Dónt folló the krád, starfsamur fundur og tvísýnn tilgangur

Orðlof

Handklæði er ekki vettlingur

Orðið handklæði er leitt af orðunum hönd og klæði. Elstu dæmi um það eru frá 13. öld og það kemur einnig fyrir í Njáluhandritum á 14. öld („Flosi hugði at handklæðinu, ok var þat raufar einar.“). 

Það á sér samsvaranir í öðrum málum, til dæmis håndklæde í dönsku, handduk í sænsku og Handtuch í þýsku (sjá „Af hverju eru vettlingar ekki kallaðir handklæði og öfugt?“ á Vísindavefnum).

Málfarsbankinn. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég hef alltaf verið stoltur af því að velja mína eigin leið í lífinu, nánast lykilatriði að „don´t follow the crowd.““

Af facebook.com.     

Athugasemd: Ágætt er að rithöfundur slái dálítið um sig og sýni hversu leikinn hann er í ensku. Betra væri þó að hann héldi sig annað hvort við ensku eða íslensku. Illa fer á því að blanda saman þessum tungumálum, það er beinlínis ljótt.

Enskumælandi þjóðir blanda sletta til dæmis aldrei íslensku. Slíkt er til mikillar fyrirmyndar. Enginn myndi til dæmis skrifa eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: I have always been proud to choose my own way of life, almost a key factor to „ekki fylgja hjörðinni“.

2.

„Vest­ur­Verk ætl­ar bíða með veg­fram­kvæmd­ir í einhverja daga að sögn upp­lýs­inga­full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Held að það sé ljóst að fyrirtækið ætli að bíða í nokkra daga. Finnst það vera réttara mál. 

Í Málfarsbankanum segir engu að síður:

Í staðinn fyrir orðið einhver fer oft betur t.d. á orðunum nokkur og fáeinir. Hann var í burtu í fáeina daga. (Síður: „hann var í burtu í einhverja daga“.) 

Þetta kostar nokkrar milljónir. Kostnaðurinn skipti milljónum. (Síður: „þetta kostaði einhverjar milljónir“.)

Fer betur á því …“ segir í Málfarsbankanum. Orðalagið „einhverjir dagar“ er ekki rangt mál. Það hefur lengi verið notað ef marka má stuttlega leit á tímarit.is. Í blaðinu Verkamaðurinn er saga úr Reisubók Jóns Indíafara (1593-1679), endursögð, og í henni þetta:

Líða svo fram einhverjir dagar. Þá fer fólk að efstu bæjum í Álftafirði að heyra vein váleg framan úr óbyggð. 

Líklega er ég einn um að fjargviðrast út í notkun á persónufornafninu einhver í þessu samhengi. Þó er til dæmis sagt að nokkrir dagar séu til jóla, síður að „einhverjir dagar“ til jóla. Oft er þörf að bíða af sér veður í nokkra daga, afar sjaldgæft er að menn bíði af sér veður í „einhverja daga“. 

Tillaga: Vest­ur­Verk ætl­ar bíða með veg­fram­kvæmd­ir í nokkra daga að sögn upp­lýs­inga­full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins.

3.

„Syst­ir­in fannst lát­inn á heim­ili árás­ar­manns­ins eft­ir að hann hafði verið hand­tek­inn eft­ir að hafa skotið sér leið gegn­um glugga mosk­unn­ar og skotið svo á allt sem fyr­ir varð með mörg­um skot­vopn­um.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Blaðamaðurinn hefur ekki lesið yfir fréttina áður en hann birti hana. Nástaðan er meinleg: eftir að … eftir að. Oft er gott ráð að setja punkt sem víðast, ekki bjóða upp á langar og flóknar málsgreinar. Þær geta valdið ruglingi.

Í málsgreinina vantar forsetninguna „í“ þar sem talað er um glugga moskunnar.

Tillaga: Syst­ir­in fannst lát­inn á heim­ili árás­ar­manns­ins. Hann var  hand­tek­inn eft­ir að hafa skotið sér leið í gegn­um glugga mosk­unn­ar og skotið svo á allt sem fyr­ir varð með mörg­um skot­vopn­um. 

4.

„„Þetta var starfsamur fundur og gagnlegur““

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 17.8.2019.    

Athugasemd: Fólk er starfsamt, iðið, duglegt … Varla getur fundur verið starfsamur eða tónleikar, íþróttaæfing eða álíka er fólk kemur saman og lætur hendur standa fram úr ermum.

Lýsingarorðið starfsamur á við fólk, að einhver, einn eða fleiri, hafi afkastað miklu, verið duglegur.

Orðalagið minnir á íþróttamál. Án þess að blikna tala sumir íþróttablaðamenn um „fljótasta markið“ og hafa þó mörk aldrei stundað keppni sín á milli.

Tillaga: Þetta var gagnlegur fundur og fundarmenn starfsamir.

5.

„Enn meiri aukning í veltu í bókaútgáfu.“

Fyrirsögn á blaðsíðu 24 í Morgunblaðinu 17.8.2019.    

Athugasemd: Betra er að segja að veltan í bókaútgáfunni hafi aukist. Óskiljanlegt er að  sagnorðinu sé sleppt og nafnorð sett í staðinn? Setningin verður lakari fyrir vikið.

Á ensku væri sagt eitthvað á þessa leið:

Even bigger increase in book publishing turnover.

Berum nú ensku þýðinguna saman við tillöguna hér fyrir neðan. Glöggir lesendur sjá að íslenskan styðst við sagnorðið að aukast (einnig hægt að nota sögnina að vaxa). Enska nafnorðið „increase“ á við nafnorðið aukning í fyrirsögninni.

Ensk áhrif á orðalag sem eru orðin óþægilega mikil í íslenskum fjölmiðlum.

Tillaga: Velta í bókaútgáfu eykst enn meira.

6.

„Segir tvísýnt hver tilgangurinn sé með komu varaforseta Bandaríkjanna til landsins.“

Frétt visir.is og einnig á Bylgjunni kl. 12, 18.8.2019.    

Athugasemd: Líklega er blaðamaðurinn að rugla lýsingarorðinu tvísýnn og lýsingarorðinu óljós eða eitthvað álíka. Orðið passar alls ekki í málsgreinina og hún er óskiljanleg.

Tvísýnn merkir óljós, óöruggur. Sé eitthvað tvísýnt getur brugðið til beggja vona um árangur. Veðrið getur verið tvísýnt og því óvíst hvort hægt verði að fara til dæmis á skíði, á sjó eða í gönguferð. Þegar Valur og Kr leika í fótbolta kann að verða tvísýnt um úrslit

Aldrei er tvísýnt um tilgang heimsóknar en hins vegar kann einhver óvissa að vera um hana, tilgang hennar, efni, þátttakendur, veitingar eða fundarstað. Þó getur verið tvísýnt hvort af heimsókninni verði.

Ég held að stjórnendur fjölmiðla sé stundum mislagaðar hendur í mannaráðningum. Svo virðist sem að engin krafa sé gerð um þekkingu á íslensku máli, meira sé lagt upp úr öðrum hæfileikum. Niðurstaðan verður þá sú að fleiri og fleiri skrifa skemmdar fréttir. Margir blaðamenn skilja ekki orð, orðatiltæki og málshætti sem þeir nota, átta sig ekki á muninum á íslenskri og enskri orðaröð. 

Fyrir skömmu var viðmælandi í ágætum fjölmiðli sagður leika tveimur skjöldum. Blaðamaðurinn taldi þetta orðalag við hæfi því viðmælandi lék fótbolta og spilaði þar að auki á hljóðfæri. Svona er lesendum ekki bjóðandi.

Er ekki sjálfsagt að velta fyrir sér hvernig íslenskukennslu er háttað í grunn- og framhaldsskólum. Ungt fólk lýkur skólagöngu án þess að hafa fengið áhuga á bóklestri og er um leið vart skrifað texta á íslensku nema á tvittermállýsku, í sms stubbi eða álíka. Og hvað vorum við foreldrar að hugsa?

TillagaSegir óljóst hver tilgangurinn sé með komu varaforseta Bandaríkjanna til landsins.

7.

„Heyrðu. Það gengur bara vel.“

Frétt á Ríkisútvarpinu kl. 12:20, 18.8.2019.    

Athugasemd: Þannig svarar fréttamaðurinn sem er að ganga á Ok. Fréttaþulurinn spurði: Hvernig gengur ykkur? Og svarið er „heyrðu …“

Fleiri og fleiri hafa tekið upp þennan kæk, ekki hægt að kalla þetta annað.

Viðmælendur í útvarpi og sjónvarpi eiga margir þetta til. Af hverju segir fólk ekki bara aaahh, sko, þadna, eeehh eða sleppir því bara að spyrja um heyrnina og komi strax að kjarna máls. 

Tillaga: Okkur gengur bara vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband