Klettur sem gróf sig og bananahýði fyrir lærisveina Klopps
4.11.2019 | 09:35
Orðlof
Hundruð
Baráttan við hundruðir mun halda áfram til efsta dags. Þetta er eins og líkamsrækt, ekki dugir að láta deigan síga.
Hundrað (nafnorðið) er hvorugkynsorð þótt til séu kvenkyns þúsundir. Fleirtalan verður því hundruð, ekkert ir, og eignarfall hennar (til) hundraða, ekki hundruða.
Málið, Morgunblaðið, 4.11.2019, blaðsíða 21.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Erfitt er að koma því til skila hversu erfitt er að spila svona leiki.
Frétt á blaðsíðu 32 í Morgunblaðinu 1.11.2019.
Athugasemd: Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa komið auga á nástöðuna. Blaðamenn verða að skilja að endurtekning sama orðs gengur ekki, slíkt er skaði fyrir frásögnina og truflar lesandann. Listin er í því fólgin að skrifa framhjá eins og það er kallað. Við það batnar stíllinn.
Tillaga: Ekki er hægðarleikur að koma því til skila hversu erfitt er að spila svona leiki.
2.
Um 65 metra hár klettur gróf sig frá berginu og varð frístanandi en á milli hans og bergsins var gjá sem breikkaði og var orðin á þriðja metra þegar bergfyllan hrundi fram.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þetta er skrýtin lýsing. Fæstir hafa heyrt um eða séð klett sem grefur sig frá einhverju. Reyndar gleymir blaðamaðurinn að nefna sprungu sem myndaðist af eðlilegum orskökum
Svo varð kletturinn frístanandi (ekki frístandandi) sem blaðamaður veit ekkert um vegna þess að engar athuganir voru gerðar á sprungunni, hvort hún hafi verið svo djúp að þetta hafi verið reyndin.
Í fréttinni segir að eftir að kletturinn hrundið hafi orðið til bingur í fjörunni, jarðvegsbingur segir líka. Hvernig getur það gerst að eftir skriðu verði til bingur?
Fréttin er meira samin af vilja en getu. Margt er ofsagt og enn fleira vantar. Blaðamaðurinn reynir að giska á það sem gerist í stað þess að hringja í jarðfræðing og spyrja hann nánar út í atburðarásina. Fyrir vikið verður fréttin ótrúverðug og hallærisleg.
Tillaga: Engin tillaga
3.
Sky Sports greinir nú frá því að Arsenal neitar því alfarið að Sanllehi og Mourinho hafi mæst og að þeir hafi ekki talað saman í nokkur ár.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nokkur munur er á því að mætast og hittast. Á förnum vegi mætist fólk. Fyrir kemur að einhverjir hitta óvart kunningja, vini eða ættingja og staldra þá stundum við og spjalla.
Sagnirnar tvær hafa geta svipaða merkingu en í þessu tilviki er ekki hægt að tala um að Sanllehi sem er starfsmaður enska fótboltafélagsins Arsenal, og Mourinho, þjálfarinn atvinnulausi, hafi mæst. Réttara er að segja að þeir hafi hist eða fundað.
Sögnin að neita er í tilvitnuninni í framsöguhætti en á að vera í viðtengingarhætti eins og segir í tillögunni.
Málsgreinin er frekar löng. Punktur er sjaldan ofnotaður í rituðu máli en getur verið gott stílbragð. Þegar samtengingin og kemur fyrir tvisvar eða oftar er oft skynsamlegt að setja punkt
Hitt er svo annað mál að það er ekkert víst við stuðningsmenn Arsenal viljum fá Mourinho þó svo að núverandi þjálfari virðist koma litlu í verk, enn sem komið er.
Tillaga: Sky Sports greinir nú frá því að Arsenal neiti því alfarið að Sanllehi ogho Mourinho hafi fundað. Þeir hafi ekki talað saman í nokkur ár.
4.
Fimm mínútum fyrir leikslok virtist þessi leikur ætla að vera bananahýði fyrir lærisveina Klopp en á lokamínútunum tókst þeim að nýta sér þreytta fætur Aston Villa og skapa tvö mörk.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Líklega mætti hæla höfundinum fyrir líkingamál væri þetta ekki frétt. Í fréttum er best að tala hreint mál, sleppa líkingum, orðatiltækjum og málsháttum eftir því sem kostur er. Segja fréttirnar á einföldu, íslensku máli.
Íþróttafréttir á að skrifa eins og aðrar fréttir.
Tillaga: Fimm mínútum fyrir leikslok virtust sem leikurinn myndi enda með jafntefli. Liverpool náði þá að skora tvö mörg enda leikmenn Aston Villa orðnir þreyttir.
5.
Þúsundir íslenskra barna með offitu.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Er ekki átt við að börnin séu of þung? Hins vegar er alkunna að þúsundir íslenskra barna eru með síma. Varla er hægt að orða það þannig að fita sé það sem fólk er með rétt eins og sími. Offita er afleiðing óhóflegrar neyslu og því eðlilegra að tala um þyngd í þessu samandi.
Tillaga: Þúsundir íslenskra barna eru of þung.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.