Skemmdir framdar, atvik, atvik, atvik og aukning í mætingu

Orðlof og annað

Norsk örnefni á Íslandi

Herðubreið á Mývatnsöræfum er talið eitt fegursta fjall á Íslandi og var fjallið kjörið þjóðarfjall Íslendinga árið 2002, á alþjóðlegu ári fjallsins. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum 1682 m á hæð, og Herðubreið við Eldgjá, 812 m, sunnan Skuggafjallakvíslar og Ófærufoss í Skuggafjallagjá. 

Fjallið Herdabreida er einnig að finna við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem einna flestir landnámsmenn virðast hafa komið, og eru nokkur líkindi með fjöllunum þótt fjalladrottningin sé mun tignarlegri.

Norsk örnefni á Íslandi og torræð örnefni í Eyjafirði.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Hann segir þó að sem betur fer hafi grafan í gær ekki framið neinar skemmdir á landsvæðinu heldur aðeins lagað hluta vegarins.

Frétt á frettabladid.is.      

Athugasemd: Hér er skrýtilega frá sagt. Til að lesendur átti sig á þessu er tilvalið að setja skófla í stað gröfu. Þá yrði málsgreinin svona:

Hann segir þó að sem betur fer hafi skóflan í gær ekki framið neinar skemmdir á landsvæðinu heldur aðeins lagað hluta vegarins.

Grafa skemmir ekkert frekar en skófla, hrífa, hamar eða önnur verkfæri. Veldur hver á heldur, segir málshátturinn. Fólk stjórnar verkfærum og getur byggt upp eða valdið skemmdum.

Svo er það hitt, að „fremja skemmdir“. Sagnir eru á stöðugu undanhaldi í fréttum og flóttann rekur nefnifallsdraugurinn. Af hverju má ekki segja að stjórnandi gröfunnar hafi ekkert skemmt? Er það ekki einfaldara, skiljanlegra og rökréttara?

Tillaga: Hann segir þó að sem betur fer hafi stjórnandi gröfunnar ekki skemmt neitt í gær heldur lagað hluta vegarins.

2.

„Kallað var á björg­un­ar­sveit­ir og sjúkra­flutn­inga­menn um hálf­sjöleytið í kvöld vegna slasaðs ein­stak­lings í Finnafirði.

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Einstaklingurinn sem slasaðist er án efa maður. Karlar og konur eru menn. Í fréttinni kemur fram að sá slasaði er ferðamaður. Líklega kynlaus …

Í fréttinni segir líka:

Að sögn Davíðs Más Bjarna­son­ar hjá Slysa­varn­ar­fé­lag­inu Lands­björg eru viðbragðsaðilar ný­komn­ir á vett­vang en bera þurfti hinn slasaða ein­hverja vega­lengd að sjúkra­bíl.

Enginn veit hvað viðbragðsaðili er. Samkvæmt fréttinni eru það ekki björgunarsveitarmenn. Hugsanlega slökkviliðið, fólk af næstu bæjum, vegfarendur. Af hverju eru blaðamenn ekki nákvæmari en þetta í skrifum sínum?

Þessi frammistaða blaðamannsins er eins og að kalla seljendur fíkniefna söluaðila, sem er án efa réttnefni. Eða innflytjendur umboðsaðila. Eða akandi, gangandi, hjólandi, hlaupandi skokkandi fólk umferðaraðila. Þá getur frétt verið svona:

Söluaðilar umboðsaðila falbuðu vöru sína meðal umferðaraðila.

Þetta heitir að vera nákvæmur fréttaaðili fjölmiðlaaðilarekstri. Eða hitt þó heldur.

Loks verður að nefna að sá slasaði var borinn „einhverja“ vegalengd. Má vera að það sé ekki rangt en skýrara hefði verið að segja að bera hafi þurft manninn nokkra vegalengd.

Tillaga: Kallað var á björg­un­ar­sveit­ir og sjúkra­flutn­inga­menn um hálf­sjöleytið í kvöld vegna slasaðs manns í Finnafirði.

3.

„Skráðum atvikum á Landspítala hefur fjölgað um 7,6% á milli ára á sama tíma og alvarlegum atvikum hefur fækkað úr sjö atvikum í þrjú.

Frétt blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 27.6.2019.       

Athugasemd: Hér er allt í atvikum, þrjú slík í einni málsgrein sem er tveimur of mikið. Þetta kallast tugga, tuð, jórtur eða nástaða og er óþægilega algeng hjá blaðamönnum sem og öðru textagerðarfólki. 

Nástaða er ljót, eyðileggur stíl og skemmir fyrir lesendum. Vandinn er sá að margir skrifarar gera sér ekki grein fyrir nástöðu en þeir sem það gera forðast hana eins og heitan eldinn. Lausnin er að skrifa sig framhjá henni og það er holl aðferð og bætir skrifin margfalt.

Svo er það hitt. Atvik er nafnorð í hvorugkyni og merkir atburður, eitthvað sem gerist. Í ofangreindri tilvitnun er atvik notað sem neikvæður atburður sem er rangt: „Skráðum atvikum …“ Merkingin er mistök, óhöpp eða annað sem veldur skaða og kemur orðalagið frá Landspítalanum.

Þetta er svona álíka eins og að kalla umferðarslys atvik. Tilbúið dæmi:

Umferðaratvik varð á Selfossi þegar ekið var á gangandi mann og hann slasaðist.

Ferðaatvik varð í Esju er maður snéri sig á fæti.

Þetta gengur ekki. Við getum ekki leyft okkur að breyta tungumálinu einhliða. Í svona umræðu verður að gera greinarmun á slæmum eða neikvæðum atvikum frá öllum öðrum atvikum sem vissulega geta verið bæði hlutlaus og jafnvel ánægjuleg.

Á malid.is segir:

atvik nafnorð hvorugkyn, eitthvað sem gerist, atburður

atvikið átti sér stað um miðja nótt

þau rifjuðu upp mörg spaugileg atvik úr ferðalaginu

<sjúklingnum líður> eftir atvikum

honum líður vel miðað eðli veikindanna

Atvik er gott og gilt orð en eins og fram kemur hér fyrir ofan þarf að skýra atvikið á einhvern hátt. Það má ekki merkja eitthvað slæmt eins og spítalinn gefur sér.

Tillaga: Neikvæðum atvikum skráðum á Landspítala hefur fjölgað um 7,6% á milli ára. Um leið hefur þeim alvarlegu fækkað úr sjö í þrjú.

3.

„Það var ákveðið að loka vega­slóðanum að Sauðleysu­vatni í friðland­inu að Fjalla­baki.

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Slóði er nafnorð í karlkyni og vegaslóði einnig og er hvort tveggja haft um lélega vegi eða vegatroðninga. Orðinu má ekki rugla saman við kvenkynsnafnorðið slóð og merkir spor eða för.

Ég hefði hins vegar orðað þetta dálítið á annan veg, sjá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Ákveðið hefur verið að loka vega­slóðanum að Sauðleysu­vatni í friðlandinu að Fjalla­baki.

4.

„… aukning er í mætingu á völlinn.

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Sagt er að áhorfendum hafi fjölgað á fótboltaleikjum og er það vel enda er íþróttin heillandi. Hins vegar er það tóm della að segja að „aukning hafi orðið í mætingu á völlinn“. 

Hér hefur nafnorðasýkin heltekið blaðamanninn sem kann ekki að koma orðum að svo sjálfsagðri staðreynd að áhorfendur hafi fjölgað. Hvernig skyldi hann hafa orðað það ef áhorfendum hafi fækkað? … minnkun er í mætingu á völlinn“?

Margt fleira er gagnrýnisvert við fréttina. Í henni er meiri áhersla á orð en efni. Svona byrjar fréttin:

Pepsi Max-deild karla er að ná fyrri styrk, eftir mögur ár í efstu deild karla, er varðar gæði innan vallar og mætingu, er deildin aftur í sókn. 

Í tilvitnuninni er fullyrt að Pepsi Max-deild karla sé í efstu deild karla sem er bull því efsta deild hefur fyrrnefnda nafnið. Og svo þetta: „… er varðar gæði innan vallar og mætingu“. Þetta er bara orðahnoð, leirburður.

Stundum er það ekki gott fyrir félögin og leikmenn sem hefur verið farið silkihönskum í mörg ár …

Hvað er það „sem hefur verið farið silkihönskum“ í mörg ár. Þetta er ófullgerð málsgrein, gjörsamlega óskiljanleg því blaðamaðurinn kastar til höndunum og enginn les yfir.

Það er að hjálpa Pepsi Max-deild karla mikið hversu stór nöfn spila nú í deildinni …

Sem kunnugt er leikur fólk fótbolta, ekki nöfn. Þetta er afar kjánalegt orðalag en átt er við að þekktir landsliðsmenn séu komnir frá útlöndum og leiki nú með íslenskum liðum. Af hverju segir blaðamaðurinn: „Það er að hjálpa ...“ en ekki það hjálpar.

… óvænt úrslit úti um allt. 

Blaðamaðurinn er ekki barn að segja frá fótboltaleikjum heldur fullorðinn maður. Þá kröfu verður að gera til blaðamanna að þeir kunni að orða hugsun sína. Hann gæti sagt að oft hafi útslit leikja verið óvænt.

Ótrúlegar endurkomur hafa sést og þegar fólk mætir á völlinn er erfitt að lesa í úrslitin áður en flautað er til leiks.

Hvað eru endurkomur? Hvað eru endurkomur sem sjást? Eru til endurkomur sem ekki sjást? Hafa úrslit leikja nokkurn tímann verið fyrirsjáanleg? 

Svona skrif eru tóm endaleysa og þeim fylgir að íslenskt mál, stíll og framsetning skipti ekki máli. Staðreyndin er samt sú að skemmdar fréttir hafa áhrif á lesendur, sérstaklega þá yngri því boðskapurinn er sá að allt sé leyfilegt. 

Hvernig væri nú fótboltinn ef ekki væru reglur sem fara þarf eftir?

Tillaga: … áhorfendum á fótboltaleikjum fjölgar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband