Hræ étur krabbadýr, endir á eldinum og Álafoss est 1896
1.8.2019 | 11:24
Orðlof
Stórra högga á milli
Hjón eignuðust börn þétt. Einhver sagði þar vera skammt stórra högga á milli en annar taldi orðtakið rangnotað.
Víst er það úr fornu vígamáli - en fyrir löngu orðið nothæft um það að ráðast í mörg stórræði með stuttu millibili; mikilvægir atburðir eiga sér stað með skömmu millibili (Mergur málsins).
Málið á blaðsíðu 55 í Morgunblaðinu 1.8.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Krabbadýr líklega étið af hræinu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvort skyldi krabbadýr hafa étið hræið eða hræið étið krabbadýr? Fyrirsögnin er í germynd en gæti líka verið í þolmynd og því hægt að misskilja hana.
Misskilningurinn felst í orðalaginu éta af. Þarna gæti verið um að ræða þolmynd, dýrið étið af hræinu.
Setjum annað orð í stað hræsins, til dæmis hvalur: Krabbadýr líklega étið af hvalnum. Ómögulegt að skilja setninguna. Í ljósi samhengisins skilst þó að í fyrirsögninni voru krabbadýr sem nærðust á hræinu.
Svona er nú gaman að leika sér með málið. Vandinn er hins vegar sá að skrifa með hugsun, ekki láta allt vaða. Engu að síður er fréttin ágætlega skrifuð.
Tillaga: Krabbadýr líklega lagst á hræið.
2.
Farnir að sjá fyrir endann á eldinum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvar skyldi vera endinn á eldinum? Líklega hvergi. Alþekkt er orðalagið að sjá fyrir endann á einhverju og merkir að eitthvað sé að klárast, lokin séu skammt undan. Þegar band eða kaðall er hringaður upp er verkinu nær lokið þegar endinn sést.
Fyrirsögnin er hrikalega slök en átt er við að slökkviliðsmenn hafi verið nálægt því að slökkva eldinn.
Hér hefur oft verið bent á að mikilvægt er að nota orðalag sem hæfir efni fréttarinnar. Annars er hætt við að niðurstaðan verði eins og þruma úr heiðskírum læk ...
Tillaga: Farnir að sjá fyrir endann á slökkvistarfinu.
3.
Það eru liðin átta ár síðan og átta sinnum hafa nýir tyrkneskir meistarar verið krýndir.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fréttin er illa samin. Í fyrri hluta fréttarinnar kemur ekki fram í hvað íþrótt meistarar hafi verið krýndir. Tilvitnunin hér að ofan er óskiljanleg og ómögulegt að átta sig á því hvort átta lið hafi fengið titilinn fyrir umrætt ár (2011) eða þá að liðin séu átta ár og jafnmörg lið unnið hann.
Í fréttinni segir:
Forráðamönnum Trabzonspor tókst þannig ekki að koma með upplýsingar um lög hjá FIFA eða tyrkneska knattspyrnusambandinu sem myndu rökstyðja slíka ákvörðun.
Hvaða tilgangi þjónar þetta þannig? Eftir að hafa lesið málsgreinina nokkrum sinnum er líklegast dettur mér í hug að blaðamaðurinn eigi við þetta:
Forráðamenn Trabzonspor gátu hvorki vitnað í lagaheimildir hjá tyrkneska knattspyrnusambandinu né FIFA sem heimila að svipta megi Fenerbahce titlinum og færa Trabzonspor.
Svo segir:
Trabzonspor kemur frá norður Tyrklandi en borgin er við Svartahaf.
Blaðamaðurinn hefur ábyggilega viljað orða þetta svona:
Trabzonspor er borg í Norður-Tyrklandi, við Svartahaf.
Í fréttinni er líka þetta:
Trabzonspor hefur orðið sex sinnum tyrkneskur meistari en síðasti titill félagsins kom í hús árið 1984.
Má vera að blaðamaðurinn hafi átt að orða málsgreinina svona:
Trabzonspor hefur orðið sex sinnum tyrkneskur meistari, síðast árið 1984.
Fréttin er skemmd og ekki bjóðandi neytendum.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Álafoss. Est. 1896.
Auglýsing á blaðsíðu 26 í Morgunblaðinu 1.8.2019.
Athugasemd: Smáatriði munu eiga stóran þátt í að eyðileggja íslenskuna. Est. er skammstöfun á ensku og á við established, sem þýðir stofnað. Í Bretlandi og Bandaríkjunum þykir hár aldur fyrirtækja eða vöru merki um dugnað og úthald og þess vegna stendur oft á vörutegundum, húsum eða auglýsingum est eða beinlínis established.
Að sjálfsögðu má Álafoss guma sig af löngum ferli. Hins vegar gat ég aðeins fundið eitt fyrirtæki sem ber nafnið Álafoss og það er einkahlutafélag með kennitölu frá 2018. Álafoss frá síðustu öld er líklega ekki sama fyrirtækið og auglýsing í Mogganum gefur til kynna enda er á heimasíðu alafoss.is gefin upp kennitala frá 1995 og hana á fyrirtækið Áll24 ehf.
Tillaga: Álafoss. Stofnað 1896.
Smælki
Tölustafir í upphafi setningar
1818 eldingar voru skráðar á meðan þrumuveðrið gekk yfir en þær voru flestar á Suður- og Suðausturlandi. Frétt á visir.is.
Athugasemd: Eindregið er ráðið frá því að byrja setningar á tölustöfum. Það er hvergi gert.
Betra: Alls voru skráðar 1818 eldingar meðan þrumuveðrið gekk yfir, flestar á Suður- og Suðausturlandi.
Draga úr eða fækka
Vilja draga úr dauðaslysum. Fyrirsögn á visir.is.
Betra: Vilja fækka dauðaslysum.
Villa
Eftir 0-3 tap fyrir Blikum var þolinmæðin á þrotum Frétt á visir.is.
Rétt: Eftir 0-3 tap gegn Blikum var þolinmæðin á þrotum
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.