Snertingar má, undir kringumstæðum og verða fyrir tjóni af völdum ...
15.8.2019 | 10:12
Orðlof
Sitja, sætur
Af geta, sem forðum merkti að fá, kemur lýsingarorðið gætur, svo sem í fágætur, ágætur og torgætur.
Af bera höfum við bær, svo sem í léttbær og þungbær, af sofa svæfur; maður er morgunsvæfur eða kvöldsvæfur.
Af sitja kemur lýsingarorðið sætur. Setið er nú meðan sætt er," sagði einn drauganna á Fróðá, en annar mælti: Verið er nú meðan vært er."
Þjóðrekur þaðan kvað:
Illa þykir á Íslandi ært
Samt er ennþá á vaðinu fært
Og við gefumst ekki upp,
þó að gutli um hupp;
því skal vera, ef okkur er vært
Íslenskt mál, Gísli Jónsson, Morgunblaðið 11.9.1982.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Ég var að segja honum að þetta væri fótboltaleikur og þar má snertingar.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Ofangreind tilvitnun er höfð eftir þjálfara sem er óánægður með dómgæslu í fótboltaleik. Sé rétt eftir honum haft á blaðamaðurinn að lagfæra orðalagið því það er skemmt. Niðurlag málsgreinarinnar segir ekki fulla hugsun og er beinlínis rangt mál.
Snertingar er nafnorð í fleirtölu. Ekki er hægt að segja að það megi snertingar. Rétt er að leikmenn mega snerta hverjir aðra, snertingar eru ekki bannaðar. Hér er sögnin að mega hjálparsögn með sögninni að snerta.
Ábyrgð blaðamannsins er að koma óskemmdri frétt til lesenda, ekki dreifa málvillum eða vitlausu málfari. Skiptir engu hversu vitlaust viðmælandinn talar, blaðamaðurinn á að lagfæra orðalagið og koma hugsuninni til skila. Í stundaræsingi verður mörgum fótaskortur á tungunni, eins og sagt er.
Tillaga: Ég var að segja honum að þetta væri fótboltaleikur og snertingar eru leyfilegar.
2.
Þá smelltu þeir einnig mynd af henni við vitann í dag, þar sem hún kom í för með móður sinni.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Stundum er eins og að blaðamenn reyni hvað þeir geta að teygja lopann, reyna að koma eins mörgum orðum fyrir og þeir geta. Aðrir kunna lítið til verka, eru lélegir sögumenn.
Alltof allgengt er að byrja setningar á þá sem er eins og samtenging en komin úr öllum tengslum við hugsunina. Auðvelt er haga orðunum á annan veg. Annars er þetta illskiljanleg málsgrein. Röðunin er kjánaleg: fyrst smella þeir mynd af henni og svo kemur hún með móðurinni.
Stúlkan kom með móður sinni, þær komu saman. Hún var þar af leiðandi ekki í för með móðurinni. Þetta liggur alveg ljóst fyrir, er lítilræði sem blaðmaðurinn klúðrar.
Svo segir í fréttinni:
Á þeim tímapunkti voru starfsmenn vitans þó ekki meðvitaðir um að þar færi heimsfræg söngkona.
Hérna kemur þessi bannsetti tímapunktur sem gerir ekkert gagn. Starfsmennirnir voru ekki meðvitaðir. Sem sagt, þeir vissu ekki
Blaðamaðurinn hefði hæglega getað orðað þetta svo:
Þá vissu starfsmenn vitans ekki að þetta væri heimsfræg söngkona.
Fréttin er öðrum þræði viðtal við þann sem er sagður vitavörður. Engu að síður er þarna talað um starfsmenn vitans. Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki gæta samræmis eða að minnsta kosti segja frá því hversu margir vinna við ferðaþjónustu í örvitanum á Suðurflös á Akranesi.
Tillaga: Hún kom með móður sinni í vitann og vitaverðirnir notuðu tækifærið og tóku mynd af henni.
3.
Það er undir þessum kringumstæðum
Frétt á blaðsíðu 18 í Morgunblaðinu 15. ágúst 2019.
Athugasemd: Stundum er sagt að grein eða frétt sé efnislega góð. Skilja má að málfarið sé lakara. Ofangreind tilvitnun er í mjög viðamikilli og fræðandi fréttaskýringu í Mogganum en að ósekju hefðu fleiri mátt lesa greinina yfir og lagfæra nokkra agnúa á henni.
Á ensku er sagt:
It is under these circumstances
Enskan læðist víða inn og áhrif hennar á setningaskipan og orðalag er ein mesta ógn sem að íslenskunni steðjar.
Á íslensku segjum við einfaldlega: Við þessar aðstæður ... Flóknara er það ekki.
Í greininni segir einnig:
Morgunblaðið hefur undir höndum áður óséð gögn
Hvað er óséð? Hugsanlega er átt við óbirt gögn, eða gögn sem fáir hafi kynnt sér eða vitað af. Engin mannanna verk eru óséð.
Á ensku gæti svona hafa verið sagt um Watergate málið:
The Wasington Post has previously unseen data available
Sá sem ekki hefur alist upp við lestur íslenskra bókmennta hefur ekki mikinn orðaforða og skilur vart blæbrigði málsins. Til lítils er að vera snjall í ensku en geta ekki komið upplýsingum til skila á eðlilegri íslensku.
Verst er þó að hið enska orðalag og ensk setningaskipan smitar lesendur sem átta sig ekki á þessu og telja ósjálfrátt að ekkert sé að. Ábyrgð íslenskra fjölmiðla er mikil og þeir eiga stóran þátt í hnignun íslensks máls.
Tillaga: Við þessar aðstæður
4.
Tveir bílanna eru gjörónýtir og tveir aðrir urðu fyrir tjóni af völdum eldsins.
Frétt visir.is.
Athugasemd: Orðalengingar eru ósiður. Blaðamenn eiga að segja frá í knöppum stíl, sleppa málskrúði og orðalengingum.
Í ofangreindri tilvitnun er afar auðvelt að stytta málsgreinina eins og sjá má á tillögunni hér fyrir neðan.
Tillaga: Tveir bílanna eru gjörónýtir og aðrir tveir skemmdust.
5.
Davis svaraði undir eið að hún hefði logið að Opruh.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hér er endurtekið efni frá því síðast. Ég var ekki nógu ánægður með efnistök og leitaði því heimilda hjá löglærðum manni og endurskrifaði þáttinn að hluta.
Ofangreind tilvitnun er með áhrifum af ensku orðalag sem tíðum má sjá í bandarískum sjónvarpsþáttum eða bíómyndum. Söguhetjan þarf að leggja hönd á biblíu og sverja til guðs og þá er sagt á enskunni:
Do you swear to tell the truth, the whole truth and nothing but the truth so help you God?
Þegar hetjan játar er hún eða vitnið bundið eiði, á ensku: under oath. Óvandaðir blaðamenn segja að vitnið sé undir eiði. Það er rangt orðalag
Á íslensku er talað um að sverja eið, vera eiðsvarinn. Jafnvel er talað um svardaga sem er fallegt orð sem merkir eiður eða eiðfestur sáttmáli.
Nafnorðið eiður beygist svona: Eiður, eið, eiði, eiðs. Forsetningin undir stjórnar þágufalli og því væri rétt að segja undir eiði, ekki undir eið.
Eiður er gamalt fyrirbrigði í íslenskum rétti og ekki lengur notaður. Ástæðan er einfaldlega sú að vitni bera refsiábyrgð á vísvitandi röngum framburði og þau eru brýnd á því áður en þau gefa skýrslu fyrir dómi.
Gísli Jónsson segir í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu árið 1982:
Ef við getum svarið eið með góðri samvisku, segjum við kannski: Mér er eiður sær, en það orð fellur núorðið saman við sær af sögninni að sjá, t.d. auðsær.
Íslenskuþættir Gísla í Morgunblaðinu eru þrungnir fróðleik og speki. Hægt er að fletta þeim upp á timarit.is.
Hér verður enn og aftur að vara við því að blaðamenn hrapi að þýðingum sínum. Íslenskan er sjálfstætt tungumál sem hefur eigin lögmál og engin ástæða til að breyta henni af þeirri ástæðu einni að ensku orðin líkist þeim íslensku. Blaðamenn þurfa að búa yfir orðaforða og reynslu svo þeir dreifi ekki óvart tómum vitleysum og breyti þar með tungumálinu.
Tillaga: Davis svaraði eiðsvarin að hún hefði logið að Opruh
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Facebook
Athugasemdir
Gleymdu ekki svefnugum segg!
Jón Valur Jensson, 16.8.2019 kl. 05:37
Tímapúntur, samkvæmt Heisenberg, er óþekkjanlegt fyrirbæri, verandi ómælanlegt, og því gagnslaust.
En þá erum við náttúrlega komnir í eðlisfræði, og það fyrirbæri er skýjum ofar skilningi jafnvel hálf-skynsamra manna.
Ásgrímur Hartmannsson, 16.8.2019 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.