Dómsigur banns Trumps, kíkja á fossa, og viðvarandi skúrir
19.6.2019 | 10:08
Orðlof og annað
Hvert stefnir íslenskan?
Ég fór í Bónus á dögunum og kom á afgreiðslukassann og segi við drenginn sem stimplaði inn að ég ætlaði að fá þetta hvorutveggja. Hann kallar í næsta afgreiðslumann. Siggi er hvorutveggja bæði?
Þá var ég á ferð í fyrra og kom á þekktan veitingastað norðan heiða. Ungur maður stóð við afgreiðsluborðið. Can I help you? Ég segi á íslensku Já, takk, en er ekki einhver á þessum bæ sem talar íslensku?
Afgreiðslumaðurinn snarar sér inn í eldhús og kemur að vörmu spori. Get ég aðstoðað herrann?
Húmorinn í lagi hjá þessum unga manni en hvert stefnir íslensk tunga þegar Íslendingar eru ávarpaðir á erlendri tungu í sinni heimasveit?
Arnór Ragnarsson, grein í Morgunblaðinu 11.6.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Dómsigur fyrir bann Trump við transfólki í hernum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Skilur einhver þessa fyrirsögn? Málfræðilega er hún rétt og engin stafsetningavilla. Er þá ekki allt gott? Nei, hér vantar smáræði sem kallast rökrétt hugsun. Sigraði bann Trumps fyrir rétti eða var það staðfest?
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Í dag hafa Armstrong og Hansen verið í Húsafelli og samkvæmt Instagram-reikningi hans fóru þau meðal annars og kíktu á Hraunfossa.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Útlendingar kíkja einatt á hina og þessa staði á landinu ef marka má blaðamenn. Sögnin að kíkja merki ekki að skoða. Á malid.is segir meðal annars:
Kíkja s. (17. öld) gægjast, horfa í kíki. To., sbr. nýnorska og sænska kika, danska kige [ ] Líklega sk. keikur og kikna og upphafl. merk. að beygja sig eða reigja til að sjá betur. Sjá kíkir og kikka.
Í daglegu tali er sögnin að kíkja fyrst og fremst höfð um að koma stuttlega við, horfa í gegnum kíki, skoða laumulega og álíka. Orðið er frekar ofnotað, er tískuorð og frekar leiðinlegt sem slíkt.
Svo er það þetta orðalag sem er dálítið ruglað: Fóru meðal annars og kíktu ... Eru þrjú fyrstu orðin ekki óþörf?
Enska orðið account getur þýtt reikningur. Accountant þýðir bókhaldari og accounting er reikningshald, það er bókhald og gerð ársreiknings og fleira.
Mér finnst alveg ótækt að áskrift mín að Instagram eða Facebook sé kölluð reikningur. Lýsi hér með eftir gegnsærra orði.
Tillaga: Í dag hafa Armstrong og Hansen verið í Húsafelli og samkvæmt Instagram-áskrift hans skoðuðu þau Hraunfossa.
3.
Viðvarandi skúrir.
Veðurfréttir kl. 22 í Ríkissjónvarpinu 18.6.2019.
Athugasemd: Lýsingarorðið viðvarandi er hrein og klár danska sem hefur náð góðri fótfestu í íslensku máli. Danska orðabókin segir um orðið:
[Vedvarende] som består til stadighed fx om uudtømmelige energiformer som solenergi og vindenergi
Á malid.is segir:
sem varir lengi, sem erfitt er að losna við
Nafnorðið skúr, sem er í kvenkyni og er í merkingunni regn sem stendur stutt yfir, er svolítið vandmeðfarið. Því má ekki rugla saman við karlkynsorðið skúr sem merkir lítil og óvönduð bygging sem einkum er notuð til geymslu. Að vísu eru til bílskúrar sem yfirleitt eru traustlega byggðir.
Skúrin, regnskúrin, beygist svona í eintölu: Skúr, skúr, skúr til skúrar. Í fleirtölu: Skúrir, skúrir, skúrum, til skúra.
Skúrinn, hjallurinn, beygist svona í eintölu: Skúr, skúr, skúr, skúrs. Í fleirtölu: Skúrar, skúra, skúrum, skúra.
Dæmi:
- Skúrin féll á skúrinn.
- Þau stóðu af sér skúrirnar í skúrunum.
- Hann tafðist vegna skúrarinnar.
- Þau töfðust vegna skúranna.
- Á morgun verður leiðinda skúraveður.
- Ekki hlakka ég til þessara skúraveðra.
Einsleitni tungumálsins er fjölbreytileg ... eða þannig.
Tillaga: Skúraveður.
4.
Haffærisskírteini líka komið fljótlega.
Undirfyrirsögn á blaðsíðu 8 í Morgunblaðinu 19.6.2019.
Athugasemd: Er orðaröðin ekki dálítið skrýtin í þessari setningu? Svo virðist sem orðin hafi farið á flakk því svona talar varla nokkur maður.
Tillaga: Haffærnisskírteinið kemur líka fljótlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Facebook
Athugasemdir
Algengasta setning á Íslandi í dag er: Englis plís!!!
Sigurður I B Guðmundsson, 19.6.2019 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.