Eitt matvæli, þröngur veðurgluggi og hundruðir milljóna
24.5.2019 | 13:28
Orðlof og annað
Harla gott
Maður sagði málfarir sínar ekki sléttar. Hafði notað orðasambandið harla gott og verið vændur um bull. Hafði svo komið til snarprar deilu, þótt hvorugur snýtti rauðu.
En harla merkir mjög, afar, er bráðskylt harður enda líka rit- að harðla. Og stigbeygist, flestum til furðu: harla, fremur, fremst!
Málið á blaðsíðu 21 í Morgunblaðinu 24.5.2019.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Hún sleppir þessu matvæli til að fá flatan maga.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Gvöð, hveddnig getur bla´maðurinn kligað á´essu.
Matvæli er hvorugkyns orð og ekki til í eintölu, nefnist fleirtöluorð. Það beygist svona:
Matvæli, matvæli, matvælum, matvæla.
Blaðamaðurinn á að vita þetta en ekki dreifa skemmdum fréttum.
Í fréttinni er kona nefnd stjörnutálgari. Útilokað er að vita hvað átt sé við með orðinu.
Loks á nefna þennan vísdóm sem hafður er eftir stjörnutálgaranum:
Ef þú grennist þá hjálpar það við að minnka fituna á maganum.
Dsísös, minnkar fita þegar mar grennist? Hveddnig gat ég ekki vetað´dda?
Afsakið orðbragðið.
Tillaga: Hún sleppir þessum matvælum til að fá flatan maga.
2.
Þröngur veðurgluggi veldur röð á tindinn.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Veðurgluggi er óheppilegt orð en á hér uppruna sinn í ensku þó vel megi vera að það sé Wetterfenster á þýsku eða Fenêtre météo á frönsku svo maður slái nú ódýrt um sig.
A limited interval when weather conditions can be expected to be suitable for a particular project, such as laying offshore pipelines, reaching a high mountain summit, launching a satellite, etc.
Í stuttu máli er orðið haft um stutt hlé frá lakari veðuraðstæðum sem nota má til dæmis til að komast á fjallstind eða skjóta upp gervihnetti og svo framvegis.
Í fréttinni er talaðu um þrönga veðurglugga, það er í fleirtölu. Hællærislegast er þó þetta:
Hún segir veðurgluggann hafa komið seint þegar hún fór á tindinn, en hann hafi þá dreifst yfir miklu fleiri daga.
Af þessu má sjá að orðið hentar ekki íslensku máli því gluggar dreifast almennt ekki.
Mjög auðvelt er að tjá sig skilmerkilega án orðsins. Hingað til hefur verið talað um veðurhorfur.
Slæmt veður getur gengið niður, orðið hlé á óveðri, hríð eða rigningu og þá sætir fólk færis til að gera það sem ella hefði verið illmögulegt.
Ég hef stundað fjallaferðir í meira en fjörutíu ár, umgengist fjölda fjallamanna en aldrei nokkru sinni heyrt fólk tala um veðurglugga hér á landi. Ég vona innilega að þetta sé ekki eitthvert hráþýðing sem íslenskir fjallafarar sem farið hafa á hæstu fjöll í útlöndum nota til að slá um sig. Það væri svona heldur montrassalegt, afsakið orðalagið.
Hefði blaðamaðurinn ekki átt að fletta upp í orðabókinni? Fátt er auðveldara en að nota malid.is, hafa það opið við hliðina á textaskránni. Ég skrifa mikið og get varla verið án þess.
Tillaga: Röð er á tindinn vegna lakari veðurspár.
3.
Í dag er hún alræmd í frumkvöðla- og tæknigeiranum þar sem hún sætir ákæru fyrir fjársvik og tilraun til fjársvika.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Ástæða er til að hæla blaðamanninum sem skrifaði fréttina fyrir góða spretti í málfari. Hann skilur til dæmis að andorðið við frægð í jákvæðum skilningi er alræmdur.
Í fréttinni stendur:
Hann varði fjórum dögum í Kaliforníu þar sem hann ræddi ítarlega við Holmes
Í stað sagnarinnar að verja dögum sínum hefðu margir freistast til að orða það þannig að hann hafi eytt dögum í Kaliforníu. Á þessum tveimur orðum, að verja og eyða, getur verið feykilegur munur sem allir með þokkalega máltilfinningu átta sig á.
Sannast sagna eiga vel skrifaðar fréttir ekki að gleðja lesendur, þær eiga að vera það. Staðreyndin er þó sú að alltof margar fréttir eru illa skrifaðar og fjölmargar hreinlega illskiljanlegar. Þessi er ekki þannig.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
4.
Kókaínið metið á hundruði milljóna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Fallbeyging orða veldur sumum blaðamönnum engum vanda, þeir skrifa bara það sem þeir halda að sé rétt. Þekkingin er lítil.
Töluorðið hundruð beygist svona:
Í eintölu: Hundrað, hundrað hundraði, hundraðs.
Í fleirtölu: Hundruð, hundruð, hundruðum, hundraða.
Gera má ráð fyrir að á ritstjórn DV sé leiðréttingaforrit í tölvum blaðamanna. Engu að síður skrifar blaðamaðurinn rangt. Það bendir til að hann hafi ekki virkjað forritið sem telst ámælisvert því það er ekki verkefni fjölmiðla að dreifa málvillum.
Á malid.is segir:
- Hundrað: Athuga ber að í fleirtölu er nefnifallið ekki hundruðir, þolfallið ekki hundruði og eignarfallið ekki hundruða.
- Orðið hundrað er ýmist nafnorð í hvorugkyni (hundrað manna; ég mætti hundruðum manna á leiðinni) eða óbeygjanlegt lýsingarorð (hundrað manns; hundrað menn; ég mætti hundrað mönnum á leiðinni).
- Orðið hundrað skiptist þannig á milli lína: hund-rað. Hundruð skiptist þannig á milli lína: hund-ruð.
Á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran þetta:
Síðari liðurinn ræður var einnig notaður til þess að mynda tölulýsingarorð sem á sama hátt og orð sem enda á tugur segja til um aldur, hæð og dýpt. Talað er um áttræðan, níræðan og tíræðan mann ef viðkomandi er áttatíu, níutíu eða hundrað ára.
Einnig er talað um áttrætt, nírætt, tírætt, tólfrætt dýpi og er þá átt við hversu margir faðmar það er.
Viðliðurinn ræður er skyldur viðliðnum -rað í hundrað.
Svona þróaðist málið og verður loks til þess að við vitum ekki margt um orðin sem þó eru okkur svo töm.
Tillaga: Kókaínið metið á hundruð milljóna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.