Valréttir, rakið með öldum, spes og til þriggja ára frambúðar ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Mót eða móti

Hvort er réttara: að steypa e-ð/allt í sama mót – eða móti með i-i? 

Stutt leit sýnir að flestum er mót tamara. 

Í Merg málsins er það hins vegar móti og rökstutt með því að um sé að ræða kyrrstöðu. Maður mótar (steypir) e-ð í móti (formi). En oft vægir vit fyrir venju.

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 26.3.2019.

1.

„New York Giants var hins vegar tilbúið að láta þennan vandræðagemling fara fyrir tvo varnarleikmenn og tvo valrétti.“

Fyrirsögn á visir.is.            

Athugasemd: Skilja má ofangreinda málsgrein svo að leikmaður í bandarískum fótbolta hafi verið seldur og fyrir tvo varnarleikmenn og … og hér vandast málið. 

Tveir valréttir? Hvað þýðir það. Fékk félagið sem seldi manninn tvær máltíðir á veitingastað að eigin vali?

Tillaga: Engin gerð.

2.

„Takk fyrir svörun þína.“

Forhannað svar frá Hagstofu Íslands.           

Athugasemd: Ég hef í nokkur ár verið á skrá hjá Hagstofu Íslands og fengið þaðan fréttir og upplýsingar í tölvupósti. Hef lengi tekið eftir því að þegar ég fæ loks póstinn hefur efni hans þegar verið gerð skil í fjölmiðlum. Sá þar af leiðandi ekki ástæðu til að marglesa það sama og sagði skráningunni upp í gær.

Eins og fleiri fyrirtæki og stofnanir þykist Hagstofan vita hvers vegna maður vilji ekki lengur fá póstinn. Hægt er að velja um fimm kosti; vil ekki fá tölvupóst, skráði mig aldrei á póstlistann, tölvupóstarnir eru óviðeigandi, tölvupóstarnir eru ruslpóstur og bera að tilkynna. Síðasti kosturinn er þessi: „Annað (færðu inn ástæður að neðan“. Og ég gerði það samviskusamlega með ofangreindum rökum og ýtti á „enter“. Þá kom upp þetta: 

Takk fyrr svörun þína.

Svona skrifa aungvir nema „kontóristar“ sem mæla dags daglega á einhverri stofnanamállýsku. Þetta er ekki beinlínis rangt en hver notar nafnorðið svörun en ekki svar? Doldið fyndið, ekki satt. Hins vegar þori ég að veðja að enginn skoðar hvers vegna einhver hættir á tölvupóstlista Hagstofunnar.

Tillaga: Takk fyrir svarið.

3.

„… kom í gær að dauðu folaldi í grjótagarðinum á Granda. Talið er að það hafi rakið þangað með öldum.“

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Tvennt er rangt í seinni setningunni. Sögnin að reka hefur hvergi þessa mynd sem þarna er birt. Rétt mynd er rekið sem er lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni. Svo er það hitt, að eitthvað hafi rekið með öldum. Þetta er bara vitleysa.

Í fréttinni er sagt frá folaldshræi sem fannst í grjóthleðslu vestur á Granda í Reykjavík. Ýmislegt er ámælisvert í þessari örstuttu frétt sem er aðeins 11 línur:

Við fundum það í gær í steinveggnum þarna. 

Af myndunum að dæma er þetta ekki steinveggur heldur grjóthleðsla. Og blaðamaðurinn heldur áfram:

Ég myndi halda að þetta hefði troðist með öldunum, …

Viðmælandinn segir þetta en blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að laga orðalagið eins og honum ber. Líklega er átt við að brimið hafi lamið hræið inn á milli grjóthnullunganna.

Þetta var mjög spes.

Hvað þýðir spes? Orðið finnst að vísu í Íslenskri nútímamálsorðabók á malid.is sem merkir að það þekkist en er alls ekki viðurkenning á þegnrétti í málinu. 

Ekki þarf annað en að „gúgla“ orðið og þá sést að það er mikið notað. Í þeirri stöðu sem það er hér að ofan er „spes“ lýsingarorð en það getur samt hvorki stigbreyst eða fallbeygst. Hvers vegna? Jú, orðið fellur ekki að íslensku máli.

Líklega er orðið dregið af enska orðinu „special“. Í setningunni hér að ofan mætti nota í staðinn lýsingarorðið sérstakur eða jafnvel skrýtið.

Annars er fróðlegt að lesa það hvað segir um spes í Íslenskri orðsifjabók á malid.is en athugið það er ekki sama „spes“ og í frétt DV: 

spes kv. (19. öld) stað- og ættbundið viðurnefni (um frekar stórvaxið fólk); spesarlegur l. ‘með slíku ættarmóti’. Viðurnefnið líkl. þannig tilkomið að sá sem fyrstur bar það fór oft með vísu um 

Spes er varð kona Þorsteins drómundar. En nafn hennar er líkl. s.o. og lat. spes <von>.

Þorsteinn drómundur var hálfbróðir Grettis og fór til Miklagarðs (sem nú nefnist Instanbul) til að hefna hans. Þar drap hann Þorbjörn öngul Þórðarson,Grettis, banamann Gréttis. Þorsteinn var ríkur og þótti virðingarmaður hinn mesti. 

Í Grettis sögu segir:

Þeir sögðu er næstir stóðu að sá hefði verið harður í haus og sýndi hver öðrum. Af þessu þóttist Þorsteinn vita hver Öngull var og beiddist að sjá saxið sem aðrir. Lét Öngull það til reiðu því að flestir lofuðu hreysti hans og framgöngu. Hann hugði að þessi mundi svo gera en hann vissi öngva von að Þorsteinn væri þar eða frændur Grettis.

Tók Drómundur nú við saxinu og jafnskjótt reiddi hann það upp og hjó til Önguls. Kom það högg í höfuðið og varð svo mikið að í jöxlum nam staðar. Féll Þorbjörn öngull ærulaus dauður til jarðar.

Þetta er hrikaleg myndræn frásögn. Takið eftir orðalaginu hann féll „ærulaus dauður til jarðar“. Óvenjuleg hlutdrægni með beinum orðum í fornriti. Ekki er síðri lýsingin á því er Spes kynnist Þorsteini. Af þeim er undurfögur og rómantísk saga sem er frekar óvenjuleg í fornritunum. Á vef Snerpu má lesa Grettis sögu og fleiri fornrit. Í 86. kafla byrjar þáttur Spesu og Þorsteins.

Tillaga: Talið er að það hafi rekið þangað. 

4.

Manchester United grein­ir frá því á vef sín­um að Norðmaður­inn Ole Gunn­ar Solskjær hafi verið ráðinn knatt­spyrn­u­stjóri fé­lags­ins til fram­búðar og er samn­ing­ur hans til þriggja ára.

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hér fer ekki saman að maðurinn hafi verið ráðinn til frambúðar og að hann sé ráðinn til þriggja ára. Öðru hvoru er ofaukið.

Á malid.is segir:

Orðið frambúð merkir: ending, framtíðarnot. Að eitthvað sé til frambúðar merkir því að eitthvað sé varanlegt. Athuga að frambúð merkir annað en framtíð.

Kjörnir fulltrúar á þingi og í sveitarstjórnum eru ráðnir til fjögurra ára og kjörtímabil forseta Íslands er fjögur ár. Þessi störf eru bersýnilega ekki til frambúðar.

Tillaga: Manchester United grein­ir frá því á vef sín­um að Norðmaður­inn Ole Gunn­ar Solskjær hafi verið ráðinn knatt­spyrn­u­stjóri fé­lags­ins og er samn­ing­ur hans til þriggja ára. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband