Haga sér, samanstanda og íbúahús

Orðlof

Er … að

„Fjöldi barna er að alast upp á tveimur heimilum.“ Nei, „Fjöldi barna elst upp“ o.s.frv. Ekkert „er ... að“. 

Það á við um e-ð sem á sér stað á líðandi stund: Ég er að borða hafragrautinn minn. Ég er að flýta mér á fund. Ég er að verða vitlaus. 

Hver segði: „Ég er að búa á Stöðvarfirði“? „Ég er að trúa á guð“?

Málið, blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 23. september 2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Vallarþulurinn bað menn um að haga sér.“

Frétt í íþróttaþætti Sjónvarps Ríkisútvarpsins 23.9.2019, kl.19:30         

Athugasemd: Hér er glöggt dæmi um „enska íslensku“. Íþróttafréttamaðurinn heldur að enska orðið „behave“ hafi sömu merkingu íslenska sögnin að hegða

Í ensku orðabókinni minni segir:

[often in imperative] (also behave oneself) conduct oneself in accordance with the accepted norms of a society or group: Just behave, Tom, he said, they were expected to behave themselves.

Á ensku á orðið „behave“ ekki við íslenska sögnina að hegða sér nema því aðeins að eitthvert lýsingarorð fylgi sem lýsir hátterninu; hegða sér vel eða illa.

TillagaVallarþulurinn bað menn um að haga sér vel.

2.

„Dekk sprakk, hann réði ekki við bílinn á þessum hraða og því fór sem fór.“

Athugasemdir um málfar í fjölmiðlum, Sigurður Sigurðarson.         

Athugasemd: Nú fór í verra. Ég las fróðlegan pistil Eiríks Rögnvaldssonar á vefsíðu hans. Eiríkur var prófessor í íslenskri málfræði, er afburða fróður þykir nokkuð frjálslyndur í málnotkun. Í pistlinum ræðir hann um sögnina að ráða og segir um sögnina að ráða í þátíð:

Sjálfur hef ég lært að það „eigi“ að nota réð en ekki réði og geri það stundum í rituðu máli. 

Það er þó í algerri andstöðu við málkennd mína – hann réð þessu ekki og ég réð ekki við þetta orkar á mig sem rangt mál. 

Þetta er eitt af þeim dæmum þar sem málstaðallinn er í ósamræmi við málkennd og málnotkun meginþorra málnotenda. Mér finnst fráleitt að kalla þátíðina réði ranga.

Þetta er nú huggun harmi gegn. Ég fletti upp „réði“ í pistlum mínum og fann tuttugu og sjö dæmi um orðið. Þar af einu sinni í athugasemdum um málfar í fjölmiðlum. Þetta skiptir svo sem ekki miklu máli en bendir til að málkennd mín og málnotkun sé svipuð og Rögnvalds. Ekki leiðum að líkjast. Skrýtið samt hvernig málkenndin ræður orðalagi.

TillagaEngin tillaga.

3.

„Craig Mazin þakkar fyrir verðlaunin sem hann hlaut fyrir skrif þáttanna Chernobyl.“

Myndatexti á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 24.9.2019.         

Athugasemd: Þetta er frekar illa samið. Þættirnir um Chernobyl skrifuðu ekkert. Maðurinn sem nefndur er skrifaði handritið að þáttunum. Þó svo að hér hafi verið prédikað að skrifa stutt mál, nota punkta sem oftast, verður að segjast eins og þegar farið er eftir þessu geta skrifin stundum orðið eins og snubbótt stofnanamál.

Tillaga: Craig Mazin þakkar fyrir verðlaunin sem hann hlaut fyrir handrit að þáttunum um Chernobyl.

4.

Það var fagnað verulega fyrir austan eftir sigurinn og fóru flugeldar til að mynda á loft.“

Frétt á dv.is.          

Athugasemd: Þvílíkt hnoð sem þetta er, algjörlega hugsunarlaust og ekki lesendum bjóðandi. „Það var fagnað verulega …“ Hvað þýðir þetta?

„… og fóru flugeldar til að mynda á loft.“ Var þeim skotið á loft eða „fóru þeir á loft“ af sjálfsdáðum? Hvert er flugeldum skotið ef ekki upp í loft? 

„Til að mynda“ er orðalag sem hefur þarna enga merkingu.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Fasteignagjöldin samanstanda af fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi og sorpgjöldum.“

Skýring á frétt um fasteignagjöld á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 25.9.2019.         

Athugasemd: Sagnorðið „samanstanda“ er oft misnotað. Mörgum þykir það flottara en sögnina að vera. Til viðbótar er orðið frekar „stofnanalegt“ og þar af leiðandi virðist það virðulegra en almúgasögninvera.

Má vera að þetta sé misskilningur en samt fer betur á því í ofangreindri málsgrein að sleppa orðinu og hafa þetta svipað og í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Í fasteignagjöldum eru af fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld.

6.

„Bæjarstjórinn í Courmayer segir að íbúahús á svæðinu stafi ekki sérstök hætta en að verið væri að rýma fjallakofa á svæðinu í varúðarskyni.“

Frétt á visir.is.         

Athugasemd: Málsgreinin er ófullkomin. „Íbúahús“ hef ég aldrei séð áður, er líklega ekki til, en gæti allt eins verið því í mörgum húsum býr fólk. Almennt er þó talað um íbúðir, íbúðahús og eða einfaldlega hús. 

Í fréttinni gleymist að fallbeygja orðið „íbúahús“ (ætti að vera íbúðahús). Sögnin að stafa stjórnar þágufalli í þessu tilviki.

Vel má vera að aðeins íbúðahús séu nálægt fjallinu sem um er rætt í fréttinni. Gæti það verið að séu fleiri hús þarna, sem ekki væri óeðlilegt, að þeim stafaði engin hætta á skriðuföllum.

Velta má fyrir sér muninum á „sérstök hætta“ og hætta. Skýringu vantar á því hver hættan er, það er ekki ljóst af efni fréttarinnar.

Þetta er léleg frétt og flausturslega samin og lítið á henni að græða. Henni fylgir engin mynd af staðháttum og ekki heldur kort. Fréttin virðist bara vera uppfylling, innihaldsrýr texti.

Tillaga: Engin tillaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband