Hnippa harkalega, montréttur og maður hrundi niður

Orðlof

Í gegnum

Forsetningin í gegnum/gegnum er kunn í elsta máli, í beinni merkingu og óbeinni […]

Hér gætir danskra áhrifa enda alkunna að auðnæm er ill danska. 

Jón Ólafsson ritstjóri og skáld segir skemmtilega sögu af samskiptum skólapilts og Páls Melsteds kennara en þar segir:

Einhvern tíma koma það fyrir í sögutíma hjá Páli að hann spurði pilt: 

„Hvernig gat hann séð þetta fyrir fram?“ 

„Hann vissi það gegnum spámanninn,“ svaraði pilturinn. 

„Var þá gat á spámanninum?“ spurði Páll hægt og háðbroslega.  

Ég býst við að hvorki piltinum né öðrum sem á heyrðu hafi orðið það aftur á að viðhafa þessa dönskuslettu framar. (f20 (IðnN II, 81)).

Málfarsbankinn, 255. pistill  Jóns G. Friðjónssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Janúarmánuður hefur hnippt harkalega í okkur eins og hann telji að við höfum gleymt því hvar í veröldinni við erum til húsa.“

Seinni forystugrein Morgunblaðsins 30.1.20.              

Athugasemd: Sögnin að hnippa merkir lítilsháttar snerting. Hún getur varla verið harkaleg, þá notum við annað orð, til dæmis að slá. Leiðarahöfundurinn er að tala um veðurlag í mánuðinum. Harkaleg hnipping á ekki við þó janúar hafi minnt harkalega á sig.

Tillaga: Janúarmánuður hefur minnt harkalega á sig eins og hann telji að við höfum gleymt því hvar í veröldinni við erum til húsa.

2.

„Þannig að virknin er mjög svipuð og við erum að horfa bara á áframhald á það sem er í gangi …“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Þetta er nú meiri ruglið. Verði viðmælanda blaðamanns á að mismæla sig eða tala rangt mál ber blaðamanni að leiðrétta ummælin fyrir birtingu. Í ofangreindri málsgrein er rangt fall og þar að auki má einfalda orðalagið sem fyrir er ekki alveg nógu skýrt.

Tillaga: Virknin er mjög svipuð og hefur verið …

3.

„Setti nýtt heimsmet í landsliðsmörkum.“

Frétt á visir.is.               

Athugasemd: Nokkur munur er á landsliðsmörkum og landsleikjamörkum. Landslið spila landsleiki. Er ekki skýrara að tala um mörk sem skoruð eru í landsleikjum heldur en í landsliðum?

Eflaust kann sumum að finnast þetta ómerkilegt en munum að íslenskan nær fyllingu í smáatriðunum, fallbeygingunni, tíðunum og öðru sem mörgum finnst smálegt.

Tillaga: Setti nýtt heimsmet landsleikjamörkum. 

3.

búast við frekari skjálftavirkni.“

Frétt á frettabladid.is.                

Athugasemd: Þetta gæti verið spurning, aðeins spurningarmerkið vantar. Sé sögnin að „mega“ flutt um eitt sæti í setningunni verður hún mun skiljanlegri. Orðaröðin skiptir miklu máli, ekki aðeins í íslensku heldur í flestum öðrum tungumálum.

Tillaga: Búast við frekari skjálftavirkni.

4.

„Stólarnir með montréttinn fyrir norðan.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 31.1.20.                

Athugasemd: Fyrirsögnin þessarar körfuboltafréttar vakti athygli mína því ég veit ekkert hvað „montréttur“ er. Vera má að hann sé lögfræðilega eðlis eða þá að hann tengist matreiðslu á einhvern hátt. Sé ekki svo má vera að um leið spilaður er körfuboltaleikur sé líka keppt í einhverju öðru.

Ég las fréttina er varð því miður engu nær um hvað „montréttur“ er. Má vera að þetta sé eitthvert „íþróttamál“ sem aðeins „innmúraðir og innvígðir“ íþróttafréttamenn vita hvað þýðir og okkur lesendum kemur ekki við. Svona álíka og íþróttablaðamenn kalla leikmenn í hópíþróttum „lærisveina“ þjálfarans.

Fleirtöluorðið „stólarnir“ er nokkurs konar gæluorð íþróttafréttamanna yfir leikmenn Tindastóls sem eru býsna góðir í körfubolta og ábyggilega fleiri íþróttum.

Í fréttinni tíundar blaðamaðurinn samviskusamlega þjóðerni leikmanna. Þeir virðast allir vera útlenskir því ekki er getið um neinn Íslending nema eins „sem hrökk í gang þegar leið á leikinn“. Hinir hafa kannski ekki komist í gang og því setið á bekknum.

Eftir stendur að oftar en ekki er eitthvað fullyrt í fyrirsögn fjölmiðla en engin skýring á því finnst í meginmáli fréttar. Þetta bendir til að skilningur blaðamanna á eðli fyrirsagnar fari hnignandi sem og getu þeirra til að semja þær.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Þessi mynd er tekin rétt hjá sjúkrahúsi í Wuhan en þessi eldri maður hrundi niður og lést úti á götu í borginni í gær.“

Myndastexti á mbl.is.                 

Athugasemd: Þetta er afskaplega viðvaningslega skrifaður myndatexti. Ábendingarfornafnið þessi kemur tvisvar fyrir og myndar því nástöðu. Í báðum tilvikunum er notkunin óþörf.

Maðurinn „hrundi niður“. Þannig er ekki talað á íslensku þó á ensku kunni að vera sagt „the man collapsed“. Blaðamaðurinn virðist skilja ensku betur en móðurmálið nema því aðeins að hann hafi fengið aðstoð við þýðinguna.

Sé seinni hluti málsgreinarinnar fenginn Google-Translate til þýðingar er útkoman svona:

… but this elderly man collapsed and died on a street in the city yesterday.

Þýðingarforritið getur ekki þýtt fyrri hluta málsgreinarinnar eðlilega. 

Í íslensku máli er aldrei talað um að fólk „hrynji niður“. Oftast er talað um að það falli niður. Undantekningin er þegar fólk deyr vegna sjúkdóma. Sagt er að fólk hafi hrunið niður í svarta-dauða og í móðuharðindunum. 

Tillaga: Myndin er tekin rétt hjá sjúkrahúsi í Wuhan. Maðurinn hafði fallið niður í gær og látist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband