Framdi morð á henni, ekkert meik or breik og sóknarleikur eksekjútaður
9.11.2019 | 13:35
Orðlof
Staðarfall
Í póstáritun er mælt með því að rita bæði heimilisfang og heiti póststöðvar í þágufalli (svokölluðu staðarfalli):
Jón Jónsson
Álfhólsvegi 100
200 Kópavogi
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Karlmaður sem grunaður er um morð á breska bakpokaferðalangnum Grace Millane skildi lík Millane eftir í ferðatösku í íbúð sinni, eftir að hann framdi morðið á henni, og fór á Tinder-stefnumót.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er bókstaflega þvæla. Í sömu málsgrein er tvívegis talað um morð. Nafn hinnar myrtu kemur tvívegis fram. Loks segir að maðurinn hafi framið morð á henni. Blaðamaðurinn gat ekki sagt að maðurinn hafi myrt konuna. Hvernig er hægt að fremja morð á einhverjum?
Svona skrif eru ekki neytendum (lesendum) bjóðandi.
Tillaga: Karlmaður sem grunaður er um morð á breska bakpokaferðalangnum Grace Millane skildi lík hennar eftir í ferðatösku í íbúð sinni og fór á Tinder-stefnumót.
2.
Þar kom meðal annars fram að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Oftast er það orða svo að sendiherrar eru í löndum eða hjá ríkjum. Berglind Ásgeirsdóttir er til dæmis sendiherra Íslands í Frakklandi, og Benedikt Jónsson er sendiherra í Danmörku.
Þetta er þó alls ekki algilt heldur er orðalagið ýmis gagnvart, hjá eða í. Jafnvel á vef stjórnarráðinu er ekkert ráðandi orðalag. Þetta geta lesendur fundið út með því að gúgla sendiherra í og sendiherra gagnvart. Í fjölmiðlum er þetta ýmist eða.
Gagnvart er forsetning og var áður gagnvert. Merkir andspænis eða á móti, sjá nánar fróðlegan pistil í Málfarsbankanum.
Í þessu ljósi finnst mér eðlilegra að tala um sendiherra í eða hjá öðru ríki.
Tillaga: Þar kom meðal annars fram að Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu
3.
Eitt nýtt flugfélag með tvær þotur og sex áfangastaði er náttúrulega ekki make or brake fyrir íslenska ferðaþjónustu en
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað skyldi nú þetta þýða á íslensku? Blaðamaðurinn hugsar ekkert til okkar sem kunnum lítið í frönsku en dembir þessu á lesendur án samúðar.
Að vísu er þetta haft eftir forstjóra Samtaka ferðaþjónustunnar sem er sigldur maður og klár og sýnir það einna helst með því að tala útlensku í bland við íslensku. Slíkt gerir rýra menn digra.
Hugsanlega er blaðamaðurinn að gera at í forstjóra SAF með því að birta frönskuna hans.
Grínlaust, höldum okkur við útlenskuna. Íslenskan er hvort eð er deyjandi tungumál.
Tillaga: Engin tilaga.
4.
Mikil vosbúð til fjalla.
Frétt kl.12:20 á Ríkisútvarpinu 9.11.2019.
Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir vos köld bleyta. Vosbúð er haft um þann sem er blautur og kaldur til dæmis eftir hrakninga í vondu veðri (málið.is.), til dæmis hann lenti í mikilli vosbúð. Býr við vos.
Varla er hægt að lýsa veðri til fjalla sem vosbúð. Orðið gengur ekki í samhenginu nema því aðeins að verið sé að lýsa ástandi fólks.
Líklega á fréttamaðurinn eða veðurfræðingurinn við að kalt og rigning sé til fjalla, jafnvel slydduhríð, og það er allt annað.
Á ruv.is er fjallað um slæmar veðurhorfur og þar segir:
Veðrið gengur síðast niður suðvestanlands en síðar í öðrum landshlutum.
Setningin er óskiljanleg.
Tillaga: Blautt og kalt til fjalla.
5.
hvernig við vorum að eksekjúta sóknarleikinn.
Frétt kl.12:20 á Ríkisútvarpinu 9.11.2019.
Athugasemd: Rætt var við íþróttamann sem talaði svona um sóknarleikinn. Enskan er ungu fólki orðin svo töm að það getur ekki komið hugsun sinni til skila á íslensku. Er það ekki hin mesta sorg sem hugsast getur?
Þórarinn Eldjárn samdi Íslenskuljóðið og í því er þetta erindi:
Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.
Vera má að á íslensku séu hægt að orða allt sem hugsast getur. Hins vegar er tungumálið dautt ef unga fólkið lærir það ekki og kann ekki að beita því.
Tillaga: Engin tillaga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.