Fá félagaskipti, vera undir eið, og sviptingarhraði

Orðlof

Rífa hús eða rífa niður

Bæði Íslensk orðabók og Íslensk nútímamálsorðabók vilja láta rífa hús en ekki rífa „niður“ hús eins og hægt er á ensku (to tear down a house) og sumir taka sér til fyrirmyndar. 

Það er notalegt að barist skuli um hvern lófastóran blett í sjálfstæðisbaráttunni við heimsmálið. Gamanlaust.

Málið á blaðsíðu 43 í Morgunblaðinu 10.8.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Slökkviskjól­an kom að góðum not­um.“

Fyrirsögn á mbl.is.   

Athugasemd: Skjóla gæti hugsanlega verið gott orð um ílát sem er hengt í þyrlu og notuð við slökkvistörf. 

Á malid.is segir um skjólu:

fata, einkum úr tré

Og:

skjóla kv. ´fata´; sbr. fær. skjóla kv. ´(lítil) mjólkurfata´ og sæ. máll. skjula ´fata´. Sk. skjól (s.þ.).

Af þessu leiðir að risastóra skjólan undir þyrlu Landhelgisgæslunnar á lítið sameiginlegt með lítilli tréskjólu. Eitthvað verður þetta þó að heita og skjóla er jafngott og hvað annað.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Coutinho hefur ollið vonbrigðum hjá Barcelona frá því hann fékk félagaskipti frá Liverpool …“

Fyrirsögn á fotbolti.net.    

Athugasemd: Valdi blaðamaður ekki sögninni að valda verður hann valdur að dreifingu á villu. Má vera að fyrirsögnin sé bara prentvilla. Verra er að „fá félagaskipti“. Svona orðalag er tóm vitleysa og er undir enskum áhrifum. Á íslensku er sagt að hann hafi skipt um félag. Íslenskt mál byggir á sagnorðum. Enskan heldur sig við nafnorðin.

Í fréttinni segir líka:

Barcelona var opið fyrir því að selja hann í sumar, en eftir að félagaskiptaglugginn á Englandi lokaði í síðustu viku …

„Félagaglugganum“ sem svo er kallaður var lokað, hann lokaði engu. 

Málsgreinin er betri og um leið réttari svona:

Barcelona var tilbúið til að selja hann í sumar, en eftir að félagaskiptaglugganum á Englandi var lokað í síðustu viku …

Yfirleitt opna eða loka dauðir hlutir ekki neinu, fólk getur það hins vegar.

Tillaga: Coutinho hefur valdið vonbrigðum hjá Barcelona frá því hann skipti um félag og fór frá Liverpool …

3.

„Dav­is svaraði und­ir eið að hún hefði logið að Opruh.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þetta er enskt orðalag sem tíðum má sjá í bandarískum sjónvarpsþáttum eða bíómyndum. Söguhetjan þarf að leggja hönd á biblíu og sverja til guðs og þá er sagt á enskunni:

Do you swear to tell the truth, the whole truth and nothing but the truth so help you God?

Þegar hetjan játar er hún eða vitnið bundið eiði, á ensku: „under oath“. Hins vegar er nokkuð algengt í fjölmiðlum að sagt sé „undir eiði“. Dreg í efa að það sé rétt.

Á íslensku er talað um að sverja eið, vera eiðsvarinn og jafnvel er talað um svardaga, fallegt orð sem merkir eiður eða eiðfestur sáttmáli.

Nafnorðið eiður beygist svona: Eiður, eið, eiði, eiðs. Fosetningin undir stjórnar þágufalli og því væri rétt að segja undir eiði sé það nogtað.

Hér verður enn og aftur að vara við því að blaðamenn hrapi að þýðingum sínum. Íslenskan er sjálfstætt tungumál sem hefur eigin lögmál og engin ástæða til að breyta henni af þeirri ástæðu einni að ensku orðin líkist þeim íslensku. Blaðamenn þurfa að búa yfir orðaforða og reynslu svo þeir dreifi ekki óvart tómum vitleysum og breyti þar með tungumálinu.

Tillaga: Dav­is svaraði eiðsvarin að hún hefði logið að Opruh.

4.

21 árs Norðmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald.“

Frétt á blaðsíðu 13 í Morgunblaðinu 13.8.2019.     

Athugasemd: Af öllum íslensku fjölmiðlunum er það líklega algengast í Mogganum að setningar byrji á tölustöfum. Þetta er mikill ósiður og gerist hvergi vegna þess að tölustafir og bókstafir eru af útliti sínu ólíkir.

Betur fer á því að skrifa lægri tölur með bókstöfum en tölustöfum.

Tillaga: Í gær var tuttugu og eins árs Norðmaður úrskurðaður í gæsluvarðhald.

5.

„Eitt reisu­leg­asta hús lands­ins stend­ur við Fjólugötu 1.“

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Í fjölmiðlum eru stundum orð sem trufla lesandann vegna þess að merking þeirra á ekki við samhengið. 

Á malid.is segir um lýsingarorðið reisulegur:

Háreistur og myndarlegur.

Í orðsifjabókinni á sama vef stendur að það geti verið tengd fornu orði, reisuglegr, skylt sögninni að reisa og rísa.

Af myndunum sem fylgja fréttinni er ekki hægt að fullyrða að húsið sé reisulegt þó það sé engu að síður laglegt. Má vera að blaðamaðurinn haldi að orðið reisulegur þýði fallegt, myndarlegt eða álíka. Svo er hins vegar ekki og hefði hann átt að nota annað orð til að lýsa útliti hússins.

Í fréttinni segir:

Nú get­ur þú séð hvernig þessi fast­eign lít­ur út að inn­an.

Ég velti því fyrir mér hvern blaðamaðurinn sé að ávarpa. Ekki mig, það er alveg víst. Hugsanlega telur hann í lagi að nota enska orðalagi með persónufornafnu „you“:

Now you can see what this real estate looks like inside.

Málið er að „you“ er ekki bara persónufornafn. Á því villast margir sérstaklega þeir sem ekki fylgdust með í enskutímum í gamla daga. Í orðabókinni minni segir um „you“:

1 used to refer to the person or people that the speaker is addressing: are you listening? | I love you.

• used to refer to the person being addressed together with other people regarded in the same class: you Americans.

• used in exclamations to address one or more people: you fools | hey, you! […]

2 used to refer to any person in general: after a while, you get used to it.

Svona getur nú enskan verið snúin. Á íslensku notum við persónufornfnið þú ekki á sama hátt, getum það ekki, þó sumir rembist við að troða enska hættinum inn í málið. Með vilja eða af fávísi, veit ekki hvort er verra.

Tillaga: Eitt fallegasta hús lands­ins stend­ur við Fjólu­götu 1.“

6.

„Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, tók leikmann út af fyrir hlé á dögunum.“

Frétt á blaðsíðu 33 í Morgunblaðinu 14.8.2019.

Athugasemd: Ég þurfti að lesa þessa setningu nokkrum sinnum en skildi hana ekki fyrr en eftir að hafa lesið pistilinn allan. Blaðamaðurinn á við að þjálfarinn hafi skipt úr leikmanninum í fyrri hálfleik, það er áður en leikurinn var hálfnaður. Slíkt heyrir víst til tíðinda í fótbolta.

Fótboltaleikur er nítíu mínútna langur og er um fimmtán mínútna hlé eftir fjörtíu og fimm mínútna leik. Yfirleitt er talað um fyrri og seinni hálfleik. Hléið er kallað hálfleikur sem er gott orð. Hins vegar eru hlé oft gerð oft á fótboltaleik og stundum er tímatakan stöðvuð, til dæmis þegar leikmaður meiðist.

Af þessu má draga þá ályktun að hálfleikur er betra orð en hlé. Að öðrum kosti verður til óþarfa ruglingur rétt eins og í fréttinni í Mogganum.

Tillaga: Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, tók leikmann út af í fyrri hálfleik á dögunum.

7.

„Hins vegar má spyrja hvort hún hafi aldrei orðið „star struck“, verið slegin stjörnublindu, við að hitta einhverja stórstjörnuna í fyrsta sinn, t.d. Al Pacino.“

Frétt á blaðsíðu 36 í Morgunblaðinu 14.8.2019.

Athugasemd: Vel gert hjá blaðamanni Moggans að kalla það að vera slegin stjörnublindu sem á ensku er „star struck“. 

Þar að auki er ekkert auðvelt að þýða ensku sögnin „strike (struck, stricken)“ svo vel sé. Blaðamanninum gerir þetta óaðfinnanlega, raunar svo að hann hefði óátalið getað sleppt enskunni í ofangreindri málsgrein.

Tillaga: Hins vegar má spyrja hvort hún hafi aldrei verið slegin stjörnublindu, við að hitta einhverja stórstjörnuna í fyrsta sinn, til dæmis Al Pacino.

8.

„Þrír á sviptingarhraða á Suðurlandi“

Fyrirsögn á visir.is. 

Athugasemd: Þetta er að sumu leiti snjöll fyrirsögn en mér finnst hún ekki ganga allskostar upp.

Samkvæmt malid.is merkir orðið „rykkja, kippa; taka e-ð frá e-m“. Stundum er sagt að sviptingar séu í stjórnmálum, í veðri eða jafnvel í fótbolta-, körfubolta og handboltaleikjum.

Sviptingar gerast hratt, að minnsta kosti miðað við aðstæður. Þess vegna getur það varla verið rétt að búa til orðið sviptingahraði, það væri eins og að tala um fótboltaknött, flugvélamótor, skokkhlaup eða drykkjarítlátsvökva.

Langbest er að skrifa eðlilegt mál forðast skrúðmælgi og tilraunastarfsemi. Lesendur eiga rétt á því.

TillagaÞrír sviptir réttindum fyrir hraðakstur á Suðurlandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband