Hugsaður markvörður og fyrsta frostið mætt
8.8.2019 | 19:44
Orðlof
Telja
Sögnin telja getur merkt margt í íslensku. En það eru erlend máláhrif þegar sagt er:
Stofninn telur um 11.000 dýr
Söfnuðurinn telur um 5.000 manns.
Ekki er hér mælt með þessari notkun sagnarinnar telja enda er hún ekki í samræmi við málvenju. En það væri í góðu samræmi við íslenska málvenju að segja:
Í söfnuðinum eru um 5.000 manns.
Góð íslenska væri og:
Söfnuðurinn telur að efla beri mjög kristilegt starf hér á landi.
Gott mál, Ólafur Oddsson, menntaskólakennari, 2004
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Háskólinn í Reykjavík lagði Kristin í héraðsdómi.
Fyrirsögn á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 8.8.2019.
Athugasemd: Er nafnið Kristinn ekki rangt beygt? Nei, þetta er hárrétt. Nafnið hefur tvö n í nefnifalli og eitt í þolfalli.
Svo margar villur eru oft í fjölmiðlum að lesandinn gleðst yfir öllu því sem vel er gert.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
City að fá óvæntan markvörð.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Velti því fyrir mér hvort enska fótboltafélagið Manchester City sé óvænt að fá markvörð eða að þessi tiltekni markmaður hafi óvænt verið ráðinn.
Fyrirsögnin er óskýr. Hvað er eiginlega óvænt?
Í fréttinni er þessi málsgrein:
Englandsmeistarar Manchester City eru að bæta við markverði í sinn hóp, en það er gömul kempa sem kemur úr nokkuð óvæntri átt.
Betur fer á því að segja að félagið sé að bæta markverði í liðið. Of mikið er að bæta við í sinn hóp því hvar ætti hann annars að vera? Í bókhaldið á skrifstofunni?
Í stuttri frétt er frekar mikið að nota lýsingarorðið óvæntur tvisvar. Það flokkast sem nástaða.
Svo segir:
Carson er hugsaður sem þriðji markvörður
Velta má fyrir sér hvort eðlilegt sé að nota sögnina að hugsa í þessu samhengi og einnig hvort rétt sé að nota hana í lýsingarhætti þátíðar, sterkri beygingu í nefnifalli Doldið flókið en gengur upp að segja að maðurinn sé hugsaður ? Fer ekki betur á því að orða það þannig að tilgangurinn með kaupunum sé staða þriðja markvarðar?
Hugsanlega hefur einhver hugsað að maðurinn sé hugsaður í markið en hugsi ekki um bókhald, sem þó er hugsanlegt.
Tillaga: City fær markvörð og allir eru hissa.
3.
Ástæðan fyrir vandræðunum er að aðalstyrktaraðili Derby County er veðmálafyrirtæki með 32 í nafninu sínu. Þar erum við að tala um veðmálafyrirtækið Red32.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Skrýtið að lesa frétt og svo er skyndilega komið inn í einhverjar samræðum á milli fólks sem ekkert hefur verið nefnt, hvorki fyrir né eftir.
Hverjir eru þessir við sem eru að tala um veðmálafyrirtækið? Líklegast blaðamaðurinn og ritstjórinn.
Hugsanlega gæti blaðamaðurinn átt við það sem segir í tillögunni hér að neðan. Hann heldur líklega að við lesendur skiljum ekki mælt mál og því bætir hann við einni setningu sem samt hjálpar ekki neitt, ruglar frekar.
Af þessum skrifum blaðamannsins er ljóst að hann er algjörlega óvanur og enginn leiðbeinir honum. Hvernig eiga þá blaðamenn að komast til einhvers þroska í faginu ef enginn fylgist með, les yfir skrifin. Vont er að lesendum er boðið upp á illa skrifaðar fréttir, raunar skemmdar.
Tillaga: Ástæðan fyrir vandræðunum er að aðalstyrktaraðili Derby County er veðmálafyrirtækið Red32.
4.
Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að móðir árásarmannsins, sem heitir Patrick Crusius og er 21 árs gamall, hafi haft áhyggjur af því að hann væri í andlegu ástandi til þess að eiga riffil.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hér vantar eitthvað. Hver er munurinn á þessu:
- Móðirin hefur áhyggjur af því að hann sé í andlegu ástandi til að eiga riffil.
- Móðirin hefur áhyggjur af því að hann sé ekki í andlegu ástandi til að eiga riffil.
- Móðirin hefur áhyggjur af því að hann sé í góðu ástandi til að eiga riffil.
Jú, munurinn er eitt lítið atviksorð, ekki. Í fyrsta dæminu er ekkert sagt. Allir eru í andlegu ástandi. Þetta eru bara innihaldslaus orð þangað til atviksorðið bætist við eða lýsingarorð eins og slæmur eða góður.
Á vef BBC segir:
His mother is said to have contacted police to express concern about him owning a weapon, given his age, maturity and experience handling firearms.
Þarna eða annars staðar í fréttinni kemur ekkert fram um andlegt ástand mannsins. Móðirin hafði bara áhyggjur af því að svo ungur maður hefði hvorki þroska eða reynslu til að eiga skotvopn. Ekkert um andlega styrk.
Hvaðan kemur þá fyrirsögnin? Láðist móðurinni að segja það sem blaðamaðurinn bætti við?
Tillaga: ... hafi haft áhyggjur af því að hann væri of ungur og óreyndur til að eiga riffil.
5.
Jæja, fyrsta frostið mætt.
Færsla á Facebook.
Athugasemd: Er hægt að taka svona til orða? Hvenær kemur þá annað frostið og það þriðja? Eru mörg frost væntanleg?
Nei, þetta er tóm vitleysa og langt frá íslenskri málhefð. Frost er vissulega til á eintölu og fleirtölu. Frostið bítur, er oft sagt. Búast má við frostum næsta vetur.
Frost lýsir kulda, ástandi, ekki magni sem má telja eða vigta
Á vef Fréttablaðsins segir:
Svæsinn kuldakafli sem mun vara langt fram á næstu viku.
Hér er vel að orði komist að því undanskildu að blaðamaðurinn hefði átt að segja kuldakaflann standi yfir fram í næstu viku.
Í fréttinni er svo vísað í Facebook færsluna sem getið er um hér að ofan, athugasemdalaus. Slæmt.
Tillaga: Jæja, nú er farið að frysta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.