Tórs páer gim, byrgja og birgja og manneskja

Orðlof

Tímapunktur

Nokkuð er um liðið frá því síðast var veist að orðinu tímapunktur í þessum þáttum. En nú er ljóst að ekki er komið að því að setja punkt aftan við það mál. 

„Kannski geri ég þetta á einhverjum tímapunkti í framtíðinni.“ Þ.e.a.s.: Kannski geri ég þetta einhverntíma.

Málið á blaðsíðu 43 í Morgunblaðinu 10.8.2019.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Beto var með eitthvað eins og 400 manns á bílastæði …“

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Blaðamenn mega ekki skrifað hvernig sem er. Fréttir verða að skiljast og það sem er mikilvægara, þær verða að vera á góðu íslensku máli. Feitletruðu orðin í tilvitnuninni hér að ofan eru frekar loðin.

Í heimildinni, vefsíðu Politico, segir:

And then you had this crazy Beto. Beto had, like, 400 people in a parking lot.

Blaðamaðurinn þýðir ekki, hann endursegir frásögnina í bandaríska vefmiðlinum og er ekkert að því. Hins vegar lendir hann í vandræðum með þetta innskotsorð „like“ sem tröllriðið hefur enskri tungu undanfarin misseri og hefur eiginlegan enga merkingu. Það er eins konar hikorð eins og „sko“ eða „þannig“ sem eilíflega er skotið inn í talmál á íslensku og jafnvel ritmál. Verst er þó „heyrðu“ sem oftast hrekkur í upphafi upp úr viðmælendum í útvarpi og sjónvarpi þegar þeir eru að hefja mál sitt. 

Algjör óþarfi er að reyna að þýða þetta „like“. Sé því sleppt í ensku breytist merking setningarinnar alls ekkert. Líklegast færi ágætlega á að nota atviksorðið um eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan. Annars er um yfirleitt forsetning.

Tillaga: Beto var með um 400 manns á bílastæði …

2.

„Kraf­ta­karl­inn Hafþór Júlí­us Björns­son opnaði í dag lík­ams­rækt­ar­stöð í Kópa­vogi sem nefn­ist Thor´s Power Gym.“

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Gat nú maðurinn ekki fundið íslenskt nafn á líkamsræktarstöðina sína? Hvers konar bull er þetta? 

Afsakið fljótfærnina, skyndilega rennur upp fyrir mér að enskan er miklu flottari og svo óskaplega vel lýsandi er að segja „Tórs páer gim“ en allt annað. Enskunnar vegna munu Íslendingar flykkjast í „gimmið“. Þetta veit sá ofvaxni.

Tillaga: The power boy Hafþór Júlíus Björnsson today opened a fitness center in Kópavogur called „Líkamsræktarstöð Hafþórs“ (… hummm)

3.

„Richard Gere færði flótta­fólki byrgðir eftir viku kyrr­setu.“

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Villuleitarforrit í ritvinnslu tölva er frábært hjálpartæki. Með því að nota það er hægt að koma í veg fyrir flestar stafsetningavillur. Þau kunna samt ekki íslensku, gera ekki greinarmun á orðum sem hafa svipaðan rithátt. Þá verður skrifarinn að geta leitað í eigin orðabanka, nýtt sér reynslu, þekkingu og menntun. Hann á þó ekki að þurfa að leita lengi, yfirleitt kemur orðið eldsnöggt upp úr hugarfylgsnum. Ef ekki þá er næsta skrefið að leita heimilda. Aðrir skrifa af vanþekkingu.

Staðreyndin er sú að Gere, sem er leikari færði flóttafólki birgðir. Það er svo allt annað mál ef menn eru byrgðir inni, jafnvel þó þeir hafi birgðir af ýmsu tagi.

Á malid.is er frábær og upplýsandi skýring:

Athuga að rugla ekki saman sögnunum birgja og byrgja.

    1. Sögnin birgja (birgði, birgt) finnst aðallega í sambandinu birgja sig upp og merkir: afla sér forða. Hún er skyld sögninni bjarga.
    2. Sögnin byrgja (byrgði, byrgt) merkir: loka eða hylja. Hún er skyld nafnorðinu borg.

Villuleitaforrit gefa rétt fyrir hvort tveggja, birgja og byrgja, af því að þau skilja ekki muninn. Blaðamaður á að hafa skilninginn. Hann þarf ekki að vera sérfræðingur í stafsetningu, tölvan hjálpar. Hann þarf hins vegar að vera snjall í meðferð íslensks máls. Það verður enginn nema með lestri bóka frá unga aldri og fram á grafarbakkann.

Svo má velta því fyrir sér hvort leikarinn hafi setið kyrr í viku eða hvort það hafi verið flóttafólkið. Auðvitað skilst þetta af samhenginu en engu að síður eða setningin loðin og óskýr.

Tillaga: Richard Gere færði flótta­fólki birgðir eftir viku kyrrsetu.

4.

„Þau hafi þó öll verið með meðvitund þegar viðbragðsaðila bar að garði og enginn talinn í lífshættu.“

Frétt á visir.is.        

Athugasemd: Enginn veit hvað viðbragðsaðili er. Orðið er einstaklega ljótt og ógegnsætt, frekar leiðinlegt enda letiorð. Á malid.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. 

Hér eru nokkur orð sem eru betri en viðbragðsaðili: Lögregla, slökkvilið, sjúkraliðar, björgunarsveitir, nærstaddir, nágrannar, vegfarendur og fleiri og fleiri sem hugsanlega bregðast við komi þeir að slysstað eða eru kvaddir þangað. 

Svo er það orðalagið að bera að garði. Í gagnmerki fróðleiksbók, Mergur málsins, segir að það merki svo:

Koma í heimsókn (oft án þess að gera boð á undan sér) …

Af þessu má ráða að orðalag fréttarinnar er langt frá raunveruleikanum, enginn var í heimsókn. Blaðamaðurinn skrifar út í loftið, veit ekkert hvað orðin sem hann notar merkja.

Þannig dreifir Vísir tómri vitleysu til lesenda og hjálpar til að leggja íslenska tungu að velli. 

Tillaga: Þau hafi þó öll verið með meðvitund þegar hjálp barst og enginn talinn í lífshættu.

5.

„Ein manneskja skotin í árás í norskri mosku.“

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Hvers vegna eru menn iðulega kallaðir manneskjur í fréttum á Vísi? Er það vegna þess að manneskja getur verið hvort tveggja, karlmaður og kvenmaður? Sé svo má vissulega notast við orðið maður.

Á vefnum Málfarsbankinn segir meðal annars:

Að nota manneskja í samhengi þar sem maður var áður notað brýtur vitaskuld ekki í bága við íslenska málstefnu, bæði orðin eru til í merkingunni ´mannvera´. 

En bent hefur verið á að breytinguna megi skilja þannig að eitthvað sé athugavert við orðið sem var skipt út (orðið maður átti sér þarna áratuga sögu). Þannig sé hætta á að menn taki að forðast að nota það um bæði kynin.

Ástæða er til að vekja athygli lesenda á greininni, sem er bæði vel skrifuð og rökföst.

Tillaga: Einn maður skotinn í árás í norskri mosku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband