Tennur sem hringja bjöllum og manndráp á manni
25.11.2019 | 13:30
Orðlof
Til hliðar
Það er eiginlega enginn maður með mönnum lengur nema að hann hafi stigið til hliðar. Menn er löngu steinhættir að draga sig í hlé, víkja sæti, fara í leyfi, láta staðar numið eða hreinlega bara hætta. Það stíga allir til hliðar. Menn stíga hvorki upp né niður, bara til hliðar. Sem minnir mig óþægilega mikið á dansnámskeiðin sem ég var látinn sækja í skólanum sem barn og gera án afláts hliðar saman hliðar. Það átti illa við mig.
En hversu lengi eru menn til hliðar? Sigmundur Davíð Gunnlaugsson steig á sínum tíma til hliðar sem forsætisráðherra. Hann hefur ekki tekið aftur við því embætti alltént ekki ennþá og þýðir það að hann sé áfram til hliðar enda þótt hann sitji sem fyrr á Alþingi og hafi hlotið til þess brautargengi og nýtt umboð í síðustu kosningum?
Morgunblaðið, Pistill, Orri Páll Ormarsson, 3.11.2019, blaðsíða 2.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Það að skara fram úr á heimsvísu krefst mikils meira en þess að hafa framúrskarandi hæfileika
Bakvörður á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 22.11.2019.
Athugasemd: Það að standa upp frá skrifborðinu. Það að horfa út um gluggann. Það að borða matinn sinn. Þetta er nú meiri stílleysan, flatneskja, líflaust mál.
Hverjum datt í hug að byrja setningu á það að? Ótrúlega margir blaðamenn gera þetta og það er ekki til eftirbreytni. Það er svokallað aukafrumlag sem mörgum er meinilla við enda hefur það enga sjálfstæða merkingu og þess vegna kallað leppur. Sjá hér.
Tillaga: Meira þarf til en framúrskarandi hæfileika til að skara fram úr á heimsvísu
2.
Einn örfárra opinberlegra samkynhneigðra aflraunamanna á Íslandi.
Frétt í íþróttafréttum í Ríkissjónvarpinu 24.11.2019 kl. 19:30.
Athugasemd: Þetta er nú meiri flækjan. Líklega er hún samin með það í huga að ekki eigi að einfalda hlutina þegar auðveldlega megi flækja þá.
Betra er hins vegar að staldra aðeins við, hugsa sig um og skrifa svo. Jafnvel leita aðstoðar. Er ekki annars málfarsráðunautur starfandi hjá Ríkisútvarpinu?
Tillaga: Einn örfárra aflraunamanna á Íslandi sem eru opinberlega samkynhneigðir.
3.
Kennslanefnd norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos tókst loks nú fyrir helgina að fá úr því skorið hver kvenmannslík í Ecco-skóm númer 39, sem fannst í sjónum við Kalvøya í Lillesand 29. janúar 2008, hefði verið í lifanda lífi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Fréttin er hörmulega illa skrifuð og ótrúlegt að hún hafi verið birt. Ofangreind tilvitnun er sýnu verst og er fengin af forsíðu mbl.is en hún er ekki í sjálfri fréttinni. Málgreinin er þvæla.
Næst versta málsgreinin er þessi:
Kennslanefnd Kripos hafði ekki úr miklu að moða eftir að illa farið kvenmannslík fannst í sjónum við Kvaløya í Lillesand í Suður-Noregi í janúar 2008, konan hafði verið 166 sentimetra há, skolhærð og klædd Ecco-skóm númer 39 sem var vegna ástands líksins eina hæfa myndefnið þegar lögregla leitaði til almennings í febrúar 2008. Slóðin kólnaði hratt en á föstudaginn, tæpum tólf árum eftir fundinn, varð loks ljóst hver konan í Ecco-skónum var.
Málsgreinin er þvæla. Halda mætti að hún hafi verið þýdd með Google-Translate svo slæmt er málfarið. Málsgreinin er líka alltof löng og þá er punktur til hjálpræðis.
Miklar málalengingar eru í fréttinni og skrýtið orðfæri.
Eftirfarandi málsgrein er slæm og eiginlega ósæmileg:
Tæpum tólf árum eftir að konan fannst á floti við Kalvøya hringdu tennur hennar bjöllum í gagnagrunni sænskrar tannlæknastofu.
Tennur sem hringja bjöllum ... Er blaðamanninum sjálfrátt?
Fréttin er afskaplega rýr, ekkert er minnst á hvernig kona hafi látist en tönglast á Ecco-skóm.
Tillaga: Kennslanefnd norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos tókst loks að fá upplýst hver konan er sem fannst látin í sjónum við Lillesand fyrir tólf árum.
4.
Heimamenn áttu eftir að næla í jafntefli með marki seint í leiknum en ungu leikmenn United gerðu eitthvað sem ekki hefur gerst í efstu deild á Englandi í rúma tvo áratugi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Leikmenn gerðu ekki eitthvað. Miklu frekar það eða nokkuð sem ekki hefur gerst lengi.
Málsgreinin er of löng og sundurlaus. Punktur hefði verið við hæfi til að skilja á milli og til að leggja áherslu á hvort tveggja, jafnteflið og afrek ungu leikmannanna.
Í gegnum skrifin skín aðdáun blaðamannsins á Manchester liðinu. Ekkert er sagt hversu vel Sheffield stendur sig, engar álíka upphafnar fréttir eru um liðið í Mogganum. Er það samt í sjötta sæti deildarinnar en stjörnurnar í Manchester eru í því níunda. Þetta kallast hlutdrægni sem ekki myndi líðast annars staðar en í íþróttafréttum.
Tillaga: Heimamenn nældu í jafntefli með marki seint í leiknum. Ungu leikmenn United gerðu nokkuð sem ekki hefur gerst í efstu deild á Englandi í rúma tvo áratugi.
5.
Tvítugum karlmanni, sem grunaður er um tilraun til manndráps á kærustu sinni
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Nafnorðavæðingin hefur þær afleiðingar að nú er skrifað á þennan veg. Morðtilraun er tilraun til manndráps á konunni. Má vera að sumum þyki þetta mildara orðalag en að reyna að drepa eða myrða annan. Flóknara orðalag virðist núorðið vinsælla en einfalt. Að minnsta kosti hjá þeim sem skrif, ekki lesendum.
Tillaga: Tvítugum karlmanni, sem grunaður er um að reyna að myrða kærustu sína
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður. Hvað finnst þér þá um auglýsinguna hjá Brimborg? Öruggur staður að vera á. Þetta er að vísu alveg rétt, Brimborg er uppi á Ártúnshöfðanum, á stað sem ætti að vera öruggur, hvort sem flóð verður í sjónum eða Elliðaánum. En ætli það séu flóð sem stjórnendurnir hafa í huga? Fyrir hverju er maður öruggur þarna? Að ekki sé verið að svindla?
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 25.11.2019 kl. 15:09
Sæl,
Þetta slagorð hefur lengi verið notað hjá þeim og mér finnst það frekar innantómt. Segir ekki neitt. Síbyljan er nú þannig að því oftar sem bullinu er haldið fram því meiri líkur eru til þess að maður hætti að taka eftir því. Ég finn hins vegar ekkert öryggi í þessu fyrirtæki.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.11.2019 kl. 20:54
Slagorði Brimborgar er væntanlega ætlað að vekja þau hugrenningatengsl að bifreiðar frá þeim séu öruggar og jafnvel öruggari en aðrar bifreiðar. Með því er Brimborg að nota umboð sitt fyrir Volvo sem er þekkt fyrir áherslur á öryggi, til að skapa sér jákvæða ímynd, án tillits til þess að sama fyrirtæki er með umboð fyrir a.m.k. fjóra aðra bílaframleiðendur.
Sigurður, ég hnaut um þessa setningu í pistlinum:
"Þetta kallast hlutdrægni sem ekki myndi líðast annars staðar en í íþróttafréttum."
Ertu alveg viss?
Sannarlega hafa íþróttafréttamenn ákveðið svigrúm til hlutdrægni, til dæmis með eigin landsliði eða sínu uppáhaldsliði, en þeir fara líka aldrei leynt með það og hafa sjálfir húmor fyrir því. Verra er þegar almennir fréttamenn sýna af sér hlutdrægni en þykjast vera hlutlausir og gangast ekki við því að vera í raun málpípur, sem er því miður daglegt brauð hér á landi.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.11.2019 kl. 21:18
Þakka innlitið, Guðmundur.
Hlutdrægni er til í almennum fréttum fjölmiðla og það er arfaslæmt. Hvergi í fjölmiðlum birtist hún eins skýrt og í íþróttafréttum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 25.11.2019 kl. 21:35
Munurinn er kannski sá að íþróttafréttamenn leyna því sjaldnast hvert sé þeirra uppáhaldslið. Þannig gangast þeir jafnan við því að vera ekki fullkomlega hlutlausir, með bros á vör enda allt til gamans gert. Öðru máli gegnir um almenna fréttamennsku þar sem fjallað er um alvarleg málefni fyrir land og þjóð. Stjórnmál eiga ekki að vera eins og fótbolti þar sem það eina sem skiptir máli er að vinna hitt liðið, heldur eru þau samvinnuverkefni.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.11.2019 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.