Einhverjar tafir, drápsmaður og fjarlægja burt

Orðlof

Kinnhestur

Alloft hef ég verið spurður að því hvað liggi að baki no. kinnhestur. Ég hef svarað því til að hér sé á ferð býsna gangsætt myndmál er vísi til þess er hestur ríður á vanga/kinn þess er fyrir pústrinum verður.

Orðið er kunnugt í fornu máli og algengt allar götur síðan, t.d.:

þá gefur hann henni kinnhest og sér hvernig öllu er háttað, þegar hún kollsteypist af högginu (m19 (ÞjóðsJÁ II, 463));

hann þoldi bönd og hálshögg, kinnhesta og hrækingar (f13 (Íslhóm 49v26));

Svívirðing er í slíkum orðum .... og laust hana kinnhest (s13 (Mork 2));

Finnbogi sat á baki og reið að honum og sló hann kinnhest [vl. kinndrep (m16)] svo að þegar féll hann í óvit (m14 (ÍF XIV, 317)).

Frægasti kinnhestur Íslandssögunnar er vitaskuld kinnhestur sá er Gunnar laust Hallgerði:

lýstur hana kinnhest. Hún kvaðst þann hest muna skyldu og launa ef hún mætti (ÍF XII, 124 (48.k.));

„Þá skal eg nú,” segir hún, „muna þér kinnhestinn ... (ÍF XII, 189 (77.k.)).

No. kinnhestur er að vísu ekki nefnt í orðsifjabókum en dæmi úr Gísla sögu Súrssonar virðist mér taka af allan vafa um hvað að baki liggi, sbr. (útg. Finns Jónssonar):

Þá gengur Þorgrímur að honum [Geirmundi] og slær hann kinnhest og mælti; „Far nú þá ef þér þykir nú betra.” „Nú skal fara,” sagði hann, „þó að nú sé verra en vit það fyrir víst að hafa skal eg vilja til að fá þér þar fylu [‘mertrippi (stálpaða meri)’ > ‘löðrung’] er þú fær mér fola [‘kinnhest’ > ‘snoppung’] og er þó varlaunað [‘vanlaunað’]” (Gísl29, 24).

Þetta virðist bera að skilja svo að Geimundur vill gjalda Þorgrími kinnhestinn ríflega en finnst það þó ekki nóg.

Þess skal loks getið að í rímum af Hrólfi kraka er kunnugt afbrigðið kinnfoli:

*Kinnfolum hún kvaðst ei vön né kjafta hnjátum (m17 (Rím IV, 65)).

Málfarsbankinn, 251. pistill Jóns G. Friðjónssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Það eru lífsglaðir dagar framundan!“

Auglýsing frá nova.is.               

Athugasemd: Svo er lífið að sama daginn er einn hamingjusamur og kátur er annar dapur og þreyttur. Þegar einhver vinnur í lottóinu er annar að jarða ættingja.

Aðeins fólk getur verið lífsglatt. Uppgerðarkæti gleður fáa og illa valin orð gera fáum vel. Ofnotkun vinsælla orða getur „gengisfellt“ þau, dregið úr mikilvægi þeirra.

Svo er með dagana, þeir geta varla verið „lífsglaðir“ og enn síður vegna skilyrðisins, að ég þurfi að kaupa eitthvað til að njóta þeirra.

Svo finnst mér alveg ómögulegt að byrja skrifað mál á „það er“.

„Það“ hvað?

Skrifari sem reynir að sneiða hjá svona orðalagi og um leið batna skrifin.

Tillaga: Næstu dagar verða skemmtilegir.

2.

Ein­hverj­ar um­ferðartaf­ir urðu vegna árekst­urs­ins.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Margir gera engan greinarmun á óákveðnu fornöfnunum nokkur og einhver. Þetta má glöggt sjá í ofangreindri tilvitnun sem er ágætt að bera saman við tillöguna hér fyrir neðan.

Í Málfarsbankanum segir:

Í staðinn fyrir orðið einhver fer oft betur t.d. á orðunum nokkur og fáeinir. 

Hann var í burtu í fáeina daga. (Síður: „hann var í burtu í einhverja daga“.) 

Þetta kostar nokkrar milljónir. Kostnaðurinn skipti milljónum. (Síður: „þetta kostaði einhverjar milljónir“.)

Fjölmargir nota „einhver“ og halda að það skýri frásögnina en því miður er ekki alltaf svo. „Einhverjir bílar skemmdust“ er sagt í stað þess að segja að nokkrir eða fáeinir bílar skemmdust.

Tillaga: Umferð tafðist vegna árekst­urs­ins.

3.

„Dæmd­ur drápsmaður tek­inn á ný.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Almennt er sá sem hefur viljandi orðið öðrum að bana kallaður morðingi, hann myrti og var dæmdur. Drápsmaður er afar sjaldgæft orð og gamalt í málinu en ekki í þessu sambandi.

Jón Trausti orti áhrifamikið og fallegt kvæði sem nefnist Vendetta og í því stendur:

Það er hann, - þessi fantur sem fyrirleit mig,
og fótum tróð lög mín og rétt,
sem níðst hefir á mér og búið mér böl, 
og blóði á kyrtil minn slett.
- En var hann ei dreginn sem drápsmaður fram,
og dæmdur að ríkisins lögum? -
Nei, blóð fyrir blóð! Það var máltæki mitt
á mínum ágætisdögum 

Í fréttinni segir:

Fljót­lega bár­ust bönd­in að kær­asta hinn­ar látnu, manni á fimm­tugs­aldri sem ekki hitt­ist fyr­ir á vett­vangi en þegar var lýst eft­ir og hand­tók lög­regla hann mótþróa­laust rúmri klukku­stund síðar. 

Líklega er blaðamaðurinn góður í norsku en lakari í íslensku. Hann segir að meintur „drápsmaður“ „hittist ekki fyrir á vettvangi“. Sé þessi „norska“ þýdd á íslensku er átt við að sá grunaði hafi ekki verið á þar sem líkið fannst, það er á víðfrægum vettvangi.

Einnig segir í fréttinni:

Maður­inn hef­ur sætt yf­ir­heyrsl­um í dag …

Ýmsu þurfa menn nú að sæta. Sögnin að sæta merkir meðal annars að verða fyrir. Almennt er ekki talað um að grunað fólk sæti yfirheyrslum heldur yfirheyrt.

Loks er það þetta úr fréttinni:

Sá sem nú er grunaður lauk afplán­un sinni árið 2018 og hegg­ur því í sama knérunn reyn­ist hann sek­ur um drápið í gær.

Blaðamaðurinn segir að meintur morðingi hafi áður drepið mann og fengið dóm fyrir. Nú heggur hann í sama knérunn. Það þýðir einfaldlega að annað hvort hefur hann drepið sama manninn tvisvar eða tvo úr sömu ætt eða fjölskyldu. Ég er nokkuð viss um að hver maður deyi aðeins einu sinni svo rökréttast er að álykta að nú hafi hann drepið einhvern úr sömu ætt.

Knérunnur er samkvæmt orðabókinni ættarlína, ættarröð í beinan ættlið. 

Í Málfarsbankanum segir:

Orðatiltækið að höggva/vega í sama knérunn merkir: gera e-m sams konar miska á ný eða gera það sama aftur. Orðið knérunnur merkir: ættarlína, grein ættar.

Samkvæmt þessu mætti með velvild segja að blaðamaðurinn hafi ekki farið rangt með, „drápsmaðurinn“ hafi bara drepið á ný. 

TillagaDæmd­ur morðingi drepur aftur.

4.

„Frakk­ar stað­festa fimm ný Wu­han-veiru smit.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Stundum er orðalag á vefmiðlum ákaflega skrýtið og sömu orðin eru endurtekin sí og æ. Sögnin að staðfesta er eitt þeirra. Gott orð en notkunin er einhæf og tilbreytingarlaus. 

Heimild fréttarinnar er vefur AP, en þar segir í fyrirsögn:

France confirms 5 new cases of virus.

Blaðamaðurinn þýðir samviskusamlega, eiginlega vélrænt: „Frakkar staðfesta“. 

Málfræðilega er ekkert að þessu þó svo að orðabókin segi merkinguna vera segja eitthvað sé rétt, segja að einhverju sé svona háttað.

Hér áður fyrr var eitthvað staðhæft, fullyrt eða kenning kom fram um að eitthvað væri með tilteknum hætti. Stundum er fullyrðingar verið hraktar með rökum en annað staðfest.  

Alfred Wegener lagði fram landrekskenningu árið 1915. Um 1968 kom fram flekakenningin. Báðar skýra rek jarðfleka, hvort með sínum hætti og nú eru þetta almennt viðurkenndar staðreyndir, staðfestar með rökum.

Frakkar hafa eflaust tilkynnt um hugsanlegt veirusmit og svo getað staðfest að þetta sé Wuhan veiran.

Einhæft orðalag er til skaða. Fjölmiðlar hafa mikil áhrif, bein og óbein. Afskaplega er það nú vont þegar blaðamenn þýða vélrænt úr erlendum málum.

Tillaga: Frakkar tilkynna um fimm manns með Wuhan veiruna.

5.

Þessi strákur bað um treyju leikmannsins og fékk hann ósk sína uppfyllta áður en öryggisverðir þurftu að fjarlægja hann burt.“

Frétt á dv.is.                 

Athugasemd: Sögin að fjarlægja merkir að taka í burtu, setja fjarri eins og orðið bendir til. „Fjalægja í burtu“ er þar af leiðandi tvítekning, sambærilegt við að fara með í „burtu burtu“. Orðalagið bendir ekki til þess að blaðamaðurinn hafi mikinn orðaforða.

Í byrjun er ábendingarfornafnið þessi feitletrað. Fornafninu er ofaukið þarna, hefur engan tilgang sem augljóslega má sjá sé fréttin lesin.

Í lokin segir:

Það hafði engin áhrif á krakkann unga sem fór skælbrosandi af velli eins og má sjá hér.

Fréttin fjallar um lítinn dreng sem hleypur inn á fótboltavöll og leikmaður gefur honum treyjuna sína. Hann er ýmist kallaður strákur eða krakki. 

Fréttin er stíllaus, illa skrifuð, og ekki vottar fyrir neinum tilþrifum í blaðamennsku. 

Tillaga: Drengurinn fékk treyju leikmannsins áður en öryggisverðir leiddu hann á brott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband