Spila hlutverk, mikill vindur blæs og mikið ástand

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Öng, öngvit, engja …

Sögnin angra (sem merkir: hryggja, gera einhverjum til ama) er leidd af nafnorðinu angur (sem merkir: hryggð, sorg, iðrun), sem er skylt nafnorðinu öng (sem merkir: þrengsli, klípa), sbr. orðasambandið vera í öngum sínum (sem merkir: vera í vandræðum, vera hryggur). 

Til er lýsingarorðið öngur (sem m.a. merkir: þröngur) og af því eru leiddar samsetningarnar öngvegi (sem merkir: mjór stígur), öngvit (sem merkir: óvit, yfirlið), öngþveiti (sem merkir: þröng, ógöngur). 

Skyld þessum orðum er sögnin engja (sem merkir: þrengja, kreppa), sbr. orðasambandið engjast sundur og saman. 

Málfarsbankinn.

1.

Í bréfinu segir hún að sjö ára stelpa spilaði stórt hlutverk í því að hún hafi ákveðið að segja upp.

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Þetta er nú meira klúðrið. Í fyrsta lagi er orðalagið „að spila stórt hlutverk“ hreinlega kjánalegt. Litla stúlkan spilaði hvorki né lék hlutverk í einu eða neinu, hún var þess valdandi, olli þessu ...

Á dönsku hefði málsgreinin verið eitthvað þessu lík:

I brevet siger hun, at en syv årig pige spillede en vigtig rolle i beslutningen om at træde tilbage.

Orðalagið, „spille en rolle“ er danskt að uppruna og sómir sér ágætlega á því góða tungumáli. Á ensku er þetta bara ágætlega orðað á þennan hátt:

In the letter she says that a seven-year-old girl played a major role in deciding to resign.

En á íslensku gengur þetta ekki. Þeir sem skrifa í fjölmiðla eiga að vita þetta.

Tengingin við klisjuna og uppsögnina verður þarna frekar aum: „Spila hlutverki í því að …“ Hefur blaðamaðurinn enga tilfinningu fyrir íslensku máli?

Í fréttinni segir:

Hún gerði það mjög skýrt að hún vildi ekki lengur fá göt í eyrun.

Í frumtextanum á ensku segir:

She made it clear she no longer wanted to get her ears pierced.

Það verður að segjast eins og er að þó blaðamaðurinn kunni eitthvað í ensku er hann afleitur í íslensku, hreint ómögulegur. Rökin fyrir því eru fleiri. Hér er annað:

Þannig ég sagði hinum gataranum að ég ætlaði ekki að partur af því að gata eyrun á þessari stúlku. 

Þetta ekkert annað en rusl, skemmd frétt. Svona fréttir eru ekkert annað en dónaskapur við neytendur. Telur ritstjórnin að málfar sé aukaatriði?

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

Þó úti blési mikill vindur þá væsti ekki um fólk inni í nýrri hausaþurrkunarverksmiðju Lýsis, sem opnuð var í grennd við Þorlákshöfn síðdegis í gær.

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 13. Apríl 2019.              

Athugasemd: Gömlu veðurorðin eru óðum að týnast, blaðamenn virðast ekki þekkja þau, veðurfræðingar nota þau ekki og afleiðingin er sú að fleiri og fleiri tala um mikinn vind og lítinn vind eða eða eitthvað þar á milli.

Sjaldgæft er að heyra eða lesa í fjölmiðlum að úti sé logn, gola, kul, hvasst, stormur svo dæmi sé tekið. Þessi þróun er háalvarleg. Tungumálið verður fátæklegra og fjölbreytnin minnkar. Málið deyr smám saman út.

Víkjum að öðru. Sögnin að væsa er skemmtilegt orð, nokkuð mikið notað, en líklega vita fæstir merkinguna.

Á malid.is segir að sagnorðið væsa merkir að blása, kula. Þegar væsir um einhvern þá þýðir það að um hann næðir. Orðið tengist hollenska orðinu „waas“ sem merkir hrím eða lykt. 

Í orðsifjabókinni segir að væsa sé kvenkynsorð og er rakið til 17. aldar. Það merkir bleyta, vatnsrennsli, mosamýri, skýjað og fleira.

Tillaga: Þó hvasst væri úti fór vel um fólk í nýrri hausaþurrkunarverksmiðju Lýsis, sem opnuð var í grennd við Þorlákshöfn síðdegis í gær.

3.

Mikið ástand.

Fyrirsögn á vefsíðunni blika.is.               

Athugasemd: Þetta er erfitt að skilja. Ástand getur hvorki verið mikið né lítið. Við þurfum að vita nánar um málavexti. Ástand getur verið með ýmsu móti. Það getur verið gott eða slæmt, frábært eða ljótt.

Á Bliku er fjallað um veðrið á Keflavíkurflugvelli sem var slæmt, mjög hvasst, líklega stormur, illviðri. Farþegar komust ekki úr flugvélum sökum hvassviðris, því var ástandið slæmt, ekki mikið, nema það hafi verið „mikið slæmt“.

Ástand gróðurs á vorin er sjaldnast gott en það lagast. Ástandið á Nonna er ekki gott að morgni dags eftir næturlangt sukk, en það kann að skána þegar líður á daginn. Ástandið fyrir Miðjarðarhafsbotni er hættulegt. Ástand heilbrigðismála er frekar gott þó margt megi laga.

Tillaga: Slæmt ástand.

4.

Flugvélinni er ætlað að fljúga með gervitungl í 10 kílómetra hæð áður en gervitunglunum er sleppt og þau fara á sporbraut um jörðu.

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Illa samdar fréttir eru merki um hroðvirkni. Jafnvel tiltölulega reyndir blaðamenn á Vísi eyðileggja áhugaverðar fréttir vegna þess að þeir lesa ekki skrif sín yfir og stjórnendum vefsins er algjörlega sama.

Í ofangreindri tilvitnun er nástaða, tvítekning, sem er algjörlega óþörf. Svo segir að þau fari á sporbaug. Líklegra er þó að þeim sé sleppt á sporbaug um jörðu eða send þangað. Athugið að gervitungl hafa ekki sjálfstæðan vilja, eru vart útbúin gervigreind.

Þetta væri svona frekar saklaust ef ekki kæmi annað til í sömu frétt:

Merkisatburður átti sér stað í dag þegar flugvél með lengsta vænghaf í heimi var flogið í fyrsta skiptið.

Tilhneigingin er að lengja fréttir með tafsi og tuði. Þarna hefði mátt segja: Merkisatburður var í dag … Illskiljanlegt er að allt þurfi „að eiga sér stað“ þegar nota má einfalt orðalag, færri orð.

Flugvélinni er ætlað að fljúga með gervitungl í 10 kílómetra hæð áður en gervitunglunum er sleppt og þau fara á sporbraut um jörðu.

Ekki alveg rétt. Flugvélin flýgur með gervitungl, bókstaflega. Með sögninni að ætla opnast sá möguleiki að hún eigi að gera eitthvað annað, svona eins og strætó sem ætlað er að fara á Hlemm en gerir það ekki og en fer þess í stað á Lækjartorg.

Flugmaður vélarinnar var Evan Thomas sem tjáði fjölmiðlum eftir fyrstu ferðinni að það hefi verið mögnuð upplifun að fljúga þessari vél og að hún hafi látið að mestu undan stjórn eins og til var ætlast.

Hroðvirkni, fljótfærni eða getuleysi? Þetta er ónýt málsgrein, blaðamanninum til hnjóðs.

Stratolaunch vill meina að þetta sé stærsta flugvél í heimi …

Fyrirtækið fullyrðir ekki, staðhæfir, telur eða álítur. Nei, það „vill meina“.

Tillaga: Flugvélin mun flytja gervitungl í tíu kílómetra hæð og sleppa þeim á sporbraut um jörðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband