Takklæti eða þakklæti ... á hádegiverði eða í hádegisverði
25.1.2019 | 14:42
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu sín á milli á hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Má vera að þetta sé algjört smáatriði en réttara er að segja að þeir hafi deilt í hádegisverði. Veiti ekki hvað það þýðir þegar forsetningin á er notuð um hádegisverðinn.
Nokkur munur er á sögnunum að deila og rífast. Hið fyrrnefnda merki þræta en hið síðara er orðasenna sem er nokkuð óvægnari en deila. Blaðamaðurinn gerir hins vegar engan greinarmun á orðunum. Fyrst í stað talar hann um deilur svo voru þingmennirnir að rífast. Þetta eru slæm vinnubrögð og fyrir vikið verður fréttin ekki trúverðug.
Á vefmiðli Washington Post segir er enska sögnin clash notuð. Hún getur vissulega þýtt deilur. Orðabókin segir:
confrontation, angry exchange, shouting match, war of words, battle royal, passage of arms; contretemps, quarrel, difference of opinion, disagreement, dispute
Síðar í ensku fréttinni er talað um argument sem líka má þýða sem deilur en varla rifrildi.
Hafi þingmennirnir deilt þá var það þeirra á milli, þetta var lokaður hádegisverðarfundur.
Í fréttinni stendur þetta líka:
Þegar fréttamaður benti honum á að það vinna, því annars yrðir þú rekinn, væri ekki að bjóðast til að vinna
Þetta er óskiljanlegt. Hins vegar skildi ég málsgreinina með því að lesa mynd af Twitter-færslu sem fylgdi fréttinni. Mér finnst blaðamaðurinn þurfi að vanda sig betur. Hvað eftir annað birtir hann skemmdar fréttir. Allir eiga að lesa yfir skrif sín og vera um leið frekar gagnrýninn. Í fréttinni eru margar leiðinlegar villur og klúðurslegt orðalag.
Tillaga: Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu í hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu
2.
Takklæti í tíu ár, <3 #10ychallangeaccepted
Auglýsing í tölvupósti frá Nóva.
Athugasemd: Hvernig má það vera að stórt og öflugt fyrirtæki sem býður Íslendingum þjónustu geti ekki notað íslensku í auglýsingum sínum? Takklæti er bull, orðið er ekki til. Jafnvel léleg íslensk leiðréttingaforrit gera athugasemd við orðið.
Tölvupósturinn er ótrúleg vanvirðing við íslenskt mál. Það sem stendur eftir kommuna er óskiljanlegt.
Textinn í auglýsingin er svona:
Við erum stolt, glöð, ánægð, hrærð, uppveðruð og kát, en fyrst og fremst endalaust þakklát ykkur, viðskiptavinum Nova, fyrir öndvegiseinkunn í Íslensku ánægjuvoginni. Viðskiptavinir Nova eru ánægðustu viðskiptavinirnir í farsímaþjónustu, tíunda árið í röð. Takk.
Mér finnst tölvupósturinn ekki sýna viðskiptavinum Nóva, neitt þakklæti, þvert á móti. Í auglýsingunni er bull og skelfileg nástaða.
Af hverju er ekkert samræmi; takklæti í fyrirsögn en þakklæti í texta? Þetta er ekki einu sinni fyndið eða svalt. Fyrirtæki eiga ekki að verja fé og vinnu fólks í að misþyrma íslenskunni, hún á við nægan vanda að etja svo þetta bætist nú ekki við.
Íslendingar ætlast til þess að fyrirtæki hafi samskipti við þá á íslensku. Punktur.
Hér er ekki úr vegi að ræða um þakkir. Langt er síðan við tókum upp í íslensku danska orðið takk. Í Málfarsbankanum segir:
Sumir hafa amast við orðunum takk fyrir vegna danskra áhrifa. Benda má á þökk fyrir eða þakka þér fyrir í þeirra stað.
Frekar er mælt með því að segja eiga þakkir skildar en eiga þakkir skilið enda þótt hið síðarnefnda sé einnig tækt.
Samkvæmt íslenskri orðsifjabók er nafnorðið þökk náskylt tøkk á færeysku, takk á nýnorsku, tack á sænsku og tak á dönsku. Á þýsku er samstofna orðið danke og thank(s) á ensku.
Mjög sjaldgæft er að einhver segir: Þökk fyrir, miklu frekar takk fyrir. Hins vegar er nafnorðið þakklæti alltaf notað, enginn asnast til að segja takklæti, nema Nóva.
Tillaga: Þakklæti í tíu ár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2019 kl. 16:32 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður.
Í umfjöllun visir.is um
þátt sem verður á sunnudag á RÚV
er þetta gullkorn að finna:
"Efnistökin í þættinum falla ekki öllum í kram...".
Húsari. (IP-tala skráð) 26.1.2019 kl. 17:41
Þessi fer nú í gullkistuna. Ertu með link á þetta?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.1.2019 kl. 17:46
Gott að fá sér kremkex með þessu krami öllu!
http://www.visir.is/g/2019190129146
Húsari. (IP-tala skráð) 27.1.2019 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.