Grani er genginn aftur, aldrei gráðugri, gleymd er Geirríður
15.3.2019 | 14:33
Í þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.
Svo segir í Eyrbyggju. Frá upphafi Íslandsbyggðar var öllum heimil för um landið og hefur það verið lengst af síðan, þó með lítils háttar takmörkunum.
Frá örófi alda hefur stærð jarða miðast fyrst og fremst við þau hagnýtu not sem hafa mátti af þeim og þá eingöngu til búskapar. Utan heimajarða hafa menn átt ítök í skógum til eldviðar eða kolagerða, stærri svæða sem afrétti, en um eignir var aldrei um að ræða því hver hefði viljað eiga stærri lönd en hann réði við að annast og hver hefði getað selt slík lönd. Varla hefur nokkur maður átt heiðarnar, fjöllin, miðhálendið og jöklanna svo eitthvað sé nefnt.
Getur einhver haldið því fram að eigandi einfaldrar bújarðar eigi hreinlega fjallið fyrir ofan bæinn? Fjall sem er ekkert annað en fljúgandi björg og skriður þar sem varla sést stingandi strá né nokkur maður eða skepna hafi farið um.
Það er án efa ekkert annað en forn lygisaga að jörðin Reykjahlíð sé svo landmikil að hún eigi land allt suður að þeirri mörkum þeirrar bújarðar er áður var nefnd Skaftafell en er nú hluti af samnefndum þjóðgarði?
Menn hafa frá upphafi landnáms á Íslandi deilt um lönd og landamerki og það er ekki nýtt að landeigendur grípi til margvíslegra ráða til að stækka" jarðir sínar. Ár, lækir og sprænur hafa breytt um farveg, jafnvel þornað upp. Jöklar hafa gengið fram og eyðilagt lönd og hundruðum ára síðar hörfað. Hver á nú það land sem áður var hulið jökli? Stækkar land aðliggjandi jarða við það eitt að jökullinn hörfar eða verður til eitthvert tómarúm?
Hvar er steinninn stóri sem áður markaði línu til austurs í fossinn og hvort á að miða við fossinn eða miðja ána en ekki þennan eða hinn bakkann? Jú, steinninn þekkist ekki lengur og fossinn og áin eru löngu horfin og til hvaða ráða má þá grípa ef upp sprettur deila?
Ef til vill munar einhverjir eftir röksemdum lögmanns Austur-Eyjafjallahrepps sem þá hét, er ráðist var með gjafsókn dómsmálaráðuneytisins að ferðafélaginu Útivist fyrir það eitt að endurbyggja ónýtan skála efst á Fimmvörðuhálsi, í 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Í málflutningi lögmannsins sem nú er umboðsmaður Alþingis var því haldið fram að skálinn stæði innan landamerkja tiltekinnar jarðar sem þó var eitt þúsund metrum neðar og í 18 km fjarlægð. Hvernig það gat gerst að jörð gæti átt land" þar sem jökull hafði verið í hundruð ára fékkst aldrei útskýrt. Auðvitað var hreppurinn gerður afturreka með bull sitt.
Landeigendur bera oft fyrir sig þinglýsingar á landamerkjum. Á móti má spyrja hversu góð og ábyggileg gögn þinglýsingar eru, sérstaklega fornar? Dæmi eru til að hér áður fyrr hafi verið þinglýst bréfum sem gamalt fólk hafði handskrifað á bréfsnifsi um landamerki bújarða sinna, byggt á minni eða sögusögnum og yfirleitt óvottfest. Þannig gögn og fleiri af því tagi geta auðvitað ekki staðist og skiptir engu hversu gamlar þinglýsingarnar eru,
Menn hafa eðlilega leitað gagna í fornbréfasöfnum um landamerki en grunur leikur jafnvel á að þaðan hafi gögn verið numin á brott til þess eins að koma í veg fyrir að sönnunargögn finnist um deilumál.
Hugsanlega hefði fjármálaráðuneytið getað staðið öðru vísi að kröfum sínum í þjóðlendumálunum, en það er fjarri öllu lagi, að ráðuneytið hefði átt að láta hagsmuni landeigenda ráða ferðinni. Það eru meiri hagsmunir í húfi en landeigenda, og því er sú krafa eðlileg, að landeigendur fari aðeins með það land, sem þeir geti fært sönnur á að þeir eigi, - á því byggist eignarétturinn. Það er ekki eignaréttur né heldur er það sanngjarnt að Alþingi samþykki viðbótarlandnám mörgum öldum eftir að landnámi lauk.
Breytingar á landnotkun hafa orðið gríðarlegar á undanförnum árum. Nám ýmiskonar er orðið mjög ábatasamt, virkjanir, ferðaþjónusta, vegalagning, uppgræðsla og fleira og fleira má upp telja. Í þessu sambandi man ég eftir óbilgjarnri kröfu fyrrverandi eigenda jarðarinnar Fells sem töldu sig eiga Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul. Þeir gerðu einu sinni kröfu til þess að öllum myndatökum við Lónið væri hætt nema til kæmi greiðslur til þeirra!
Hver á Heimaklett í Vestmannaeyjum, Hamarinn í Vatnajökli eða Heljarkamb og Morinsheiði? Er til þinglýstur eigandi að Stapafelli undir Jökli, Sátu, Skyrtunnu og Kerlingunni í Kerlingarskarði. Hver á Tröllkallinn eða Böllinn við Ballarvað í Tungnaá? Og hver skyldi nú eiga Móskarðshnúka?
Þjóðlendulögin eru of mikilvæg til þess að þrýstihópur landeigenda megi fá nokkru ráðið um framgang þeirra. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá munu þeir girða lönd, ganga á rétt ferðamanna og heimt toll.
Hins vegar skipir nú mestu máli hver sé réttur okkar hinna, okkar landlausu landsmanna. Eigum við að láta hirða af okkur þau rétt sem landsmenn hafa haft haft sátt um á Íslandi frá upphafi byggðar? Eigum við að sætta okkur við það að meintir landeigendur girði lönd sín rétt eins og gert er uppi á Hellisheiði þar sem girðing hefur verið reist yfir forna þjóðleið.
Vera má að sumir landeigendur beri hag náttúrunnar sér fyrir brjósti. Það var þó ekki fyrr en fyrir um tuttugu árum að landeigendur fóru að sjá tekjuvon vegna fjölgunar ferðamanna. Fram að þeim tíma voru margar jarðir aðeins byrði á eigendum þeirra. Nú vilja fleiri og fleiri loka aðgangi að náttúruminjum, rukka fyrir aðganginn, og jafnvel eru þeir til sem vilja meina för fólks um óbyggði og ónýtt svæði nema gegn greiðslu.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir:
Á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) bjó í gamla daga bóndi sá, er Grani hét; var hann bæði ágjarn og auðugur. Alfaravegurinn lá um landeign hans eptir endilaungum Ölduhrygg sem nú er kallað Staðarholt, og verður enn í dag að fara um þennan veg, er ferðast er vestur undir Jökul eða þaðan inn á Mýrar eða í Dali, enda er vegur sá mjög fjölfarinn, bæði til kauptúnanna Ólafsvíkur og Búða, og til skreiðarkaupa vestur i pláss", sem kallað er, en það er Hjallasandur, Keflavík, Ólafsvik, og Brimilsvellir.
Grani bóndi þóttist nú geta náð miklu fé, ef hann tollaði veginn; byggði hann því afar mikinn torfgarð neðan frá sjó og upp í Langavatn (Staðarvatn). Hlið hafði hann á garðinum, þar sem vegurinn er, en veitti eingum fararleyfi, nema þeim, er greiddu Granatoll. Óljóst er með öllu, hve hár hann hefir verið, en illa undu menn tollgreiðslu þessari, enda launuðu þeir Grana bónda hana "því einhvern morgun fanst hann dauður hangandi við annan dyrastafinn í garðshliðinu.
Hefir sá vegur aldrei verið tollaður síðan. Það er auðséð á garðrúst þeirri, sem eptir er, að hann hefir verið ákaflega hár og þykkur, og leingd hans hér um bil 300-400 faðmar.
Segja má með sanni að nú sé Grani genginn aftur og illa magnaður. Gleymd er Geirríður í Borgardal.
Segja ráðherra skapa ófremdarástand | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Facebook
Athugasemdir
Einstaklega vel skrifað og rökstutt, Sigurður, mjög svo áhugavert.
Jón Valur Jensson, 16.3.2019 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.