Ákaft súkkulaði, nafnorðasýkin og nafnháttarsýkin
3.3.2019 | 16:08
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Gaupnir er íhvolfur lófi
Horfa/líta í gaupnir sér: hafast ekki að, vera auðgerðalaus. Keppinautarnir eru í stöðugri sókn meðan forráðamenn fyrirtækisins horfa í gaupnir sér - Hann situr bara og horfir í gaupnir sér meðan hann er hafður að fífli.
Svipað orðafar er kunnugt úr fornu máli: lúta í gaupnir sér í merkingunni láta í ljós sorg (Sturl.II 100).
Úr síðari alda máli er kunnugt afbrigðið sjá í gaupnir sér; íhuga e-ð.
Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson.
1.
Súkkulaðið er afar sérstakt á bragðið og ólíkt því sem við eigum að venjast en því er best lýst sem dökku og áköfu.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þeim sem er ákafur er lýst þannig að hann er afar áhugasamur, kappsfullur, spenntur og jafnvel æstur.
Á malid.is segir að á- gæti meðal annars verið herðandi forskeyti leitt af sögninni kafa á með eftirásettri forsetningu. Við endurtekinn lestur og smá hugsun er hægt að skilja þetta.
Af ákafur er leitt nafnorðið ákefð og ákafi.
Þessi einfalda lýsing á súkkulaði sem sagt er ákaft leiðir hugann að vínsmökkun sem þykir afskaplega fín iðja sérstaklega ef sá sem hana iðkar kyngir ekki víninu. Aðrir stunda vínsmökkun og kyngja því og kallast það almennt víndrykkja. Það þykir líka fínt, veltur þó á magninu.
Engin þversögn er talin í því að kyngja ekki vínsopanum og að kyngja honum. Hvað um það, lýsing á bragði víns er stundum broslegur orðaleikur sem fjölmargir vilja taka þátt í en útkoman verður stundum furðuleg og jafnvel óskiljanleg. Sérstaklega á það við lýsingar á erlendum tungumálum.
BRAGÐLÝSING: Ljóssítrónugult. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Pera, litsí, blómlegt, vanilla.
Þessi lýsing af vef Vínbúðarinnar (sem einu sinni hét ÁTVR) skilst vel, líklega vegna þess að víninu er ekki lýst sem áköfu.
Hér til hliðar er bráðfyndin en ýkt ensk lýsing á bragði víns. Því miður hef ekki getu eða tíma til að þýða hana. Smella á myndina og hún stækkar.
Ég vona að lesendur fyrirgefi mér þennan útidúr. Get mér þess til að bráðlega verði lýsing á bragði súkkulaðis álíka háleit og óskiljanlegt og í enska textanum.
Hins vegar er alltaf best að bíta í súkkulaðið og ef bragði hugnast manni þá kaupir maður það aftur. Skiptir engu hversu ákaft súkkulaðið er. Aftur á móti eru éta margir súkkulöð af ákefð (sthugið að súkkulaði er eintöluorð).
Mig langar til að bæta því hér við að ég ólst upp við að borða súkkulað. Maður beit í súkkulað. Þegar mamma bauð upp á súkkulaði þá var það drukkið. Orðið var haft um heitan súkkulaðidrykkur, brætt súkkulað, blandað við vatn og stundum rjómi með. Ég þori samt ekki að fullyrða að þetta sé rétt, systur mínar kunna að vita betur (raunar þykjast þær vita allt betur en ég enda eldri og reyndari).
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Barcelona var í gær að ganga frá nýjum langtímasamningi við spænska bakvörðinn Jordi Alba.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Flestir þekkja þágufallssýkina sem þó er engin sýki lengur, heldur eðlileg tjáning þó hún gangi í bága við rétt mál. Færri þekkja nefnifallssýkina en hún sækir mjög á og birtist í því að fólk beygir nafnorð, lætur nefnifallið duga.
Nýjasta nýtt er nafnháttarsýkin. Hún gríðarlega lúmsk og er þannig að sagnorð aðeins í nafnhætti en ekki notuð í til dæmis þátíð. Hoppaði verður var að hoppa og hugsaði verður var að hugsa. Ég er búin að hoppa, ég var að hoppa. Dæmin eru í sjálfu sér ekki röng en athugasemdin byggir á samhenginu. Í tilvitnuninni segir að félagið var að ganga frá, í stað þess að það gekk frá.
Síðar í fréttinni segir:
Ætli félag að kaupa upp nýjan samning Jordi Alba þá þarf viðkomandi félag að borga 500 milljónir evra eða 68 milljarða íslenska króna.
Hægt er að orða þetta á einfaldari máta:
Kaup á nýjum samningi Jordi Alba kostar 500 milljónir evra eða 68 milljarða íslenska króna.
Gera mætti athugasemdir við margt annað í þessari stuttu frétt.
Tillaga: Barcelona gekk í gær frá nýjum langtímasamningi við spænska bakvörðinn Jordi Alba.
3.
Efnavopnastofnunin notaðist við sýni úr umhverfi, vitnaskýrslur og önnur gögn sem aflað var af rannsóknarteymi sem heimsótti staði í Douma tveimur vikur eftir árásina.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Mikilvægt er að beygja nafnorð, annars fær maður nafnorðasýkina. Réttara er að segja að teymið heimsótti staðinn tveimur vikum eftir árásins.
Mörgum kann að finnst þessi athugasemd vera algjört smáatriði. Jæja, en smáatriðin í málinu skipta gríðarlega miklu. Frétt sem er til dæmis ekki með réttum fallbeygingum er skemmd frétt. Ekkert minna enn það. Skemmdar fréttir smitar út frá sér og íslenskunni hrakar þar til fallbeygingin heyrir sögunni til að málið verður eins og svo mörg önnur tungumál.
Þess vegna skiptir svo öllu að blaðamenn séu vel lesnir á íslenskri tungu, hafi alist um við bóklestur og hafi stundað hann alla tíð. Blaðamaður sem hefur aldrei verið fyrir bókin skrifar yfirleitt lélegt mál og hefur rýran orðaforða.
Enginn fylgist með því hvort fjölmiðlar fari rétt með íslenskuna, öllum virðist andsk... sama. Nema auðvitað á tyllidögum.
Annars er þessi málsgrein hér að ofan torf og hefði mátt einfalda að mun. Hún er greinilega þýðing, líklega áferðarfalleg á ensku en ómöguleg á íslensku.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:09 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður.
Þú ert í miklu uppáhaldi hjá mér eftir að hafa tekið upp kyndilinn frá Eiði Guðna.
Hvernig væri að þú myndir nú gera athugasemd við málfar íþróttafréttarita?
Gummi Ben segir t.d. alltaf að boltinn hafi "verið gefinn fyrir af" einhverjum, í stað þess að segja að Ryan Giggs hafi gefið fyrir.
Hvaaða lasleiki er þetta í íslensku máli?
Gylfi Thor Orrason (IP-tala skráð) 4.3.2019 kl. 09:22
Sæll Gylfi,
Bestu þakkir fyrir vinsamleg orð. Held að fáir fari í skóna hans Eiðs. Hann var afar vel að sér og hafði glöggt auga fyrir málinu. Ég tók bara upp á þessum andskota vegna þess að mér ofbýður stundum málfar í fjölmiðlum. Áður lét ég nægja að senda nöldrið mitt á Eið.
Íþróttablaðamenn eru dálítið sér á báti. Þeir eru vel að sér um íþróttir en margir eru óttalegir klaufar í skrifum og tali.
Að þessu sögðu verðum við að gera greinarmun á ritmáli og talmáli. Í beinum lýsingum frá fótboltaleikjum tala menn hratt til að hafa í við það sem er að gerast á skjánum. Þá verður ýmislegt til. Ekki tekur langan tíma að finna ýmiskonar gullkorn á netinu:
Ég held að það hafi verið Guðmundur Benediktsson sem fann upp á því að kalla það sem vel er gert í fótbolta „geggjað“. Aðrir hafa tekið þetta upp eftir honum og nú er allt orðið rosalega geggjað á einn veg eða annan. Þannig verða ákveðin orð vinsæl og svo dalar gengi þeirra.
Gummi Ben gerir margt gott. Hann er skýrmæltur, kveður rétt að og hefur yfir að ráða ágætum orðaforða. Gott er að hlusta á hann. Vandinn er hins vegar sá að þegar hann segir eitthvað rangt eru ekki margir sem leiðbeina honum. Við þurfum öll jákvætt aðhald.
Varðandi dæmið sem þú nefnir:
Hins vegar á þolmynd ekki alltaf við, getur komið dálítið kauðslega út sérstaklega ef við erum að tala um Ryan Giggs. :
Boltinn var gefinn fyrir af Ryan Giggs en Solskjær skoraði.
Gummi Ben ætti þó að nota germynd oftar enda fer betur á því:
Solskjær skorði eftir fyrirgjöf frá Ryan Giggs.
Læt þetta nú gott heita enda er þetta orðið eins og venjulegur pistill að lengd. Vonandi hef ég farið rétt með „en hafa skal það sem er sennilegra“, eins og kallinn sagði og glotti.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.3.2019 kl. 10:55
Svona framkallast greinaskil á Moggablogginu: „ og “
Úr verður ólæsilegur andskoti.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.3.2019 kl. 10:59
Átti að vera gæsalappi í ofangreindri athugasemd.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.3.2019 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.