Meginstraumsmiðlar, þungt hjarta og óráð að gera ráð fyrir
28.9.2019 | 19:06
Orðlof
Orðfátæktargildra
Og það getur reynst erfitt að bjarga börnum og unglingum úr orðafátæktargildru skilaboðaskjóða símamiðlanna þegar þau hætta að lesa lengri texta en þá sem rúmast á skjánum eða hætta að tala í heyranda hljóði við sér eldra fólk og jafnaldra.
Segja má að það sé jaðarskatturinn sem unga fólkið greiðir fyrir afþreyinguna í símanum: orðaforðinn skreppur saman miðað við það sem hann gæti verið með þroskandi málnotkun í ræðu og riti.
Gísli Sigurðsson, Tungutak á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 28.9.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Er konan á gönguleiðinni upp Þverfellshorn, sem er í um 400 metra hæð og er ökklabrotin.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er furðuleg frétt þó stutt sé. Látum nú vera staðreyndavilluna að Þverfellshorn sé sagt í 400 m hæð (er meira en 300 m hærra). Látum líka vera að fréttin byrji á sagnorði og og er því rétt eins og spurning. Verra er tuðið, nástaðan. Nafnorðið kona kemur fram í öllum fjórum málsgreinum fréttarinnar.
Í fréttinni segir:
Fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir upp til konunnar um klukkan átta í morgun
Enginn veit hverjir viðbragðsaðilar eru. Samkvæmt orðanna hljóðan eru það þeir sem bregðast við. Þeir geta því verið samferðamenn, aðrir göngumenn, fuglar, refir og jafnvel björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, löggan, slökkviliðið, geislavarnir, hafnarstarfsmenn, flugvallarstarfsmenn, hásetar á fraktskipum, þú og kannski ég.
Hvaðan kemur þetta orð, viðbragðsaðili. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið response team.
Á vef Wikipediu segir:
An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident
Í Málfarsbankanum segir:
Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: tveir aðilar voru í bílnum. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: rekstraraðili verslunarinnar.
Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.
T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en ábyrgðaraðili, dreifingaraðili, eignaraðili, hönnunaraðili, innheimtuaðili, söluaðili, útgáfuaðili.
Undir þetta er tekið hér. Aðili er frekar óljóst og kjánalegt stofnanaorð. Viðbragðsaðili er ekki samheiti yfir hóp sem kemur á slysstað.
Betur fer á því að segja frá starfsheitum þeirra í stað þess að nota hið loðna, óskýra orð sem sveipað er dularhjúpi leyndar.
Tillaga: Hún [konan] er öklabrotin á gönguleiðinni upp á Þverfellshorn, sem er í um 780 metra hæð.
2.
Hann segir demókrata vera í upplýsingastríði gegn forsetanum og að meginstraumsmiðlar vestanhafs hafi tekið þátt í því stríði með þeim.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Nokkrum sinnum hefur orðið meginstraumsmiðlar komið fyrir í fréttum og þá einkum í fleirtölu.
Greinilegt er að orðið er þýðing á enska fyrirbrigðinu mainstream media. Um það segir í orðabók:
The mainstream media refers to conventional newspapers, television and other news sources that most people know about and regard as reliable.
Ég er ekki alveg viss um að íslenska þýðingin sé góð. Straumur er vissulega fallegt orð sem hefur margvíslega merkingu. Er haft um rennsli vatns, mannfjölda á hreyfingu, rafmagn, sjávarföll og fleira.
Meginstraumur er ekki heldur slæmt orð. Stundum er hægt að sjá hvernig fljót rennur, meginstraumurinn getur verið í henni miðri eða uppi við annan bakkann og svo framvegis.
Orðið meginstraumsmiðill fær mig til að hugsa um mann sem sér meira á meginstraumsmiðilsfundi en aðrir meginstraumsmiðilsfundargestir
Íslensku orðin straumur og streyma eru skyld svipuðum orðum í tungumálum nágrannalandanna.
Miðað við ensku skilgreininguna finnst mér betur fara á því að mainstream media séu nefndir helstu fjölmiðlar.
Tillaga: Hann segir demókrata vera í upplýsingastríði gegn forsetanum og helstu fjölmiðlar vestanhafs hafi tekið þátt í því með þeim.
3.
62% svarenda sem þátt tóku í skoðunarkönnun
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreint upphaf fréttar er óvanur. Hann veit ekki að betur fer á því að skrifa tölur í bókstöfum eða umorða. Hvergi tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, í flestum tungumálum er varað við því.
Af hverju? Vegna þess að þeir eru allt annars eðlis en bókstafir og oftast til annarra hluta nytsamlegri. Á eftir punkti kemur stór upphafsstafur, það er reglan hvort sem skrifað er á íslensku, ensku, dönsku eða þýsku. Tölustafir á eftir punkti eru alltaf eins og aðskotahlutir, gefa ekki það sama til kynna og bókstafir.
Á vefnum Grammar Monster segir:
It is considered untidy to start sentences with figures. You should either reword your sentence or write the number in full.
Svo virðist sem það sé algengara á Mogganum og vefmiðli hans að blaðamenn skrifi tölustafi í upphafi setninga.
Tillaga: Af þeim sem tóku þátt í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskólans eru 62% svarenda
4.
Það er með afar þungt hjarta sem bandaríska júdósambandið tilkynnir óvænt andlát landsliðsmannsins, Jacks Hattons.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Mennskt hjarta vegur um það bil 300 grömm. Auðvitað veit ég ekki hvað hjarta mitt vegur. Í fyllingu tímans munu einhverjir rífa það út úr lífslausum skrokknum og henda því á vigtina. Væntanlega hrópar einhver aldeilis forviða: Þessi náungi hlýtur að hafa verið sorgbitinn alla æfi, svo þungt er hjarta hans.
Þetta er líklega ekkert fyndið. Enginn tjáir sorg á íslensku með því að tala um þungt hjarta. Þyngd segir ekkert um sorg.
Í enskri orðabók segir um Heavy heart:
a great deal of sadness:
- It is with a heavy heart that I bring you this bad news.
- I announced my decision to leave with a heavy heart.
Í málfarsbankanum segir:
Rétt er með farið að segja liggja eitthvað þungt á hjarta (hafa áhyggjur). Ekki tíðkast hins vegar að tala um að hafa þungt hjarta.
Þetta er á við um áhyggjur, ekki sorg. Oftast er betra að tala hreint út, sleppa vafasömu orðalagi og öllum öðru sem valdið getur misskilningi. Til að geta gert það þurfa blaðamenn að búa yfir nokkuð digrum orðaforða og þekkingu til að nota hann.
Tillaga: Með sorg í hjarta tilkynnir bandaríska júdósambandið óvænt andlát landsliðsmannsins, Jacks Hattons.
5.
Það væri óráð að gera ráð fyrir að óskarsverðlaunastyttum fyrir besta leik muni nokkurn tímann rigna yfir Rambo-myndirnar
Dálkur um kvikmyndir á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 28.9.2019.
Athugasemd: Sá sem þetta skrifar er blaðamaður á Mogganum og mjög vel ritfær en öllum getur nú yfirsést.
Óráð merkir hér slæmt ráð en á alls ekki við í þessu samhengi. Hér á betur við að nota lýsingarorðið ólíklegt.
Með hjálparsögninni muni (rigna) er innifalin framtíð og því óþarfi að bæta við nokkurn tímann. Orðasambandið muni rigna er hér í viðtengingarhætti nútíðar, fullyrðing sem á við framtíð.
Tillaga: Ólíklegt er að óskarsverðlaunastyttum fyrir besta leik muni rigna yfir Rambo-myndirnar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:21 | Facebook
Athugasemdir
Er hugsanlegt að konan sem ökklabrotnaði á gönguleiðinni upp á Þverfellshorn hafi verið komin í um 400 metra hæð þegar það gerðist?
ls (IP-tala skráð) 28.9.2019 kl. 22:36
Þetta flögraði svo sem að mér en engu að síður en vísað til Þverfellshorns.
Fréttir eiga auðvitað að vera skýrt skrifaðar svo lesandinn þurfi ekki að giska á staðreyndir máls.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.9.2019 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.