Hvað er verra en skoðanir sem byggjast á lygi

Það vill svo til að nokkrir velunnarar, hafa fjárfest í ríkisjörðum sem eru ríkar af vatnsréttindum. Þetta er auðvitað tilgáta sem ég vildi óska að einhver gæti hrakið.

Svona skrifar kona nokkur í athugasemdakerfi dv.is.  Hún virðist vilja vel, formælir engum eins og þarna er títt, sýnir engum dónaskap. Hún er afar vinsamleg rétt eins Gróa á Leiti, sögupersónan í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen, sem sagði:

Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því ...

Má vera að Gróa hafi verið eins og þessi ónefnda kona, góðleg og þykist vilja vel, en þrífst á sögusögnum, dreifir þeim eins og mykju á tún. Býr til falsfréttir en hefur svipaðan fyrirvara og Gróa:

Þetta er auðvitað tilgáta sem ég vildi óska að einhver gæti hrakið.

Svona svífa lygarnar um í þjóðfélaginu. Einhver telur sig þurfa að koma höggi á annan og þá er falsið og lygin nærtækust. Þegar rök bresta er ráðist á einstaklinga. Þekking skiptir þá engu máli, markmiðið er að gera út af við þann sem um er rætt. Þá er gripið til orða eins og hagsmunir, frændhygli, spilling, óheiðarleiki og álíka gildishlaðin orð en oftast er ekkert á bak við þau.

Áhrifin eru hins vegar mikil. Hver vill styðja spilltan stjórnmálamann? Hver hefur ekki andstyggð á óheiðarleika? Ertu kannski álíka spilltur og flokkurinn sem þú styður?

Athugasemdakerfi Vísis og DV eru misnotuð af hópi fólks. Um 10 til 15% þeirra sem þar taka til máls eru undir dulnefnum. Afar auðvelt er að búa til gerviaðgang á Facebook.

Í nokkurn tíma var til dæmis til „Bjarni Ben“ og var gervipersónan skreytt með mynd af formanni Sjálfstæðisflokksins og var tilgangurinn bersýnilega að ófrægja hann og niðurlægja í athugasemdakerfum fjölmiðlanna. Svona lið á soralegan talsmátann sameiginlegan og fullyrðingar sem í öllum tilfellum eru dylgjur eða ósannindi.

Svo eru það hinir sem eru svo illa innrættir að þeim finnst ekkert að því að dreifa óhróðri, svívirðingum og lygi. Þeir eru ótrúlega margir og láta sér ekki segjast þó staðreyndir mála blasi við þeim. Þeir halda áfram að dreifa falsfréttum eins og þeir eru ráðnir til að gera.

Almenningur er gjörsamlega varnarlaus gegn falsfréttum og þær eru hvað hættulegastar fyrir lýðræðið og frjáls skoðanaskipti. Falsfréttir eru eins og hryðjuverk, enginn veit hvenær þær bitna á manni sjálfum.

Þetta er einmitt það sem gerist í athugasemdakerfum fjölmiðla. Þar ræður ríkjum einsleitur hópur sem svífst einskis gegn öllum þeim sem hafa aðrar skoðanir eða dirfast að viðra fleiri en eina hlið mála.

Vart er til óhugnanlegri tilfinning  en sú að hafa myndað sér skoðun sem meira eða minna er byggð á falsfréttum, fölsuðum upplýsingum um málefni eða einstaklinga. 

Jú, raunar er ein tilfinning verri og hún er sú að hafa ekki hugmynd um að logið hafi verið að manni. Hver er þá vörnin, til hvaða ráða getur maður gripið?

Farsælast er að trúa ekki öllu sem maður les, vera gagnrýninn, afla sér upplýsinga, lesa sér til. Staðreyndin er nefnilega sú að Gróa á Leiti þrífst ekki á meðal þeirra sem vita, hafa þekkingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband