Akkúrat núna og lekkerir tónar

Orðlof og annað

Betri íslenska

Þeim sem spyrja hvernig eigi að tala betri íslensku er venjulega bent á að lesa sem mest, og lestur er mikilvægur á margan hátt. 

Af lestri lærir fólk ný orð og orðasambönd og hvernig eigi að nota þau, áttar sig á ýmsum merkingarblæbrigðum orða og orðasambanda sem það þekkir fyrir, og fær tilfinningu fyrir málsniði – hvað á saman, hvað tilheyrir hverri stíltegund, hvað á við í tilteknum aðstæðum.

Kristinn Schram, Vísindavefurinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er stödd á Íslandi akkúrat núna.

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ég er viss um að sami blaðamaðurinn og skrifaði ofangreinda setningu er sá sami og skrifaði „akkúrat núna“ í frétt í Morgunblaðinu 10. júní 2019, sjá hér (athugasemd númer 6). Í henni segir:

Akkúrat núna höfum við fundið 95 óbreytta borgara látna …“

Um svona vill skrifari segja þetta:

  1. Eitt er að bulla með slettu, annað er að gera það oft (athugið ég nota ekki tískuorðið „ítrekað). 
  2. Vont er þegar sá sem þetta gerir er blaðamaður. 
  3. Enn verra er að vera samstarfsmaður blaðamannsins og hafa ekki sagt honum til. 
  4. Verst af öllu er að vera ritstjóri eða ritstjórnarfulltrúi á fjölmiðlum og hafa ekki komið auga á bullið og veitt blaðamanninum vinsamlegt tiltal.

Já, það er vandratað í henni veröld. En hver þessi fyrirsæta er veit ég ekki né heldur hvað ofurfyrirsæta er. Hins vegar veit ég hvað hetja er og ofurhetja en sú vitneskja er úr „súpermanbíómyndum“.

Tillaga: Rúss­neska of­ur­fyr­ir­sæt­an Ir­ina Shayak er núna stödd á Íslandi.

2.

17 frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Af hverju getur blaðamaðurinn ekki skrifað töluna sautján með bókstöfum? 

Í Morgunblaðinu 13. júní 2109 segir á blaðsíðu 34, undir millifyrirsögn:

14 árum síðar, þegar Anna María var orðin þekkt leik- og söngkona …

Af hverju ekki fjórtán árum síðar eða um 14 árum síðar, rúmlega eða tæplega? Líklega eru sumarstarfmennirnir teknir til óspilltra málanna á Mogganum. Leiðbeinir enginn byrjendum? 

Hvergi tíðkast að byrja setningu á tölustöfum, í flestum tungumálum er varað við því. Af hverju: Vegna þess að þeir eru allt annars eðlis en bókstafir og oftast til annarra hluta nytsamlegri. Á eftir punkti kemur stór upphafsstafur, þetta er reglan í flestum tungumálum. Tölustafir eru alltaf eins, eru eins og aðskotahlutir, gefa ekki það sama til kynna og bókstafir.

Ég hef haft það fyrir reglu að skrifa lágar tölur í bókstöfum, það er aðrar en dagsetningar. Margir miða við lægri tölur en eitt hundrað en aðrar með tölustöfum. Þetta veltur á smekk.

Tillaga: Sautján frum­vörp hafa verið af­greidd á Alþingi í dag, öll með mikl­um meiri­hluta at­kvæða.

3.

„Þurrkur skapar vanda á vegum á Suðurlandi og rykið er eins og jóreykur í kúrekamynd.

Frétt á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu 12. júní 2019.          

Athugasemd: Margir góðir blaðamenn starfa á Morgunblaðinu meðal þeirra er sá sem þekkir orðið jóreykur. Hann veit að jór er gamalt heiti og merkir hestur. Þegar einn eða fleiri hestar hlaupa á þurru landi þyrlast upp ryk. Forðum og jafnvel enn er það nefnt jóreykur, að vísu ryk, ekki reykur.

Alltaf ánægjulegt að lesa góðan texta.

Tillaga: Engin tillaga

4.

„Ljós­ir og lekk­er­ir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hér er ekki verið að tala um tónleika í íbúð, hugsanlega liti á veggjum og jafnvel húsgögnum. Því miður er engin skýring á „tónunum“. Svona er nú sérfræðitalið orðið sérfræðilegt að einfaldur lesandi áttar sig ekki á „fréttinni“.

Hér áður fyrr var allt „lekkert“, jafnvel „gasalega lekkert“. Sérstaklega föt og hárgreiðsla kvenna, húsgögn og annað mikilvægt. Síðan fór vegur þessarar slettu hnignandi sem og mörg önnur á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Enginn amast við því. 

Þegar einhver segir eitthvað vera „lekkert“ þykir það ótrúlega gamaldags („retró“) og bendir aðallega til þess að sá sem notar orðið sé nokkuð við aldur.

Orðið hefur ábyggilega borist hingað úr dönsku. Á Wiktionary segir um ættfræði orðsins:

From Middle Dutch lecker, derived from the verb lekken (“lick”) (Dutch likken). Cognate to German lecker, Afrikaans lekker, Middle Low German lecker, Norwegian lekker, Swedish läcker and Danish lækker.

Líklega lifir þetta orð ágætu lífi í þessum tungumálum þó úr þrótti þess dragi hér.

Tillaga: Ljós­ir og snotrir tón­ar eru áber­andi í íbúðinni …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband