Kalla eftir, horfa til og afhjúpa eða upplýsa

Orðlof og annað

Nýleg nýyrði

Það eru ekki aðeins tækninýjungar sem þurfa ný orð, samfélagsbreytingar leiða einnig til þess að mynduð eru nýyrði. Orðið útrásarvíkingur kemur fram 2008 og á síðustu mánuðum hefur mikið verið rætt um aflandskrónur.

Í kjölfar stóraukinnar ferðamennsku bættist nýyrðið lundabúð við orðaforðann og nýjungar í mataræði hafa líka skilað ýmsum nýyrðum, svo sem steinaldarfæði og lágkolvetnafæði.  [...]

Sumum nýyrðum er ætlað að leysa af hólmi orð sem þykja ekki hæfa vönduðu máli. Emoji, hinar litlu myndir sem snjallsímanotendur nota til að tjá það sem orð fá ekki lýst, hafa fengið íslenska heitið tjámerki.

Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sir Alex biðlar til Man. United.

Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Varla er maðurinn á biðilsbuxunum en látum það nú vera. Á vefnum Skysports segir í fyrirsögn um sama mál:

Sir Alex Ferguson urges Man United to appoint Steve Walsh in consultancy role.

Íslenska blaðamanninn skortir orð. Hann þýðir enska orðið „urge“ sem sögnina að biðla á íslensku. Allt bendir þó til að Alex Ferguson sé að hvetja fótboltafélagið til að ráða þennan mann.

Tillaga: Sir Alex hvetur Man. United til að ráða Steve Walsh

2.

„… manni rænt ásamt dóttur sinni.

Dagskrárkynning kl. 19.35 í Ríkissjónvarpinu 19.6.2019.         

Athugasemd: Á hlaupum heyrði ég dagkrárkynni segja þetta í Sjónvarpinu. Þetta er ekki rétt.

Tillaga: … manni rænt ásamt dóttur hans.

3.

„Man. United horf­ir til Norwich.

Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Ekkert er að því að orða það þannig þegar einhver lítur til annars með ákveð markmið í huga. Sú er merkingin á að horfa til einhvers.

Hins vegar er eitthvað að þegar orðalagið er notað þrisvar í örstuttri frétt. 

  1. Man. United horf­ir til Norwich.
  2. For­ráðamenn Manchester United horfa nú til Norwich …
  3. Leikmaður­inn sem United horf­ir til er …

Í fréttinni segir:

Leikmaður­inn sem United horf­ir til er hinn 19 ára gamli Max Aarons …

Orðalagið er enskuskotið. Betur fer á því að segja:

Leikmaður­inn sem United horf­ir til er Max Aarons 19 ára gamall …

Í fréttinni segir:

Hann er landsliðsmaður U19 ára liðs Eng­lands og er sagður passa vel í nýja leik­manna­stefnu á Old Trafford að sækja unga Breta til fé­lags­ins.

Þetta er ekki fullkláruð málsgrein og frekar klúðursleg. Eitthvað vantar í síðustu setninguna sem er svokölluð innskotssetning. Þarna þyrfti að setja kommu á eftir Trafford eða eitthvað annað. Skárra er þó þetta:

Hann er í U19 ára landsliði Eng­lands og er sagður passa vel í nýja leik­manna­stefnu á Old Trafford en í henni felst meðal annars að ráða unga Breta til fé­lags­ins.

Efnislega er hins vegar dálítið kjánaleg málsgrein.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Jakob sagður eiga að skammast sín af Elínu.

Fyrirsögn á dv.is.         

Athugasemd: Þessi fyrirsögn skilst illa. Hún gengur ekki upp. Má vera að Jakob eigi að skammast sín fyrir Elínu eða Jakob eigi að skammast sín vegna Elínar eða Elín vilji að Jakob skammist sín. Hvernig sem reynt er að botna í fyrirsögninni er ljóst að hún er tómt bull. 

Í heild sinni er fyrirsögnin svona:

Jakob sagður eiga að skammast sín af Elínu „Jakob Frímann. Þú ert mengaður. Mengaður af fordómum, þekkingarleysi og fyrirlitningu“

Blaðamaðurinn virðist ekki hafa hugmynd um hvað fyrirsögn er. Skynsamir blaðamenn myndu skipta henni í yfir og undirfyrirsögn, sjá tillöguna. Í það minnsta vantar einn punkt. 

Hins vega er furðulegt að DV skuli leyfa sér að að birta meiðandi og ruddalega umsögn. Skiptir engu þó viðmælandinn hafi rétt fyrir sér, fjölmiðillinn verður að fylgja ákveðnum siðareglum í þessum efnum. Hvorki er ástæða til að ofbjóða lesendum né þeim sem um er rætt. Það er einfaldlega ljótt. 

Vafasamt er að endurbirta meiðandi ummæli sem finnast á samfélagsmiðlum. Það er ekki góð blaðamennska.

Tillaga: Elín segir að Jakob eigi að skammast sín - Þú ert mengaður af fordómum, þekkingarleysi og fyrirlitningu.

5.

„Kevin Costner afhjúpar 27 ára gamalt leyndarmál á bak við hið fræga Bodyguard-plakat.

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Hvað merkir sögnin að afhjúpa? Leikarinn Kevin Costner gerði ekkert annað en að segja frá því sem gerðist. Hann afhjúpaði ekkert heldur upplýsti, sagði frá.

Sá sem skrifar áttar sig ekki á blæbrigðum málsins, notar orð sem ekki hæfir í frásögninni. Í heimildinni, Entertainment, stendur ekkert um afhjúpun á leyndarmáli. Afhjúpun er bara uppspuni hjá blaðamanninum.

Tillaga: Kevin Costner segir frá leyndarmálinu um fræga Bodyguard-plakatið.

6.

„Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands og leiðtogaefni Íhaldsflokksins kallaði eftir því að keppinautur hans í leiðtogakjörinu, Boris Johnson, skorist ekki undan því að mæta í kappræður í sjónvarpssal nú í vikunni.

Fréttir á visir.is.          

Athugasemd: Þetta er of löng og í þokkabót skrýtin samsetning. „Kalla eftir því að Boris skorist ekki undan …“. Málsgreinina hlýtur að vera hægt að einfalda.

Hvað þýðir að „kalla eftir“ einhverju? Þetta er eitt vinsælasta tískuorð blaðamanna sem þýða án hugsunar beint úr ensku orðasambandið „to call for“.

Á íslensku merkir sögnin að kalla að hrópa, hrópa á, það er að hækka röddina. Nú kalla allir eftir breytingum, svörum eða öðru þegar merkingin er sú að verið er að heimta, krefjast eða hvetja til breytinga.

Don’t be a dick, Boris“, sagði einhver á netinu. Bein þýðing á íslensku væri ekki alveg það átt er við.

Athygli vekur að blaðamaðurinn kallar Hunt leiðtogaefni en ekki Johnson. 

Tillaga: Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands skoraði á keppinaut sinn í leiðtogakjörinu, Boris Johnson, fyrrum utanríkisráðherra, að mæta í kappræður í sjónvarpssal nú í vikunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband