Sambandið við stýrið, sterku áhlaupin og kjánalegi tímapunkturinn

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Lesendur geta sent tilvitnanir eða athugasemdir um málfar á netfangið: sigurdursig@me.com. 

Sólarroð

Sólarroð er sárasjaldan á tungu um morgunroðann, skin sólar við dagrenningu, en orðið er prýðilega nothæft til þess að auka blæbrigði tungutaksins. Orðið birtist í Morkinskinnu …

Og þegar um morguninn í sólarroð vakna þeir og sjá að mjörkvi [þoka] lá mikil allt um eyna.

Orðið er líka í Sverris sögu Noregskonungs:

Sverrir konungur stóð upp þegar í sólarroð og gekk upp á bakka til Ólafskirkju og síðan til varðmanna sinna.

Geymdur og gleymdur orðaforði eftir Sölva Sveinsson, Iðunn 2017.

1.

„Björguðu vélarvana bát út af Stokksnesi. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Er ekkert að marka fréttina? Í fyrirsögn segir að báturinn hafi verið vélarvana samt segir í fréttinni:

Báturinn hafði verið við veiðar þegar hann missti samband við stýrið og rak hann því stjórnlaust frá landi.

Hvort var báturinn vélarvana eða stýrið bilað? Hvernig er hægt að missa samband við stýrið? Af hverju dettur blaðamanninum ekki í hug að spyrja að því? 

Hvort er verra, að missa samband við stýrið eða það bili?

Þetta er ófullnægjandi frétt, varla hálfskrifuð. Þannig er hún líka í fleiri fjölmiðlum og orðalagið því frá Björgunarfélagi Hornafjarðar eða Landsbjörgu. Hér er ábyrgðin hjá Vísi.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

„Leikurinn fór skringilega af stað en Valskonur byrjuðu á sterku áhlaupi en Stjörnukonur svöruðu með sterkara áhlaupi, leikurinn byrjaði á miklum hraða og mjög skemmtilega. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun skringileg vegna þess að hún segir ekkert. Körfubolti gengur út á að liðin tvö skipast á að sækja, þar af leiðandi er sókn eiginlega ekkert annað en áhlaup. Hvað er „sterkara áhlaup“?

Blaðamaðurinn er mjög hrifinn af nafnorðinu áhlaup, notar það sjö sinnum í fréttinni. Hann veit samt ekkert hvað nástaða er sem er slæmt. Verra er þó að hann virðist ekkert vita hvað orðið áhlaup merkir. Skilur til dæmis einhver þetta:

Þriðji lekhluti byrjaði eins og sá fyrsti. Mikið um áhlaup og skiptust liðin á áhlaupum. 

Ein prentvilla, nástaða og innihaldsrýrar setningar. 

Fréttin er einfaldlega illa skrifuð og tímaeyðsla að eltast við villur í þessu bulli. Blaðamaðurinn hefði betur lesið textann nokkrum sinnum yfir. Líklega tíðkast ekki á Vísi að leiðbeina ungum blaðamönnum í textagerð.

Þetta er skemmd frétt og lesendum ekki bjóðandi.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

3.

„Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi á einhverjum tímapunkti bragðað vörur bakarísins Brauð & Co. 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Þarna er enn og aftur orðið „tímapunktur“ notað. Það er alltaf óþarft í íslensku máli og má stroka út án þess að merking þess sem sagt er breytist.

Blaðamaðurinn er greinilega byrjandi og ekki vanur skrifum. Það sem verra er, honum er ekki leiðbeint. Upphafið fréttarinnar er svona:

Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi á einhverjum tímapunkti bragðað vörur bakarísins Brauð & Co. Ágúst Einþórsson stofnandi Brauð & Co sagði í fyrirlestri sínum á opnum fundi Félags atvinnurekenda að staðnaður markaður hérlendis hafi orðið til þess að hann sneri heim til að breyta leiknum.

Svona gengur ekki. Hvernig fær blaðamaðurinn það út að „flestir höfuðborgarbúar hafi bragðað vörur bakarísins“? Þetta er fullyrðing sem ekki stenst nema rök fylgi. 

Nástaðan er kjánaleg. Blaðamaðurinn endar setningu á nafni bakarísins og byrjar þá næstu með nafninu. Seinna skiptinu er ofaukið. 

Loks segir að stofnandinn hafi ætlað að „breyta leiknum“. Líklega ætlaði hann að breyta markaðnum.

Gera mætti athugasemdir við margt fleira í fréttinni.

Tillaga: Ætla má að flestir höfuðborgarbúar hafi bragðað vörur bakarísins Brauð & Co.

4.

Það er gaman að þú segir tölta því að þetta er einmitt ekki Norðurstrandavegur vegna þess að við viljum að ferðamenn fari um og stoppi, fari út úr bílnum.“ 

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Verið er að kynna svokallaðan Norðurstrandaveg, vegi sem liggja með ströndum Norðurlands allt frá Hvammstanga í vestri til Þórshafnar í austri. Skemmtileg hugmynd. Svo rakst ég á þessa undarlegu málsgrein sem hér er vitnað til.

Með kynningu á Norðurstandavegi er ætlast til að ferðamenn stoppi oft, skoði sig um og njóti staðhátta. Berum svo saman tilvitnunina og tillöguna hér fyrir neðan. Hvor er skárri?

Ég hef rökstuddan grun um að margir blaðamenn sem skrifa á Vísi lesi ekki yfir fréttir sínar. Já, þetta er stór fullyrðing. Verra er þó ef þeir lesi yfir en geri samt villur á borð við þess og margar aðrar.

Tillaga: Það er gaman að þú segir tölta. Tilgangurinn með Norðurstandavegi er einmitt sá að ferðamenn stoppi, stígi út úr bílnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband