Virkja veðuraðvörun, gómaður með konu undir stýri, og ríkjandi meistari

Orðlof

Skemur og skemmra

Skemur er miðstig atviksorðsins skammt og merkir: í styttri tíma.

Skemmra er miðstig lýsingarorðsins skammur í hvorugkyni og merkir: styttra. 

Það er því annars vegar rétt að segja hún dvaldi skemur en áður og hins vegar það leið skemmra en áður (= það leið skemmri tími en áður) en ekki „það leið skemur en áður“ (enda er ekki hægt að segja „það leið í styttri tíma en áður“). 

Einnig er rétt að segja búvörulögin ganga skemmra en búist var við en ekki „búvörulögin ganga skemur en búist var við.“

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Í nótt virkjaði Veðurstofan appelsínugula veðuraðvörun.

Frétt á Bylgjunni klukkan 16:00, 9.1.2019.             

Athugasemd: Svo óskaplega vinsælt er sögnin að virkja að hún er notuð nær hugsunarlaust. Almannavarnarnefnd er virkjuð, samfélag er virkjað, lögreglan er virkjuð, björgunarsveitir eru virkjaðar, þjóðaröryggisráð er virkjað og svei mér þá ef Jón á neðri hæðinni virkjaði ekki tryggingafélag þegar ekið var á bílinn hans. Mér heyrðist að Jón hafi virkjað konuna sína eldsnemma í morgun. Sjálfur vaknaði ég við óhljóðin og virkjaði syfjaðan skrokkinn til að fara fram úr rúminu. Í vinnunni virkjaði ég tölvuna mína og því næst prentarann. Við útför mun presturinn hafa virkjað söfnuðinn til söngs. Hinn látni var látinn óvirkjaður.

Meira bullið þetta, rétt eins og í tilvitnuðu orðunum.

Tillaga: Veðurstofan gaf út appelsínugula viðvörun.

2.

„Rooney var gómaður með annari konu undir stýrið.“

Frétt dv.is.              

Athugasemd: Þetta er óskiljanleg setning. Samt dálítið spaugileg en það var ábyggilega ekki ætlun blaðamannsins. Þarna á líklega að standa „stýri“, þágufall án greinis, og „skilst þá setningin vitlaust“ eins og einhver sagði.

Þegar viðvaningar skrifa fréttir er erfitt að skilja þær. Óákveðna fornafnið í kvenkyni, þágufalli er skrifað annarri

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Starfsmenn Boeing voru ekki ánægðir með hönnun 737 MAX flugvélanna og börðust gegn því að flugmenn yrðu skilyrtir í sérstaka flughermaþjálfun vegna flugvélanna.“

Frétt visir.is.               

Athugasemd: Vont er að viðvaningar skrifi fréttir, fólk sem hefur ekki nægan orðaforða til að segja eðlilega frá.

Skilyrða er sagnorð sem merkir að binda eitthvað ákveðnu skilyrði. Í Málfarsbankanum segir:

Frekar skyldi segja: skilyrði er að menn komi óþreyttir, síður: „skilyrt er að menn komi óþreyttir“.

Svona orðalag held ég að þekkist ekki. Varla er hægt að fullyrða að 153.000 starfsmenn flugvélaverskmiðjunnar séu „ekki ánægðir með hönnun 727 Max flugvélanna“ og hafi barist gegn flughermaþjálfun flugmanna.

Í fréttinni segir:

Þingmaðurinn Peter DeFazio, sem stýrir samgöngunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir samskiptin sýna að fyrirtækið virðist hafa markvisst komið sér undan eftirlit og gagnrýni á sama tíma og starfsmenn fyrirtækisins hafi verið að hringja viðvörunarbjöllum innanhúss.

Málsgreinin er illa samin. Eru virkilega aðvörunarbjöllur innanhúss ...? Fréttin virðist einnig röng. Á vef BBC sem er greinilega heimildin segir:

US House transportation committee chairman Peter DeFazio - who has been investigating the 737 Max - said the communications "show a co-ordinated effort dating back to the earliest days of the 737 Max programme to conceal critical information from regulators and the public“.

Blaðamaðurinn þýðir rangt og bætir við ummælum sem eiga sér ekki stoð, að minnsta kosti ekki í enska textanum. Þetta er ámælisvert og trúverðugleiki frétta í Vísi bíður hnekki.

Tillaga: Starfsmenn Boeing voru ekki ánægðir með hönnun 737 MAX flugvélanna og börðust gegn því að flugmenn yrðu skyldaðir í flughermaþjálfun vegna flugvélanna.

4.

Mál fyr­ir lítið sam­fé­lag að taka við hundrað manns.“

Frétt á mbl.is.                

Athugasemd: Setningin er ófullgerð. Annað hvort er það mikið mál eða lítið mál að taka við fjölda fólks. Það getur seint verið mál að taka við fólki þó stundum sem mál að taka á móti fólk. Þetta er talmál sem ekki á erindi í ritmál.

Svo má spyrja sig hvort samfélagið taki við fólki eða taki á móti fólki í neyð. Líklega er það fyrrnefnda réttara þegar þannig á við.

Í fréttinni segir:

Heilt byggðarlag var virkjað til þess að þjón­usta um hundrað há­skóla­nema eft­ir að rút­an sem helm­ing­ur þeirra var í valt í gær. 

Sínkt og heilagt er tönglast á sögninni að virkja, sjá hér á undan. Sögnin að virkja er svo vinsæl að hún er ofnotuð. Blaðamenn þurfa að geta skrifað, hafa orðaforða til að byggja frásögn sína á. Ekki þyngja orðfæri sitt með einhvers konar stofnanamállýsku eða löggumáli. Í þeim úir og grúir af vettvöngum (eintöluorð), viðbragðsaðilum, brotaþolum, slysaþolumgjörningsmönnum og öllu þessum orðum sem verða þreytandi við óhóflega endurtekningu og missa þannig smám saman gildi sitt.

Svo er það þetta með rassböguna „viðbragðsaðili“ sem einhver bjó til vegna þess að hann saknaði enska orðasambandsins „rescue team“. 

Þegar ég starfaði sem blaðamaður var þetta orð ekki til og engin þörf var fyrir það frekar en nú. Þá var einfaldlega talað um lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutningsmenn, björgunarsveitir og þá alla sem eiga leið framhjá og bregðast við þegar óhöpp eða slys verða.

Blaðamenn eiga að kalla þá sem við bregðast, sinna slysum og útköllum sínum réttu nöfnum. „Viðbragðsaðili“ er ekki til. Þar að auki eigum við ekki að setja saman orð með endingunni aðili. Er ekki líka hægt að tala um „útkallsaðila“, „upphringiaðila“, „tilhlaupaaðila, „hjálparaðila“ eða „aðstoðaraðila“. Mér finnst þessi orð jafnvitlaus og „viðbragðsaðili“.

Blaðamaðurinn sem skrifar fréttina er vel máli farinn en mætti vanda sig betur. Til dæmis á enginn að skrifa orðrétt upp eftir viðmælanda sínum sé sá ekki vel máli farinn eða hnitmiðaður. Frekar að umorða. Verkefni blaðamanna er ekki að dreifa slæmu máli.

Tillaga: Mikið mál fyr­ir lítið sam­fé­lag að taka við hundrað manns.

5.

„Stór­kost­legur sigur gegn ríkjandi heims- og Ólympíum­eisturum.“

Frétt á frettabladid.is.                 

Athugasemd: Lið sem er heimsmeistari er ekki „ríkjandi heimsmeistari“ vegna þess að heimsmeistari er bara heimsmeistari. Punktur. 

Hvað er sá sem er ekki „ríkjandi heimsmeistari“? „Óheimsmeistari“

Ekkert orð er til mótvægis við „ríkjandi“. Orðið bætir hér engu við.

Þjóðhöfðingjar kunna hins vegar að vera ríkjandi. Þó er engin ástæða til að segja að Elísabet Englandsdrottning sé ríkjandi þjóðhöfði Breta. Hún er það bara. 

Vestanvindar hafa verið ríkjandi hér á landi en norðaustanáttin er skammt undan.

Sumir telja að borgarstjórinn eigi að víkja en ekki er vitað hvort sú skoðun sé ríkjandi.

Ríkjandi merkir yfirleitt þann sem ríkir, stjórnar. Getur einnig þýtt skoðun sem hefur meirihlutafylgi. 

Á málið.is segir meðal annars:

sagnorð: ´stjórna, ráða, sitja að völdum´; […] so. vísast leidd af lo. ríkur og upphafleg merking ´að vera voldugur, ráða´.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki hollt að vera einhæfur í orðavali. Fjölbreytni er góð. Lesendur eiga kröfu á að fréttir séu rétt skrifaðar og vel skrifaðar. Til að mæta þessari kröfu þurfa blaðamenn að geta byggt á drjúgum orðaforða. Hann hafa ekki allir blaðamenn og þeir gera sér ekki grein fyrir því.

Tillaga: Stór­kost­legur sigur gegn dönsku heims- og Ólympíumeisturunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband