stofnanamál, og það telst síður en svo hól.

Frábrigði er samkvæmt orðanna hljóðan það sem bregður frá, oftast því sem er venjulegt. Í orðabókinni minni segir að orðið merki slátrun og skýrt með þessu dæmi; að ærin er góð til frálags, gefur mikið af sér.

Í læknisfræði er til frábrigði og sem afbrigði eða afbrigðileiki. Í tölvunarfræðum er frábrigði þýðing á enska orðinu „exception“, sjá hér. Hjá Bílgreinasambandinu er frábrigði sagt vera „það að uppfylla ekki kröfu“. Sjá hér.

Frálag er þekkt orð sem yfirleitt er notað í fleiri fræðum. Það er líka þýðing á enska orðinu „output“ eins og segir á malid.is. Orðið lifir enn góðu lífi í málinu þó merking þeirra sé ekki alltaf hin sama.

Niðurstaðan er hins vegar þessi. Ef þokkalega skýrt fólk skilur ekki texta er hann ekki góður. Þá þarf að rita hann aftur og lagfæra. Sumir skrifa án þess að hugsa til þeirra sem eiga að lesa.

Ég ætla ekki að reyna mig við hið furðulega orð „frábrigðarfrálag“. Svona stofnanamál er hræðilegt.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Log­in­ov, sem held­ur á gull­medal­íu í sprett­göngu, átti að keppa í boðgöngu karla síðar í dag …“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Þetta er ekki myndatexti og ekki er verið að lýsa aðstæðum. Blaðamaðurinn er einfaldlega að segja að Loginov hafi unnið gull í sprettgöngu á skíðum, hann sé verðlaunahafi.

Á ensku kann orðalagið að vera svona: 

Leganov holds the gold medal in sprint … 

Skyndilega kviknar á perunni hjá blaðamanninum og hann fer að þýða. Hann veit þó ekki að á íslensku þýðir þetta alls ekki að maðurinn „haldi á gullmedalíu“. Þannig skrifa aðeins viðvaningar. 

Fyrirsögn fréttarinnar er svona:

Gerðu byssu skíðaskot­fim­iskappa á nær­bux­un­um upp­tæka.

Ekki er metnaðurinn mikill á Mogganum. Byssan og nærbuxurnar skipta auðvitað engu máli, því fréttin fjallar um lyfjamisferli Rússa á HM á skíðum, ekkert annað. Mogginn hagar sér eins og „gula pressan“ í fyrirsagnagerð.

Tillaga: Log­in­ov sem vann gull­medal­íu í sprett­göngu átti að keppa í boðgöngu karla síðar í dag …

3.

„Myndband sem Landhelgisgæslan birtir á Facebook í dag sýnir ölduhæðina og hamaganginn í sjónum sem gekk yfir skipið.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Fólk sem skrifar um sjógang og og óveður á sjó þarf ekki að hafa verið á sjó til að geta lýst aðstæðum. Hins vegar er það dálítið barnalegt orðalag að tala um „hamagang í sjónum“, eiginlega bara doldið sætt orðalag svona í einfaldleika sínum.

Skip geta orðið fyrir áföllum á sjó, skemmst og jafnvel sokkið. Fyrir kemur að skip verði fyrir hnútu, öldu sem rís skyndilega upp og skellur á því. Þetta er líka kallað ólag. 

TillagaMyndband sem Landhelgisgæslan birtir á Facebook í dag sýnir ólag sem gekk yfir skipið.

4.

Hola í vegg fær hæstu ein­kunn“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Slæmt þykir ef blaðamaður er orðvilltur, kann ekki skil á merkingu orða. Blaðamaður Moggans skrifar frétt um vegg og segir að í honum sé hola. Á mynd sem fylgir kemur berlega í ljós að „holan“ nær í gegnum vegginn, sem er haganlega hlaðinn múrsteinum og ekki síður er opið afspyrnu fallega unnið. Meistaraverk, myndu sumir segja um gatið eða opið.

Heimild blaðamannsins er vefur BBC. Þar er talað um „hole in a wall“. Barnið á fréttavaktinni hleypur til og hrópar af kæti: Ég veit, ég veit, ég veit hvað þetta þýðir.“ Forviða lesendur fréttavefs Morgunblaðsins lesa stuttu síðar um holu sem nær í gegnum vegg. 

Vera kanna að sumir séu komnir með holu á buxurnar eða holu á sokkinn. Vera má að ýmsir eigi ekki fimmeyring með holu. Aðrir eiga eflaust átta holu tryllitæki. Margir standa sig vel í prófum, aðrir standa á holu. Jæja, maður verður að kunna sér hóf, ekki éta á sig holu. Eflaust aka margir um Hvalfjarðarholuna. 

Líklega hafa lesendur skilið þessa tilraun mína til að vera fyndinn. En það er ekkert gamanmál þegar  krakkar sem hafa engan orðaforða, hafa aldrei ótilneyddir lesið bók, en eru allt í einu orðnir „blaðamenn“ fá frjálsar hendur við að misþyrma tungumálinu daglega. Og trúið mér, þetta er smáatriði miðað við það sem skráð hefur verið hér á þessum vettvangi. „Skæri eru ekki barnameðfæri“, stendur einhvers staðar. Jú, hvaða vitleysa, leyfðu ómálga barninu að leika sér með skæri, hníf og jafnvel byssu. Hvernig á barnið annars að læra?

Ábyrgð þeirra sem sjá um að ráða blaðamenn er mikil. Og kann að vera afdrifarík.

Tillaga: Vinsælt að skoða hringlaga op á múrvegg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband