Langt frá landrisinu brestur jarðskorpan

Aðal­atriðið í mál­inu er þetta landris. Skjálft­arn­ir eru af­leiðing af því. Landrisið er ástæðan fyr­ir því að hlut­ir eru á óvissu­stigi, ekki jarðskjálft­arn­ir. Þeir eru al­geng­ir á þessu svæði.

200202 jarðskjálftar, GrindavíkÞetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, á fundi í Grindavík, samkvæmt frétt á mbl.is. Í örfáum orðum felst mikill sannleikur. Landrisið teygir á jarðskorpunni og þá brestur einhvers staðar, hún rifnar eða heldur áfram að rifna, rétt eins og þegar teygt er á flík.

Afar fáir jarðskjálftar eru við landrisið vestan við Þorbjarnarfell. Vísindamenn hafa mælt þar fjögurra sentímetra hækkun á landi á tíu dögum. Undir er kvika sem skýtur sér inn á milli berglaga, ekki þannig að kvikuhólf sé undir eins og víða annars staðar, til dæmis Heklu eða Öskju.

Hvað er kvikuhólf? Það er staður í jarðskorpunni þar sem bergkvika safnast sama. Sífellt bætist í hólfið en á móti þrýstir hún sér upp á við, inn í sprungur, stundum langar leiðir og stöðvast þar, storknar. Af og til kemst kvikan upp á yfirborð og þá verður eldgos, hraun rennur. Við eldgos rís tæmist kvikuhólfið að öllu leiti eða hluta.

Annað hvort leitar kvikan frekar fljótlega upp á yfirborð og gýs, oftast sem sprungugos af basalt kviku. Eða þá að kvikan treðst inn á milli jarðlaga í efri hluta skorpunnar og myndar innskot, án þess að gos verði, en myndar bólu eða landris á yfirborði.

Þetta segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, í viðtali við visir.is. Og það er einmitt það sem er að gerast norðan við Grindavík. Eiginlegt kvikuhólf er ekkert heldur treður kvikan sér upp á við. Vera má að þetta hafi ótal sinnum gerst á Reykjanesi án þess að neinn hafi tekið eftir því. Núna er tækjabúnaður jarðvísindamanna svo mikill og fullkominn að fátt fer framhjá þeim.

Vísindamenn hjá ÍSOR hafa reiknað út að kvikan við Þorbjarnarfell sé aðeins um 0,001 rúmkílómetri, varla að það dugi í almennilegt eldgos, nái það upp á yfirborðið. Hér er dálítill samanburður:

  1. Gosið í Holuhrauni var stórt gos. Á tveimur fyrstu vikunum kom þar upp 0,5 rúmkílómetri af hrauni.
  2. Hraunið í Heimaeyjargosinu var 0,25 rúmkílómetrar.
  3. Margir hafa komið að Vikrahrauni í Öskjuopi, séð gíganna og jafnvel gert sér grein fyrir stærð hraunsins sem þarna rann í október 1961. Það er 0,1 rúmkílómetri.

Af þessu má ráða að ekki er mikil kvika í jarðskorpunni við Þorbjarnarfell.

200202 Jarðskjálftar þróunOkkur leikmönnum finnst skrýtið að jarðskorpan láti undan einhvers staðar fjarri landrisinu. Þegar litið er á þróunina síðustu mánuði má sjá að gríðarleg skjálftavirki hefur verið austan við Fagradalsfjall. Hún hefur á nokkrum mánuðum færst til vestur og er nú norðan við Grindavík.

Hér er kort sem fengið er frá Loftmyndum, rétt eins og hitt kortið (gott er að smella á kortin, þá stækka þau). 

Á því sést hvernig þróunin hefur verið síðustu sex mánuði eða svo. Fyrst var nokkur skjálftavirkni í Kleifarvatni og þar vestan við. Síðan urðu miklir skjálftar austan við Fagradalsfjall sem færðust smám saman austur fyrir fjallið. Loks verður mikil skjálftahrina norðan við Grindavík.

Hvort skjálftahrinurnar tengist eitthvað veit ég ekki. Ekki hefur orðið landris fyrr en hrinan byrjaði norðan við Grindavík. Þá má spyrja hvort hafi komið fyrr, eggið eða hænan, jarðskjálftarnir eða landrisið.

Eftir þessar vangaveltur stendur sú staðreynd ein eftir að það sem virðist vera „lítilsháttar“ landris veldur gríðarlegum skjálftum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Skemmtilegar vangaveltur.

FORNLEIFUR, 4.2.2020 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband