Olli kvika ekki landrisinu við Grindavík?

Reykjanesskagi, skjálftarJarðskjálftahrinunni við Grindavík og Þorbjarnarfell er svo til lokið. Frá miðnætti hafa aðeins þrír jarðskjálftar mælast þar. Hins vegar er stór hrina í gangi á Reykjanesi, það er við Reykjanesvita. Þannig fór sem margir spáðu að jarðskjálftarnir myndu færast smám saman vestar.

Fyrir leikmenn er stórmerkilegt að fylgjast með skjálftavirkninni á sunnanverðum Reykjanesskaga síðustu mánuði. Þeir virðast hafa byrjað með lítilsháttar skjálftahrinu við Kleifarvatn, síðan varð mikil hrina við austanvert Fagradalsfjall og þá líka vestan við það.

Síðan lék allt á reiðiskjálfi við Grindavík og voru afleiðingarnar sagðar hafa verið þær að kvika hefði smeygt sér upp vestan við fjallið Þorbjörn. Meginskjálftarnir voru þó fjarri, það er sunnan við Stóra-Skógarfell á gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Þar gaus fyrir um tvö þúsund árum og rann hraunið að hluta til þar sem Grindavík stendur nú.

Reykjanes skjálftar 6 mánLoks færðust skjálftarnir til vesturs, voru margir í Eldvarpahrauni en þar gaus eftir landnám, en svo fór jörð að skjálfa við Reykjanesvita, bæði á sjó og landi, sérstaklega norðvestan við hann. Svo virðist sem hrinan þar sé miklu vægari en við Grindavík. Sjá græna kortið sem er af vef Veðurstofunnar. hitt kortið er frá Loftmyndum og sýnir hvernig jarðskjálftar hafa þróast á síðustu sex mánaðum, færst frá austri til vesturs.

Eins og kom fram hér á undan og í fyrri pistlum benda líkur til þess að kvikuinnskot hafi lyft landi rétt vestan við Þorbjarnarfell að minnsta kosti um fimm sentímetra. Fjölmargir óttuðust að eldgos væri í nánd en jarðfræðingar bentu á að það gæti aldrei orðið stórt enda bentu mælingar til þess að kvikan var mjög lítil að rúmmáli.

Fjölmiðar hafa greinilega misst áhuga á hugsanlegu eldgosi, landrisi og jarðskjálftum við Grindavík. Þeir sem fylgjast með hafa þó tekið eftir því að Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR, Íslenskra orkurannsókna, birti minnisblað á vef fyrirtækisins og benti á að ekki væri óyggjandi að kvika hefði valdið landrisinu. Áhugasamir geta séð minnisblaðið hér.

Ólafur segir:

Við vitum þannig að til eru fleiri skýringar á landrisi samhliða jarðskjálftavirkni en kvikuinnskot, en hverjar þessar skýringar eru vitum við ekki. Helst hefur verið rætt um einhvers konar gaslosun eða fasabreytingar í tengslum við suðu eða yfirmarksástand vökva.

Hann skýrir þetta með þessu:

að einhverjar vökva- eða gastengdar breytingar hafi orðið í jarðhitakerfinu við skjálftana 22. janúar sem hafi leitt af sér þrýstiaukningu á 3–5 km dýpi og landlyftingu.

Mörgum kann að þykja þetta forvitnilegt og ekki síður að jarðskjálftarnir hafi ekki orðið vegna landrisins heldur öfugt. Þá hefur kvikuinnskotið eða fasabreytingarnar orðið til vegna jarðskjálftanna.

Ólafur færir nokkur rök fyrir hvort tveggja, með og gegn kvikuinnskotstilgátunni. Í stuttu máli er tilgáta hans þó þessi en með fylgja ýmsir fyrirvara á henni (greinaskil og feitletranir eru mínar):

Jarðskjálftahrina, líklega með blöndu af sniðgengis- og siggengisskjálftum, hófst 22 janúar.

Skjálftarnir orsökuðust af venjulegri spennuuppsöfnun á flekamótunum sem ganga eftir Reykjanesskaga og fór yfir brotstyrk bergsins. Skjálftarnir ollu þrýstilækkun á 3–5 km dýpi á aflokuðu dýptarbili undir þeim hluta jarðhitakerfisins við Svartengi þar sem niðurdæling fer fram. Á þessu dýptarbili var vökvi í yfirmarksástandi.

Þrýstilækkun vegna skjálftanna í lokaða rýminu á 3–5 km dýpi leiddi til þess að vökvinn færðist úr yfirmarksástandi í yfirhitaða gufu og veldur verulegri rúmmálsaukningu og þar með landlyftingu.

Sú staðreynd að hvorki varð merkjanleg innskotavirkni né eldgos á þeim stað þar sem stóru jarðskjálftarnir urðu bendir til þess að kvika sé ekki að streyma upp í efri hluta jarðskorpuna þar nærri.

Jafnframt veltir Ólafur því fyrir sér hvort „hvort vinnsla og/eða niðurdæling í Svartsengi geti að einhverju leyti verið orsök þessara atburða“. Hann telur þó að svo sé ekki en lesandinn veltir því fyrir sér hvers vegna hann nefnir vinnslu og niðurdælingu. Vera má að hann vilji alls ekki útiloka þetta. Það eitt er stórmerkilegt og ekki síður hvers vegna.

Loks segir Ólafur að talsverðir kostir geti fylgt því ef tilgáta hans sé rétt. Þá kunni að vera meiri vökvi í nýtanlegu ástandi undir Svartsengi. Um leið heldur hann því fram að minni líkur séu á eldgosi á þessum slóðum sem ógnað geti virkjuninni og Bláa lóninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég skrifaði þetta um daginn https://mummij.blog.is/blog/mummij/entry/2245327/

Guðmundur Jónsson, 20.2.2020 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband