Orðaleppar, aðhlynntur og vopnað hugarfar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Ljótir orðaleppar

Ég er málvöndunarmaður í hófi, en stundum fer þó orðalag í taugarnar á mér. […] Þess vegna varð ég svolítið glaður þegar ég sá rithöfundinn Hermann Stefánsson taka þetta upp á Fésbókinni í dag:

Óskaplega eru þeir ljótir þessir orðaleppar „hjólar í“ og „drullar yfir“. Í þeim er einhver asnaleg heimsmynd þar sem fólk stendur í eilífum hanaslag, hjólar um allt með hetjusvip og drullar með ekki minni svip. 

Af hverju má ekki segja „gagnrýnir harðlega“ eða „vegur að hugmyndum“ eða „átelur“, „finnur að“, „tekur til bæna“, „setur ofan í við“, „hæðist að“ eða bara „gagnrýnir“? Jafnvel „sproksetur“ eða „sallar niður“ ef menn vilja hafa það sterkt? 

Mætti vinsamlegast breyta þessu? Ókei. Takk fyrir.

Silfur Egils. Egill Helgason, 17.11.2015.

 

1.

„Nem­ar und­ir álagi bjargi sér með lyfj­um. 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Þegar sagnorð er notað í viðtengingarhætti í germynd, á eins og gert er í fyrirsögninni á Moggavefnum, þá virkar hún stundum þveröfugt við það sem ætlast er til. Ég skil hana þannig að skorað sé á námsmenn að þeir bjargi sér með því að taka lyf. Viðtengingarhátturinn er stundum vandmeðfarinn.

Staðreyndin virðist hins vegar vera allt önnur samkvæmt fréttinni. Sumir námsmenn misnota lyf sem nefnd eru, halda að þau auki námsárangur. Einnig eru margir í vinnu með námi sem eykur álagið og þar af leiðandi er gripið til lyfja svo þeir þoli álagið.

Í tillögunni hér fyrir neðan er annarri sögn bætt við til þess að málsgreinin gefi ekki til kynna að lyfin séu einhver töfralausn.

Tillaga: Nemar undir álagi reyna að bjarga sér með lyfjum 

2.

„Samkvæmt Páli liggur umræddur nemandi nú heima fótbrotinn, sárkvalinn og illa aðhlynntur. 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Sögnin að hlynna merkir að styðja eða hlúa að. Hlynna að þýðir að hjálpa aðstoða eða hlúa að.

„Aðhlynna“ er ekki til, hvorki sem sögn eða eitthvað annað. Allir sem hafa sæmilegan orðaforða vita þetta. Villan er slæm hjá DV og þar á bæ þurfa blaðamenn að taka sér tak og ekki síður ritstjórnin.

Hér er dálítill fróðleikur. Á malid.is segir:

hlunnur [...] ‘viðarkefli (eða hvalbein) til að setja bát eftir; bátsskorða; handfang á ár’ ...

hlynna s. leggja hlunna undir bát; styðja, liðsinna, hlúa að, vera hlynntur ...

Forðum drógu menn báta sína upp í fjöru á hlunnum, sem voru sívalir viðarbolir. Þeir rúlluðu með bátnum og þá varð viðnámið minna. Þar sem ég var í sveit lagði bóndinn hins vegar árarnar í fjöruna og svo hjálpuðumst við að draga eða ýta bátnum upp á öruggan stað.

Vildu menn að bátar stæðu voru þeir skorðaðir, hlynntir.

Í dag er fólk hlynnt (lýsingarorð) eða mótfallið einhverju, sumir hlynntari og jafnvel kann að vera að meirihlutinn sé hlynntastur því að hlynna að sjúkum, veita aðhlynningu.

Á skattframtali þarf hver og einn að telja fram þau hlunnindi sín og eru þau skattlögð samkvæmt ákveðnum reglum. Önnur hlunnindi þarf ekki að telja fram, til dæmis rekavið, húsnæði sem liggur vel við sólu (sól), berjaland og svo framvegis.

Svona breytist málið og gömul orð fá nýja merkingu.

Tillaga: Páll segir að umræddur nemandi liggi fótbrotinn heima, sárkvalinn og án nauðsynlegrar aðhlynningar.

3.

„Með hugarfar sigurvegara að vopni. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 31.1.2019.     

Athugasemd: Eftir að hafa lesið þessa fyrirsögn datt mér í hug hvort hægt sé að „oforða“ hlutina. Ég fletti orðinu samstundis upp og komst að því að það er ekki til. Hins vegar er í orðabók að oftala (of-tala ekki oft-ala, sem er ábyggilega eitthvað annað sem og of-ala). Oft eru mál rædd út í hörgul en stundum eru þau oftöluð. Flestir þekkja stjórnmálamanninn sem oftalar allt en segir í raun ekkert merkilegt.

Fréttin í íþróttablaðinu er vel skrifuð og upplýsandi en ég velti því samt fyrir mér hvort ekki hefði verið beittara að nota tillöguna hér fyrir neðan sem fyrirsögn. Ástæðan er einfaldlega sú að hún segir nóg, hugarfar sigurvegarans er alltaf „vopn“ hvernig sem á það er litið.

Skilningur lesandans á rituðu máli byggir á stílnum. Sumt þarf ekki að orða, það liggur oft í augum uppi án þess að umræðuefnið sé tíundað „í ræmur“ eins og sagt er.

Tillaga: Hugarfar sigurvegarans.

4.

„Fyrirtækið er með starfsmenn með fjölbreytta menntun og reynslu sem getur séð um allar viðgerðir fasteigna. 

Seld „kynning“ á dv.is.     

Athugasemd: Flestir fjölmiðlar selja pláss til að eiga fyrir útgjöldum. Þetta eru auglýsingar, stundum kallaðar „fréttir“ en einnig „kynning“ og þannig er það hjá DV.

Málsgreinin hér fyrir ofan er klúður. Blaðamaðurinn hefði átt að umorða hana. Þarna segir að fyrirtækið sé með starfsmenn með fjölbreytta … Nástaðan sem og orðalagið er algjör óþarfi og auðvelt að laga.

Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé sagt, að það sé fyrirtækið sem geti séð um viðgerðir eða starfsmennirnir. Tilvísunarfornafnið sem bendir til starfsmannanna en sögnin getur er í eintölu og á þá við fyrirtækið.

Tillaga: Starfsmennirnir hafa bæði fjölbreytta menntun og reynslu. Þeir geta séð um allar viðgerðir fasteigna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband