Alvarleiki ástands, brjálaður náungakærleikur og það sem friggin gerðist
15.1.2020 | 17:22
Orðlof
Fósturjarðartrog
Þetta er hlutur sem notaður er við jarðarfarir, við moldun, þegar skóflunum er kastað. Það er, ílát fyrir moldina (og rekuna).
Nýyrðavefur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sjá hér.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Að því er kemur fram í tilkynningunni varð tilkynnandi fyrst var við stífluna í fyrradag en dregið hafi úr alvarleika ástandsins í árinni í gær.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Þetta er ekki vel skrifuð frétt og hvorki blaðamanninum né útgáfunni til sóma.
Þarna er nástaða, tilkynningunni og tilkynnandi. Hvort tveggja óþarft. Nóg hefði verið að segja:
Fyrst varð vart við stífluna í fyrradag
Svo er það þetta, hrikaleg nafnorðaárátta blaðamannsins:
dregið hafi úr alvarleika ástandsins
Má vera að sumir blaðamenn haldi að stofnanamálið bæti fréttirnar, geri þær virðulegri og jafnvel gáfulegri. Það er ekki svo.
Í þokkabót virðist blaðamaðurinn ekki kunna að fallbeygja nafnorðið á með greini, þolfallið vefst fyrir honum:
Áin, um ána, frá ánni, til árinnar.
Klakastíflan er í ánni.
Við fyrstu sýn kann blaðamaðurinn að hafa ruglað orðinu saman við þágufall orðsins ár, tækið sem notað er til að róa bát. Það fallbeygist svona:
Árin, um árina, frá árinni, til árarinnar.
Fréttin er svo illa skrifuð að halda mætti að markmiðið útgáfunnar sé ekki miðlun frétta heldur dreifa málvillum.
Tillaga: Fyrst varð vart við stífluna í fyrradag en ástandið hafði skánað í gær.
2.
Sveitarstjórn hafnar veiðum við efri hluta Þjórsár.
Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 14.1.2019.
Athugasemd: Venjulega er veitt í Þjórsá ekki við hana enda yrði það líklega erfileikum bundið. Þó getur veiðimaður staðið á við ána, það er á bakkanum og veitt í henni. Um það er ekki verið að ræða í fréttinni.
Í henni segir:
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggst alfarið gegn því að heimiluð verði tilraunaveiði í og við efri hluta Þjórsár.
Með því að rýna í alla fréttina má með velvilja skilja það svo að í og við eigi við efri hluta Þjórsár og hliðarám hennar. Það breytir ekki því að þetta er illa orðað.
Grundvallarreglan er sú að skiljist ekki það sem skrifari telur hnitmiðað orðalag þá verður að breyta og lengja. Til dæmis svona:
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggst alfarið gegn því að heimiluð verði tilraunaveiði í efri hluta Þjórsár og þeim ám sem renna þar í hana.
Held að þetta sé skiljanlegra en það sem blaðamaðurinn skrifar.
Tillaga: Sveitarstjórn hafnar veiðum í efri hluta Þjórsár.
3.
Ferðamennirnir voru því skiljanlega fegin að sjá björgunarsveitarmennina þegar þeir komu þeim til bjargar.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er klaufaleg villa og kemur varla fyrir annars staðar en hjá byrjendum í skrifum. Jú, að vísu líka hjá þeim sem eru fljótfærir og lesa ekki yfir það sem þeir hafa skrifað.
Tillaga: Ferðamennirnir voru því skiljanlega fegnir að sjá björgunarsveitarmennina sem komu þeim til bjargar.
4.
Hafmeyjan er gerð að fyrirmynd ævintýris H.C. Andersen og var byggð af hálfíslenska myndhöggvaranum Edvard Eriksen.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Stundum flögrar að manni að íþróttafréttamenn ættu helst ekki að skrifa neitt. Sumum þeirra veitti ekkert af einkaritara þar sem prófarkalesarar eru týnd stétt.
Ekki er hægt að segja að styttan af hafmeyjunni sé gerð að fyrirmynd einhvers. Með þessu er fullyrt að hún sé fordæmi einhvers, höfð til eftirbreytnis. Eða þá að hún sé höfð sem fyrirmynd öðrum til eftirbreytni. Hvorugt á við.
Það sem íþróttafréttamaðurinn á við er að listamaðurinn sem bjó til listaverkið hafði ævintýrið sem fyrirmynd, það var honum innblástur.
Þar að auki byggja menn sjaldnast listaverk. Menn búa þau til.
Tillaga: Fyrirmynd hafmeyjunnar er ævintýri H.C. Andersens og bjó
5.
Starfsmaðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði varað manninn við því að passa sig á gryfjunni
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Maður nokkur sagði: Nei, ég stal ekki bílnum sem ég stal ekki. Annar segir: Varaðu þig á því að passa þig á gryfjunni.
Svo lesa menn væntanlega textann yfir og sjá ekkert athugunarvert við svona og birta átölulaust á fréttavefnum.
Veit ekki hvort maður eigi að hneykslast á blaðamanninum eða yfirmönnum hans. Hallast helst að því að þarna séu of margir klaufar.
Tillaga: Starfsmaðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði varað manninn við gryfjunni
6.
Brjálaður náungakærleikur í brjáluðu veðri.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Er þetta orðalag við hæfi? Mörg önnur og miklu betri lýsingarorð er skýrari en þessi sem þó eru höfð eftir skólastjóra. Hann ætti að kunna sig betur.
Vissulega kann veðrið að hafa verið brjálað en varla náungakærleikurinn. Hann hefur án efa verið mikill, fagur, skínandi, bjartur, yndislegur Kærleikur getur ekki verið brjálaður. Þetta sýnir betur en margt annað hversu orðfæri fólks er fátæklegt.
Tillaga: Starfsmaðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði varað manninn við gryfjunni
7.
Það friggin gerðist fyrir mig í dag.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Skilur einhver þessa setningu? Nei, varla.
Blaðamaðurinn þýðir eitthvað úr ensku sem hann kann ábyggilega miklu betur en íslensku.
Stjórnendur fjölmiðilsins finnst þetta bara góð frammistaða. Tilgangurinn með fréttinni er enginn. Þetta er allt bara svo viðvaningslega gert og asnalegt.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.