Stunda fjármagn, edrúmennska og þyrla sem kemur flugleiðis

Orðlof og annað

Gjöf Njarðar

Það er galli á gjöf Njarðar. Einhverju góðu fylgir ókostur, það er hængur eða agnúi á einhverju (góðu, jákvæðu).

Líkingin er óljós en Njörður var sjávargoð og gjöf Njarðar kann að vísa til þess sem kemur úr sjónum, einhvers jákvæðs (´fiskveiði´).

Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þar að auki stýrði hann nefnd sem stundaði fjármagn fyrir forsetann ...“

Frétt á visir.is.           

Athugasemd: Hvað merkir að „stunda fjármagn“. Annað hvort er þetta dæmi um fljótfærni blaðamannsins eða einfaldlega rugl. Hvorugt er gott. Fréttin er skemmd. Vonlaust er að skilja hvað átt er við í þessari tilvitnun. Engin afsökun er fyrir svona villum.

Síðar var málsgreinininni breytt á þennan hátt:

Þar að auki stýrði hann nefnd sem aflaði fjár fyrir forsetann ...

Skiljanlegra svona.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„„Ég er að vinna í leikhúsinu og get þakkað það edrúmennskunni.“

Viðtal á blaðsíðu 14 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25.5.2019.          

Athugasemd: Lýsingarorðið edrú hefur fyrir löngu náð tryggri fótfestu í íslensku máli þó svo að það falli ekki alveg að því. Það merkir að vera ódrukkinn. 

Edrúmennska finnst mér vont orð af því að málið býður upp á betri, að vera allsgáður. Hér er ekki verið að gagnrýna viðtalið sem er vel skrifað og fróðlegt. Vel á hins vegar við að benda á aðra kosti. Sama er með orðið spilamennska, sem þó er ekki rangt:

Í gegnum öll þessi ár í spilamennskunni, óreglu og ferðalög …

Í staðinn hefði verið betra að nota tónlist, sem á alls kostar við spilamennska.

Í gegnum öll þessi ár í tónlistinni, óreglu og ferðalög …

Allsgáður er afskaplega fallegt orð og getur örugglega átt við ýmislegt annað en að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna til dæmis að hafa vitund um tilveruna.

Algáður er líka gott orð og líklega dálítill merkingarmunur geti verið á þessum tveimur, allsgáður og algáður. Ég leyfi mér að halda því fram að svo sé.

Hið fyrr nefnda getur átt við þann sem er gáður um alla hluti en hitt um þann sem hefur vitund um veröldina alla eða bara um einstaka hluti. Má vera að trésmiðurinn sé allsgáður um smíðavið, heimspekingurinn algáður um dyggðir, göngumaðurinn algáður um náttúruna, lögreglumaðurinn allsgáður um öryggi, lög og reglur  … Líklega er þetta bara vitleysa.

Lítum á hvernig orðið er myndað. Orðabókin segir að sá sé gáður sem er með fullri eða íhygli (sögnin að íhuga, lýsingarorðið íhugull), tvö önnur undurfögur orð. 

Í viðtalinu segir:

En þetta heflaði mig. 

Hér er vel að orði komist. Viðmælandinn talar um það sem mótar hann og notar líkingu við verkfærið hefil, aðstæður hefluðu hann, fjarlægðu það sem var til óþurftar. Athyglisvert orðalag.

Af hverju beitum við ekki oftar orðum sem eru góð eða jafnvel þrungin djúpri merkingu? Hvers vegna föllum við niður í meðalmennsku í stað þess að hefja okkur upp yfir hana og nýta okkur tungumálið til skýrari tjáningar? 

Svarið er einfalt. Fjölmargir þeirra sem skrifa í fjölmiðla hafa ekki grunninn, tilfinningu fyrir íslensku máli sem fæst aðeins með lestri bóka frá barnæsku og góðri tilsögn í skóla.

Fjölmiðlar hafa áhrif, ekki aðeins til upplýsingar heldur skiptir stíll, frásagnarhættir miklu. Já, hægt er að segja frá á margvíslegan hátt.

Tillaga: Ég er að vinna í leikhúsinu en gæti það ekki allsgáður og fyrir það er ég þakklátur.

3.

„Henni var síðan bjargað flug­leiðis með þyrlu í gær …

Frétt á mbl.is.          

Athugasemd: Hafi þyrla bjargað konunni er óþarfi að tíunda að það hafi verið gert flugleiðis. Þyrla er flugvél, ekki sjúkrabíll. Varla er þyrlu beitt nema úr lofti, flugleiðis.

Ólíklegt er að við segjum er að sjúkrabíll hafi komið akandi til bjargar eða björgunarskip aðstoðað skipreika fólki af sjó. Einfalt mál er oftast best og engin þörf að margtyggja það sem liggur í augum uppi.

Í þessari stuttu frétt segir:

Ell­en náði í tvær vik­ur að lifa ein­ung­is á berj­um og vatni.

Þetta er ekki rangt en einnig má orða það þannig að henni hafi tekist að þrauka í tvær vikur á berjum og vatni, sem líklega var raunin.

Gagnrýna má er blaðamaður notar aukasetningu sem er í litlu samhengi við aðalsetningu. Þá er betra að nota punkt:

Henni var síðan bjargað flug­leiðis með þyrlu í gær og sam­kvæmt CNN leið henni vel þrátt fyr­ir meiðsl sín. 

Skárra er að orða þetta svona:

Henni var síðan bjargað með þyrlu í gær. Sam­kvæmt CNN leið henni vel þrátt fyr­ir meiðsli.

Punktar eru ansans ári góðir og engin þörf á að spara þá.

Tillaga: Henni var síðan bjargað með þyrlu í gær …

4.

„Zidane vill Van Dijk rói Ramos á önnur mið.

Fyrirsögn á visir.is.           

Athugasemd: Oft er betra er að skrifa án orðtaka því þau geta valdið misskilningi eins og hér. Ég skildi ekki þetta, hélt að um einhverja villu væri að ræða enda rann þetta saman í ókennilega merkingu. Þessir kostir voru uppi:

  • Hann ætlaði að róa manninn á öðrum miðum.
  • Hann ætlaði að róa með hinn út á mið
  • Hann ætlaði að róa hinn.

Svo áttaði ég mig á að þetta var bölvuð vitleysa. Svona getur gerist þegar maður er hálfáhugalaus, lætur augun renna yfir fyrirsagnir á forsíðu vefrita og þá kann samhengið að fara fyrir lítið. 

Í fréttinni segir:

Van Dijk hefur verið stórkostlegur á tímabilinu hjá Liverpool sem mætir Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um síðustu helgi.

Blaðamaðurinn er fljótfær og hann les ekki frétt sína yfir, að minnsta kosti ekki með athygli. Úrslitaleikurinn er um næstu helgi, ella þyrfti sögnin að mæta að vera í þátíð. Þó væri það áhugavert að geta farið aftur í tímann til að fylgjast með fótbolta eða öðru álíka þarflegu.

Annars finnst mér afar flatt og slappt orðalag að maðurinn hafi verið stórkostlegur á leiktíðinni. Frekar svona gildishlaðin fullyrðing án rökstuðnings, en líklega leyfist íþróttablaðamönnum að orða hugsun sína svona.

Til dæmis myndi enginn blaðamaður komast upp með að segja að stjórnmálamaður hafi verið stórkostlegur á þingi.

Tillaga: Zidane vill ráða Van Dijk fari Ramos.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband